23.01.1953
Efri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1098)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. 1. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef nú að vísu ekki enn getað kynnt mér til hlítar nál. hv. meðnm. minna, því að ég hef ekki séð þau álit fyrr, en nú rétt áður, en ég kom á fundinn. En það er staðreynd, að n. hefur þríklofnað um þetta mál, þó að milli mín og hv. þm. Barð. beri í raun og veru ekkert í því, sem er aðalatriði þessa máls, hvort beri að setja einhver takmörk við því, að fjölskyldubætur séu greiddar til manna með meðalháar tekjur eða jafnvel hæstu tekjur. Þetta er í augum okkar beggja, að ég hygg, aðalatriði málsins, og það var staðreynd, að í n. voru fleiri, sem litu svo á, að slíkt takmark bæri að setja, að það væri réttara, þó að það hafi orðið svo, að meiri hl. n., 3 hv. nm., hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að þeir verði að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Ég hef borið fram brtt. við 3. gr. frv., sem er byggð, eins og segir í nál. mínu, á þeim samkomulagsgrundvelli, sem fundinn var í nefndinni a.m.k. milli 4 nm., ef sú leið yrði farin, sem við hv. þm. Barð. lögðum áherzlu á að farin yrði, að takmarka greiðslu bóta við ákveðið mark tekna. Fyrri hl. till. minnar er samhljóða brtt. hv. meiri hl. á þskj. 584, sem hv. frsm. meiri hl., hv. 8. þm. Reykv., hefur þegar gert grein fyrir. En síðari hluti till. minnar er hins vegar efnislega samhljóða till. hv. þm. Barð. á þskj. 585.

Ég var ekki viðstaddur 1. umr. þessa máls og sat ekki heldur fyrsta fund n. um það, en það mun þá hafa komið fram hér við 1. umr. málsins eða á þessum fyrsta fundi n., að hv. þm. Barð. hafði þá skoðun, að það bæri að takmarka greiðslu fjölskyldubótanna við eitthvert tekjuhámark. Ég gerði strax, þegar ég kom að störfum í n. um þetta mál, grein fyrir því, að þetta væri einnig mín skoðun og ég legði mikla áherzlu á það, að frv. væri breytt í þá átt. En með því að aðrir nm., sem störfuðu að málinu, virtust vera einnig á þessari skoðun, þá var reynt að komast að samkomulagi um orðun till. á þessum grundvelli. En á síðustu stundu reyndist það svo, að tveir hv. nm. treystu sér ekki til að fylgja fram till. á þessum grundvelli.

Í frv., eins og það liggur fyrir frá hæstv. ríkisstj., voru engin takmörk sett við greiðslum fjölskyldubóta. Samkv. því eiga jafnvel tekjuhæstu menn þjóðfélagsins að fá fjárhagsaðstoð af almannafé til uppeldis 2. og 3. barns. Og það er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, í mínum augum aðalatriði þessa máls, hvort þetta eigi að vera svo eða hvort það sé réttara og skynsamlegra að setja takmörk við þessu miðað við tekjur manna. Og ég álít, að það sé fullkomlega heimilt að ræða þetta eitt, án tillits til þess, hvernig þetta frv. er tilkomið, en það er hins vegar gert að aðalatriði af hv. meiri hl. n. Ég vil spyrja, hvaða tilgang það ætti að hafa, að þjóðfélagið bjóði manni með 100 þús. kr. tekjur nokkur hundruð króna styrk eða aðstoð til uppeldis barna sinna. Í mínum augum er þetta fjarstæða, og ég held, að í augum þeirra manna, sem hafa háar tekjur og hæstu tekjur í þjóðfélaginu, sé þetta beinlínis hlægilegt. Mér er ekki kunnugt um, að það hafi komið fram neinar óskir í þessa átt nokkurn tíma eða till. um, að slíkar „umbætur“ yrðu gerðar á tryggingunum, að tekjuhæstu menn fái fjárhagsaðstoð til uppeldis barna, svo kallaðar fjölskyldubætur. Ég hef haldið, að tilgangur allra þeirra bóta til uppeldis barna, sem felast í tryggingalögunum, eins og þau eru nú, þar með taldir fæðingarstyrkir, barnalífeyrir, mæðralaun, sem nú er fyrst gert ráð fyrir að taka inn í lögin, en hefur verið rætt um áður, og fjölskyldubóta sé að tryggja það, að börn fátækra foreldra eða börn, sem eru vanrækt af foreldrum sínum, njóti sómasamlegrar aðbúðar og bíði ekki tjón á heilsu sinni, andlegri eða líkamlegri, vegna efnalegs skorts og það og ekkert annað sé tilgangur allra þessara bóta, sem gert er ráð fyrir í tryggingalögunum og þar með í þessu frv.

