03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1126)

199. mál, almannatryggingar

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hér í hv. d. hreyfði ég því með nokkrum orðum, að mér þætti það nokkuð langt gengið, eins og ákveðið er í þessu frv., að borga fjölskyldubætur með 2. barni og upp úr fyrir alla menn í landinu, og fór fram á það, að hv. heilbr.- og félmn. athugaði það, hvort ekki væri hægt að koma þarna að nokkrum takmörkunum frá því, sem í frv. er. Hv. n. víkur að því í nál. sínu á þskj. 707, að hún telji ósanngjarnt að ganga svona langt í þessu efni, og er mér að því leyti sammála, en tekur gildar þær upplýsingar, sem hér hefur verið haldið fram, aðallega af hæstv. forsrh., að það mundi vera fastmælum bundið samkvæmt samningum um verkfallið að láta þetta verða svo, vegna þess að aðilarnir að verkfallinu hefðu viljað svo vera láta.

Nú hef ég ekki fengið nein rök fyrir því, að þetta sé svo í raun og veru, enda þótt það sé ekki eingöngu bundið við ákveðið tekjuhámark, heldur við aðra hluti, sem hér koma til greina. Hins vegar veit ég það, að þetta mál er efalaust það fastmælum bundið, þó að það sé vandræðamál í alla staði og framkvæmd þess kosti hvorki meira né minna en 16–17 millj. kr., að ekki muni hafa mikla þýðingu að bera fram við það brtt. eins og nú er komið. En ég vil þó ekki láta hjá líða að segja nokkur orð um mína skoðun á þessu atriði, sem hér liggur fyrir og er hér, innan þings, og hlýtur að verða meðal þjóðarinnar mjög mikið deiluatriði varðandi þessa afgreiðslu.

Okkur er það öllum kunnugt, að í raun og veru mætti skipta okkar þjóð í þrjá hópa, þrjá hagsmunahópa. Það eru í fyrsta lagi þeir menn, sem reka atvinnu á eigin ábyrgð: bændur, útgerðarmenn, kaupmenn, iðnrekendur o.s.frv., þeir, sem hafa atvinnurekstur með höndum. Það eru í öðru lagi verkamenn, sem hafa óbundna samninga um vinnu og eiga það alltaf undir högg að sækja eða hafa a.m.k. ekki tryggingu fyrir því, að þeir hafi alltaf atvinnu. Og í þriðja lagi eru það svo fastlaunamenn, allar þær stéttir, sem eru fastlaunaðar, hjá ríkinu, hjá bæjarfélögunum, hjá verzluninni o.s.frv.

Nú er það vitaður hlutur, að í því verkfalli, sem hér átti sér stað í desembermánuði s.l., þá voru aðilarnir, eins og venjulega í verkfalli, verkamenn og atvinnurekendur, og þetta verkfall var svo víðtækt, að það var augljóst, að það greip yfir alla aðila í raun og veru í þessum höfuðstéttum þjóðarinnar. En mér er ekki kunnugt, að fastlaunastéttirnar hafi verið neinir aðilar að verkfallinu, en það er eins og oft hefur komið fram hér áður, að þegar barátta stendur um kaup og kjör, þó að fastlaunastéttirnar séu ekki neinir aðilar að verkfallínu, þá hafa þær og þeirra félagsskapur eggjað verkalýðinn út í baráttuna og ætlað sér sjálfar að fleyta rjómann af því, án þess að hafa nokkuð til þess unnið. Og í þessu tilfelli er það svo, að það er ekki hægt að segja, að fastlaunastéttirnar í landinu hafi verið neinir aðilar að þessu verkfalli, og þess vegna er samkvæmt samningunum engan veginn nein skylda að láta þær hafa þessar fjölskyldubætur allar.

Ég hefði nú gert tilraun með að flytja brtt. um þetta, ef ég hefði ekki verið búinn að kynnast því, að það er þýðingarlaust. En frv. í þessari mynd get ég ekki greitt atkv. og mun því láta það hlutlaust. En ég tel, að hér sé mjög ósanngjarnlega að farið. Ég játa það, sem rétt hefur komið fram frá þeirri n., sem var við þessa samninga, að það mun ekki fá staðizt að setja ákveðið tekjuhámark, vegna þess að það eru til verkamenn í iðnaðarmannastétt, sem hafa hærri tekjur heldur en þarf að miða við, og það eru auðvitað til menn í atvinnurekendastétt, sem hafa hærri tekjur en þetta, en allir þessir menn á báða bóga hafa verið aðilar að verkfallinu. En fastlaunastéttin, sú fjölmenna stétt, sem hefur það bezt í þjóðfélaginu yfirleitt og raunverulega flestir menn vilja helzt komast í, var þarna enginn aðili og hefði þess vegna ekki að neinu leyti átt að fá fjölskyldubæturnar auknar frá því, sem áður var.