17.11.1952
Neðri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

118. mál, hundahald

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Landbn. hefur farið gegnum þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem hún hefur lagt fram á þskj. 221. Eins og ég vék að við 1. umr. þessa máls, þá er aðalatriði þess það að hækka skatt á hundum. Nú er það í frv. þannig, að þetta skuli vera heimild og hlaupandi tala með nokkuð miklum mismun, en n. leggur til, að það sé ákveðið gjald, sem sé sett inn í l., til þess að það þurfi ekki að vera neitt deilumál í hverju héraði að rifast um það, hvað þessi skattur þurfi að vera hár. Að öðru leyti leggur n. það til, að frv. sé snúið í það horf, að það séu sýslunefndirnar og bæjarstjórnirnar, sem setji reglugerðir með samþykki heilbrmrn. um þau atriði, sem þarna koma til greina, og þá skuli það að sjálfsögðu vera aðalreglan, að sýslunefnd og bæjarstjórn hafi umsjón með þeim ráðstöfunum, sem gera þarf í þessu sambandi til varnar sullaveiki og alkunnar eru, en þó sé hins vegar heimilt, ef það þykir henta betur, að selja inn í reglugerðina, að hverri hreppsnefnd sé falið að annast þetta innan síns svæðis.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar brtt. n. Þær skýra sig allar sjálfar, og ég þykist vita, að hv. þm. hafi þær við höndina og sjái, hvað um er að ræða. En fyrir n. hönd legg ég til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem á þskj. eru.