Ég held, að ef menn hafa vel sæmilegar tekjur eða jafnvel það, sem nefnt er hátekjur, þá sé engin hætta á því, að fólk veiti ekki börnum sínum alveg sómasamlega aðbúð, því að menn vita, að tilhneigingin til þess er rík. Og ef efni eru sæmileg, þá þarf ekki að gera ráð fyrir því, að börn manna skorti efnalega. En hitt er svo annað mál, að vel má vera, að menn með háar tekjur og hæstu tekjur skorti annað til þess að geta veitt börnum sínum fullkomið uppeldi. Þá getur skort sérfræðilega aðstoð, og ef um slíka þjónustu væri að ræða af hálfu þjóðfélagsins í formi trygginga eða öðruvísi, þá gæti ég vel skilið það, að það kæmu fram kröfur um það af hálfu hátekjumanna, að þeir sætu þá við sama borð og aðrir. Og ég teldi, að þá ættu þeir fullan rétt á því, eins og t.d. ef sú aðstoð væri sambærileg við þá læknishjálp, sem er látin í té jafnt ríkum sem fátækum. En enn sem komið er er ekki um neina slíka þjónustu að ræða af hálfu þjóðfélagsins í gegnum tryggingakerfið að þessu leyti. Það eru aðeins greiðslur í peningum, sem um er að ræða. En menn með 100 þús. kr. tekjur t.d., og þeir munu vera allmargir í okkar þjóðfélagi, sem hafa það, hafa í mínum augum lítið að gera með greiðslu í peningum, þó að þeir hins vegar gætu haft þörf fyrir sérfræðilega þjónustu í þessum efnum. Og meðan tryggingakerfið lætur ekki annað í té, en fjárhagslega aðstoð, þá get ég ekki séð, að það hafi neinn skynsamlegan tilgang að veita mönnum, sem hafa vel sæmilegar tekjur eða hátekjur, slíka aðstoð.

Ég hef ekki orðið var við heldur, eins og ég sagði áðan, að neinn hafi óskað eftir slíku, og mér hefur ekki getað skilizt, að það sé nein þörf fyrir það. Tryggingakerfi okkar er ekki enn svo fullkomið, að það sé ekki hægt að benda — ég held á nærri því hvern einasta flokk í tryggingakerfinu, sem sé meiri þörf á og fremur ástæða til að auka heldur en þennan flokk, fjölskyldubætur til hátekjufólks eða efnaðs fólks, að minnsta kosti á meðan þær bætur eru greiddar í peningum. Tryggingakerfi okkar er stundum talið næsta fullkomið, en það er nú samt ekki fullkomnara en svo, að enn þá verða fjölskyldufeður með nokkur börn, sem njóta þó ríflegustu bóta, sem látnar eru í té, í þeim tilfeilum, þegar þeir hafa misst vinnugetu sína að langmestu eða öllu leyti um lengri tíma, eftir sem áður nú í dag, þrátt fyrir tryggingarnar, að leita til sveitar sinnar, og mætti nefna mörg átakanleg dæmi um þetta. Það er í mínum augum mesti ókostur trygginganna, eins og þær eru enn, að þær geta ekki í þeim tilfellum, þegar þörfin er mest og brýnust, veitt fólki fullkomna aðstoð til þess að komast af án þess að leita hjálpar hjá sinni sveit, sem mörgum er þvert um geð og fær mjög á menn.

Það geta vitanlega verið skiptar skoðanir um það, hvar það fé, sem menn teldu að væri hægt að veita til trygginganna til viðbótar því, sem nú er, ætti að koma niður, í hvaða staði. Ég fyrir mitt leyti gæti bent á og hef viljað benda á fleiri en einn flokk eða hóp manna, sem ég teldi að þar kæmi til greina. Fyrst má þar nefna einstæðar mæður, sem eru nú teknar inn í till. af hálfu ríkisstj., ef þær eru með 2 og 3 börn. Ég álít, að einstæð móðir með eitt barn geti búið við mjög erfiðar ástæður, og væri engu síður ástæða til þess að veita henni mæðralaun heldur en manni með t.d. 50–60 þús. kr. tekjur fjölskyldubætur með 2. og 3. barni. En stærsti flokkurinn, sem allir hljóta að viðurkenna að býr við naumust kjör, er vitanlega öryrkjarnir og gamla fólkið, og það verður af öllum ástæðum sá flokkur, sem menn hljóta að líta fyrst til, þegar rætt er um það, hvar eigi að bæta við bætur trygginganna, því að það er, eins og ég sagði áðan, vitanlegt, að fullkominn öryrki, sem hefur nokkra fjölskyldu, getur alls ekki lifað af örorkulífeyrinum eins og hann er nú, þótt að viðbættum barnalífeyri sé.

