15.01.1952
Efri deild: 59. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Út af orðum hv. 1. landsk. vil ég bara taka það fram, að vitanlega er það hverjum heimilt hér á Alþ. að leggja fram till. varðandi atvinnumál og annað slíkt. En Alþ. hefur nú staðið síðan 1. okt., og má því ætla, að það sé nægilega langur tími til þess að koma fram með till. í sambandi við þessi efni.

Ríkisstj. hefur athugað þær till., sem fram hafa komið til úrbóta, og ekki sízt þær till., sem komið hafa frá stjórnarandstöðunni, en þær till. virðast mér ekki hafa verið raunhæfar. En ríkisstj. lítur svo á, að ekki sé hægt að láta Alþ. standa allt árið af þeim ástæðum, að ekki liggi enn fyrir till. hvað þetta snertir.

Ég vil mælast til þess, að hv. 1. landsk. og flokkur hans geri sínar till. í sambandi við þessi mál við till. ríkisstj. í Sþ. Ég geri ráð fyrir, að þessu Alþ. ljúki innan tiltölulega fárra daga, eins og hæstv. forseti hefur fram tekið.