16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

127. mál, menntaskóli

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hafa langa framsögu um mál þetta. Þetta er gamall gestur hér í deildinni, og hefur þetta mál satt að segja ekki reynzt neinn aufúsugestur, heldur með leiðinlegri gestum, sem hingað hafa komið. Eins og nál. ber með sér, þá var n. frekar óljúft að staðfesta þetta frv. og leggja til um samþykki þess. En að athuguðum öllum aðstæðum og eins og hér var komið, að samningar voru á bak við hjá skólastjórum um þetta norðanlands, og einnig það, að áður, tvisvar til þrisvar hér á s.l. þingum, hefur sams konar mál verið samþykkt hér, þá sá hún ekki ástæðu til þess að bregða fæti fyrir það nú í þetta skipti. Þannig skrifaði meiri hl. n. undir þetta álit sitt. Aftur á móti voru tveir af nm., sem lítið vilja leggja til málanna og ég vænti að snúist ekki gegn því, eftir því sem þeir hafa áður sagt, og kemur það flatt upp á mig, ef þeir gera það. Annar þeirra er ekki maður, sem segir eitt í dag, en annað á morgun, sbr. áfengislögin. Hygg ég því, að n. eða þessi meiri hl. n. megi hér vera óáreittur með sitt álit í þessu. En ég segi frá mínum bæjardyrum, — og við segjum allir, að við viljum og óskum þess og getum þess í nál., að það fyrirkomulag verði sett á um þetta, að það þurfi ekki að vera að þvælast með þetta leiðindafrv. lengur hér í n. og það verði lögfest, en ekki látin vera hangandi heimild fyrir stjórnina til þess að gera það, sem henni sýnist í þessu máli, og vera svo að álasa henni annað veifið fyrir það, sem hún kann að hafa gert, og kannske álasað fyrir vanrækslusyndir. Þess vegna verð ég að taka það fram, að það er nauðsynlegt, að þetta mál verði fullkomlega lögfest, en verði ekki lafandi lengur, sem heimild hér að liðnu næsta skólaári.