En það hefur verið svo, að þegar rætt hefur verið um að auka bætur trygginganna til ýmissa félagshópa eða flokka, þá hafa menn verið sammála um, að slíkt sé æskilegt, en rökin gegn því hafa aðeins verið þau, að það sé ekki fært af fjárhagsástæðum. Nú hefur hæstv. ríkisstj. með þessu frv. talið fært af fjárhagsástæðum að auka framlög til trygginganna alls um 14 millj. kr. samkv. því, sem í frv. er gert ráð fyrir. Nú má ekki gleyma því og ég vil leggja á það áherzlu, að þessi upphæð, 14 millj. kr., er ekki öll frá ríkissjóði. Hún er fengin frá ríkissjóði, frá hinum tryggðu og frá sveitarfélögunum, að því er talið hefur verið nokkurn veginn eða nærrí því að einum þriðja frá hverjum, þótt það sé nú ekki nákvæmlega. Ég vil leggja áherzlu á það, að þessi aukna upphæð framlaga til trygginganna er fengin með nýjum álögum, a.m.k. að því er snertir hina tryggðu og sveitarfélögin. Hvað ríkissjóð snertir, hefur því verið lýst yfir af hálfu ríkisstj., að það þurfi ekki að koma til nýrra álagna á landsfólkið vegna þess hluta, sem ríkissjóður ber af þessu framlagi. Hér er því verið að leggja nýjar álögur á hina tryggðu, um það verður ekki deilt, — hækka iðgjöld, sem eru nefskattur, og auk þess hlýtur sú hækkun útsvara, sem sveitarfélögin hljóta að grípa til, til þess að standa undir sínum hluta af hinum auknu framlögum, að lenda á hinum tryggðu, þ.e.a.s. á almenningi, og a.m.k. að þessum 2/3 hlutum, sem hinir tryggðu og gjaldendur sveitarfélaganna bera, kostar þetta nýjar álögur. Gjöldin til ríkissjóðs, sem ekki eiga að hækka, ber almenningur í landinu og að langmestum hluta, nærrí 90%, án tillits til efnahags, þ.e.a.s., þessi gjöld eru fengin með óbeinum sköttum, sem leggjast á nauðsynjar fólks, fæði og klæði, jafnt ríkra sem fátækra, og eru því þyngri á gjaldendum, sem fjölskylda þeirra er stærri.

Vegna þess, hvernig byrðunum er skipt í þjóðfélaginu og hvernig þeim auknu, nýju byrðum er skipt, sem er gert ráð fyrir að leggja á með þessu frv., þá varðar það höfuðmáli, hvernig því fé, sem þannig er gert ráð fyrir að afla, verður varið. Og hvernig á þá að verja því? Í mínum augum er það augljóst, að það á að veita því þangað, sem þörfin er mest fyrir það. Um það geta svo verið skiptar skoðanir, eins og ég áður sagði, en um hitt geta varla verið skiptar skoðanir og voru ekki skiptar skoðanir í n., að þörfin er ekki mest á því, heldur jafnvel minnst, að verja því til aukinna fjölskyldubóta til manna, sem komast vel af, hafa meðaltekjur eða þaðan af meira.

Það er auðvitað mikið atriði í þessu máli, hvar ætti að setja það tekjumark, sem gert væri ráð fyrir, að sett yrði í lögin, en sjónarmiðið til þess að finna það er vitanlega þetta: Hvar eru þær tekjur, sem menn komast nú sæmilega vel af með til þess að hafa ofan af fyrir 2–3 börnum?

Í till. minni og hv. þm. Barð. er þetta mark sett við 44 þús. kr. Ég hefði að vísu í upphafi talið rétt, að það væri ívið hærra, jafnvel þó að það, sem sparaðist við að hafa slíkt tekjumark, og það fé, sem þannig fengist til þess að verja til aukins elli- og örorkulífeyris eða annars, yrði þá minna. Því að ég get vel fallizt á það, að sú upphæð, 14 millj. kr., sem ætlað er að verja til aukinna bóta, ætti ekki að hækka verulega með þeim breyt., sem gerðar yrðu á frv., með því að mér er ljóst, að hún er fengin með nýjum álögum á landsfólkið, eins og ég hef gert grein fyrir, og þær álögur verður þungt að bera eins og skattabyrðin er orðin á mönnum, hvort sem þær eru lagðar á sem nefskattur eins og iðgjöldin eða sem hækkuð útsvör, sem eru orðin nógu há.

