21.01.1953
Neðri deild: 54. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, fyrst og fremst til þess að finna að því, að hv. frsm. allshn. skuli ekki vera viðstaddur hér í hv. d. til þess að leggja mál þetta fyrir og gera grein fyrir afstöðu nefndarinnar. Ég hefði raunar talið eðlilegt, að umr. yrði frestað, þangað til hv. frsm. væri viðstaddur og gæti gert grein fyrir nefndarstörfunum. Í öðru lagi finnst mér það miður, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera hér viðstaddur, þegar mál þetta er rætt við 2. umr. Ég hefði gjarnan viljað koma á framfæri við hann fáeinum spurningum varðandi málið.

Við 1. umr. málsins bar ég fram þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvað liði þeim fyrirmælum, sem hann samkv. 2. gr. gildandi laga á að setja varðandi birtingu á nöfnum þeirra, sem verða uppvísir að óhóflegri álagningu á vörur eða þjónustu, en í gildandi lögum er svo kveðið á, að verðgæzlustjóra sé heimilt að birta nöfn manna, sem verða uppvísir að óhóflegri álagningu. Jafnframt er lögð sú skylda á ráðh. að setja reglur um þessa nafnabirtingu. Ég spurði um það við 1. umr. málsins, sem fór fram fyrir um hálfum öðrum mánuði, ef ég man rétt, hvað liði setningu þessara reglna og hvenær mætti vænta þess, að verðgæzlustjóri notaði heimild sína til slíkrar nafnabirtingar. Þá fengust engin svör við þessari spurningu. Hæstv. ráðh. sagði, að málið væri í athugun og mjög bráðlega mundi almenningur allur frétta um aðgerðir í málinu. Síðan er liðinn, að því er ég held, hálfur annar mánuður, án þess að ráðh. hafi nokkuð hafzt að, nokkra skýringu gefið almenningi, og að því er mér bezt er kunnugt, ekki heldur þeim þingdeildum, sem um málið hafa fjallað.

Mér leikur mikil löngun á að geta beint um það fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvað þessu máli eiginlega líði, og finnst jafnvel óeðlilegt, að deildin afgreiði málið við 2. umr., án þess að gefizt hafi tækifæri til þess að ræða það við frsm. nefndarinnar og hæstv. viðskmrh.