11.12.1952
Neðri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

179. mál, löggilding verslunarstaðar í Vogum

Pétur Ottesen:

Hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, þm. G-K., sem nú er fjarverandi, hefur beðið mig að fylgja þessu frv. úr garði með nokkrum orðum.

Þetta frv., um breytingu á l. um löggildingu verzlunarstaðar í Vogum í Gullbringusýslu, er flutt samkvæmt ósk hreppsnefndarinnar í Vatnsleysustrandarhreppi. Með l. frá 1893 var Vogavík á Vatnsleysuströnd gerð að löggiltum verzlunarstað, en þar var þá aðeins um litla vík að ræða og mjög lítið land, sem þessi ákvörðun tók til. Nú hefur byggðin á þessu svæði aukizt allverulega og er komin langt út yfir það landsvæði, sem ákvæðin um löggildingu verzlunarstaðar tóku til. Þarna hefur risið upp allmikil útgerð, og unnið hefur verið þar að hafnargerð nú undanfarin ár, hafnargerð, sem komin er að allverulegum notum. Þess vegna ber til þess brýna nauðsyn, að ný ákvörðun verði gerð um stærð verzlunarlóðarinnar, og verður það gert með þeim hætti, sem í 2. gr. þessa frv. felst, að lög þessi öðlist gildi, þegar atvmrn. hefur ákveðið takmörk verzlunarlóðarinnar samkvæmt l. nr. 61 10. nóv. 1905 og birt það í B-deild stjórnartíðindanna.

Það voru aðeins þessi fáu orð, sem ég vildi láta fylgja þessu frv. Ég legg svo til, að þessu máli verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og allshn.