Þetta er hins vegar það, sem í mínum augum er höfuðatriðið í þessu máli. Ég vil ekki loka augunum fyrir því, hvernig þetta frv. er til komið, að það var til orðið í sambandi við vinnudeilurnar miklu í desembermánuði. Og það er vitanlega rétt og alkunnugt, að efni þessa frv. var upphaflega sett fram sem loforð um löggjöf og kjarabætur til þeirra, sem stóðu í vinnudeilunni, sérstaklega þó til verkalýðssamtakanna, vegna þess að það var viðurkennt af hæstv. ríkisstj. og raunar öllum, sem um deiluna fjölluðu, — og jafnvel öllum, sem um hana hugsuðu, að það væri svo komið, að þeir, sem lægst laun hefðu í landinu, gætu ekki komizt af með sómasamlegum hætti, ef þeir hefðu nokkra fjölskyldu, þótt ekki væri meira en 2–3 börn. Tilboð ríkisstj. var vitanlega fyrst og fremst miðað við það, eins og allt samkomulag og niðurstaða þessarar vinnudeilu, að bæta afkomu þeirra, sem versta afkomu höfðu, en ekki að auka laun allra launþega í landinu, jafnt hinna lægst launuðu sem hinna hæst launuðu. Það var aldrei í till. hæstv. ríkisstj. og ekki heldur í neinu því samkomulagi, sem endanlega leysti vinnudeiluna. Þeir, sem að samningum í vinnudeilunni störfuðu af beggja hálfu, litu svo á, að samkomulagið hlyti að beinast að því að bæta kjör hinna lægst launuðu, en ekki að bæta við tekjur hinna hæst launuðu.

Hæstv. ríkisstj. hefur því í mínum augum staðið fullkomlega við það loforð, sem gefið var, með því að leggja fram þetta frv. um, að fjölskyldubætur yrðu greiddar til manna með 2–3 börn, þó að því verði beitt þannig, að það gildi í framkvæmd fyrst og fremst um fólkið með lægri launin, hin lægstu og hin lægri laun. Það var meira að segja upplýst í n., bæði af minni hálfu og af hálfu hv. 4. þm. Reykv., að það væri engin ástæða til að óttast það, að samningsaðilinn af hálfu verkalýðsins réðist á hæstv. ríkisstj. fyrir það sem samningsrof eða brigð á samningum, þótt ákvæðum frv. yrði breytt í það horf, sem hér hefur verið lagt til af mér og hv. þm. Barð., að setja tekjumarkið við 44 þús. kr. Ég hygg, að það séu mjög fáir eða jafnvel engir af því fólki, sem stóð í vinnudeilunni, sem almennt hafi hærri árstekjur en þetta, miðað við 8 tíma vinnudag eða mánaðarkaup, og eftir að bæði ég og hv. 4. þm. Reykv. höfum aflað okkur upplýsinga um afstöðu þeirra, sem störfuðu að samningum í vinnudeilunni, þá held ég, að það sé engin ástæða til þess fyrir hæstv. ríkisstj. eða hennar flokka að óttast það, að þeir verði fyrir árásum um samningsrof, þó að alþm. fylgi fram þeirri skoðun sinni og sannfæringu, eins og hv. þm. Barð. kemst að orði, sem þeir kunna að hafa um þetta aðalatriði málsins, hvort það sé rétt, eins og nú er ástatt, að auka tekjur hinna hæst launuðu, um leið og bætt er úr kjörum hinna lægst launuðu með fjölskyldubótum.

Ég sagði í upphafi, að það væri aðalatriði þessa máls, hvort slík takmörkun á fjölskyldubótum yrði sett í frv. eða ekki. Um önnur atriði þess, hvernig þessu fé yrði varið, og önnur atriði í því sambandi, er óhætt að segja, að samkomulag gæti fengizt í n. eftir þær umræður, sem þar hafa farið fram um það. Spurningin er því aðeins þessi: Er það rétt og skynsamlegt og ber Alþ. nokkur skylda til þess, ef það álítur það ekki rétt og skynsamlegt, að verja allmiklu fé, nokkrum milljónum króna, til þess að veita mönnum með háar tekjur, vel sómasamlegar tekjur og jafnvel hæstu tekjur, fjárhagslega aðstoð til barnauppeldis? Þetta er spurningin og ekkert annað. Um allt annað getur orðið fullt samkomulag í þessu máli. Þetta er spurningin, sem þessi hv. þingdeild hlýtur að svara í atkvæðagreiðslu um þetta mál.