18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

168. mál, ríkisreikningar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hv. samstarfsmaður minn, 1. þm. Árn., hefur svarað því, sem ég þurfti að minna á, sérstaklega um skyldur fjhn. í þessum efnum, því að hún hefur þær skyldur sem aðrar nefndir að gera till. varðandi þau mál, sem til hennar er vísað, og þannig einnig í þeim atriðum, sem við leggjum til að verði vísað til Alþingis, því að ef fjhn. vildi eitthvað gera, þá ætti hún að flytja till. um það atriði, sem er hér um að ræða.

Það er að skilja á hv. frsm., að það sé óþarfi hjá okkur yfirskoðunarmönnum að vera með nokkurn samanburð á reikningunum. Þetta getur verið álitamál, því að það er gott lag á ríkisbókhaldinu. En þetta hefur verið regla, að menn bæru saman reikningana sjálfa, en það er mikið verk. Hann telur, að það sé annað, sem við eigum að gera, það sé að athuga, hvað hefur verið samþ., og bera saman við fjárlögin. En slíkt er alveg út í bláinn. Sú endurskoðun á skýrslunum, sem við eigum að athuga fyrst og fremst, er sú, sem á sér stað, þegar afgreidd eru atriði, sem þarfnast úrskurðar.

Það er slæmt, að hæstv. fjmrh. er farinn út, en ég vænti, að því verði skilað til hans, en hann taldi mikið ósamræmi af minni hálfu að hafa látið það viðgangast um tvo reikninga, árið 1948 og 1947, að hafa skilað athugasemdum og samþ. þá reikninga, en vilja nú taka harðar á málinu en áður hefur verið. Það er svo frá okkar hálfu, minni og hv. 1. þm. Árn., að við höfum bent á. hverju væri áfátt, að hér væri búið að ganga umfram það, sem rétt væri að gera, þrátt fyrir það að við hefðum látið undan að skila athugasemdum við þessa reikninga. Það er vissulega eðlilegt, að ráðh. segi, að þetta verði ekki látið viðgangast áfram. En þó að maður geri vel einhvern tíma, þá á ekki að halda því áfram, því að þetta hefur alltaf farið versnandi á undanförnum árum ag aldrei komið eins margt fram og nú á þessu ári í sambandi við ríkisreikningana. Og þó að ég hafi tekið þátt í því að afgreiða athugasemdir sem yfirskoðunarmaður, þá get ég setið hjá við atkvgr. hér í þessari hv. d.

Að öðru leyti skal ég ekki um þetta fjölyrða. Ég vona, að það fari batnandi í þessu efni. En það hefur ekki bólað mikið á því enn þá. Frá því að ég varð yfirskoðunarmaður, þá hefur farið versnandi. Og þrátt fyrir það að við yfirskoðunarmenn höfum gert athugasemdir við misfellur þær, sem á þessum liðum eru og rætt hefur verið um, þá hefur það aldrei skeð á þessu tímabili, að við höfum haft með að gera jafnstórkostlegar umframgreiðslur og á árinu 1948 og 1949, en eitthvað minni árin 1950 og 1951. Og við endurskoðun þessara reikninga kemur það skýrar í ljós, að það fer alltaf meira og meira að þokast í þá átt að láta undan kröfum þeirra, sem vilja í öllu fara eftir eigin höfði.