02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1261 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, þarf ekki mikillar skýringar við, vegna þess að það var samþ. hér í hv. d. á síðasta þingi og er hér borið fram óbreytt elns og hv. d. gekk frá því. Í fyrstunni hafði ríkisstj. borið þetta frv. fram og taldi ástæðu þess, að hún bar það fram, einkum þá, að breyttar aðstæður í þjóðfélaginu væru þess valdandi, að skipulagsskrár ýmissa sjóða væru orðnar úreltar, þó að góðar og réttmætar hefðu verið á sínum tíma, þegar þær voru settar. Það væri því þörf breytinga á ýmsum skipulagsskrám slíkra opinberra sjóða, en ótviræð heimild til þess að breyta skipulagsskránum væri ekki fyrir hendi eða væri mjög vafasöm. Mun öllum hv. þdm. kunnugt um ýmsa sjóði, sem svo er ástatt um, að skipulagsskrár þeirra eru orðnar úreltar með öllu, þannig að sjóðirnir njóta sín ekki og fullnægja alls ekki því hlutverki, sem þeim var í upphafi ætlað. Þegar þetta frv. kom svo til hv. Nd., þá afgreiddi hún það með rökst. dagskrá, sem er svo hljóðandi:

„Með því að eðlilegt virðist, að nákvæmar upplýsingar um þá opinberu sjóði, sem talið er að þurfi að breyta skipulagsskrám fyrir, liggi fyrir Alþ., áður en það tekur ákvarðanir um, hvort setja skuli lög um breytingar á skipulagsskránum, ákveður d. að fresta ákvörðunum um þetta mál, þar til slíkar upplýsingar liggja fyrir, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þar með var málið úr sögunni á því þingi. En í sambandi við þetta er vert að geta þess, að á Alþ. 1950 var samþ. þál. um að skora á ríkisstj. að afla upplýsinga um kristfjárjarðir og aðrar jarðir og eignir hliðstæðar og leggja skýrslu um það fyrir Alþ. Nú hefur þessi athugun á kristfjárjörðum og jörðum opinberra sjóða farið fram, og það hefur verið lögð mjög ýtarleg skýrsla um það fyrir Alþ. Það virðist því, að þær upplýsingar, sem hv. Nd. taldi í fyrra að þyrftu að liggja fyrir, áður en slíkt mál sem þetta væri afgr., liggi nú að miklu leyti fyrir, því að alkunnugt er, að það eru jarðeignir opinberra sjóða og meðferð þeirra og ráðstöfunarréttur, sem einkum veldur því, að nú þykir og hefur þótt nauðsynlegt að breyta ýmsum skipulagsskrám. Og ég leyni því ekki, að ástæðan til þess, að ég tjáði mig mjög fylgjandi þessu máli á síðasta þingi og ber það fram nú aftur, er sú, að í mínu kjördæmi er sjóður, sem ætlaður var til opinberra þarfa og samanstóð af jarðeignum, en svo er orðið ástatt um, að það má segja, að hann sé óvirkur, og með því fyrirkomulagi, sem nú er, sé hann þess alls ófær að inna sitt upprunalega hlutverk af hendi, því að eignirnar voru í fyrstu eingöngu jarðir, sem þessum sjóði voru gefnar. Hann var stofnaður með því að gefa jarðir til hans. Þessi sjóður er legatssjóður Jóns Sigurðssonar frá Böggvisstöðum, sem átti að vera til þess að afstýra hallæri í Eyjafjarðarsýslu, en vitanlega hefur aldrei gert neitt í þá átt og hefur enga möguleika til þess. Þó að það sé tekinn hér upp í grg. kafli úr bréfi frá sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu út af þessum sjóði, þá þykir mér rétt að hafa hann hér yfir. Sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu segir svo í bréfi til félmrn.:

„Eins og stofnfé gjafasjóðsins ber með sér, er sjóður þessi eins konar bjargráðasjóður fyrir sýsluna. Hins vegar hefur það verið svo um langa hríð, að jarðeignir sjóðsins hafa staðið honum stórlega fyrir þrifum og sjóðurinn hefur ekki haft tök á að fullnægja þeim kvöðum, sem á honum hvíla um endurbyggingu o.fl. á jörðum þessum. Má því með sanni segja, að sjóðurinn hefur engan veginn getað svarað upphaflegum tilgangi sínum vegna þess, að hann hefur átt jarðir þessar.“

Það er ekki nóg með það, að þessi sjóður hafi ekki getað fullnægt þeim tilgangi, sem honum var ætlað, heldur eru þessar jarðeignir hans að ýmsu leyti til hreinna vandræða í héraðinu,því að eins og í bréfi sýslumannsins segir, þá hefur sjóðurinn ekki getað fullnægt þeim kvöðum, sem landsdrottni ber að inna af hendi á leigujörðum sínum, og það hafa orðið árekstrar og leiðindi út af þessu milli sjóðsstjórnarinnar og sumra ábúenda þessara jarða. Nú mun það vera svo með flesta ábúendur þessara jarða, að þeir vilja gjarnan kaupa jarðirnar, og þá væri málið leyst. Býst ég við, að það sé miklu nær, að sjóðurinn gæti fullnægt sínum upprunalega tilgangi með því að breyta eignum sínum í peninga, heldur en með því að eiga þessar jarðir.

Ég skal ekki fjölyrða þetta frekar, vegna þess að þessi hv. d. sýndi fullan skilning á þessu máli í fyrra og ég efast ekki um, að hún hafi sama skilning á því eins og þá, þar sem flestir sömu þm. eiga hér sæti eins og þá var. En út af því, að ýmsir lita svo á, að nú muni skammt eftir þingtímans og ekki muni vera vænlegt að koma fram málum, sem nú eru á byrjunarstigi, þá vil ég aðeins benda á það, að þetta frv. snertir ekki á neinn hátt hag ríkissjóðs. Og ég skil ekki í, að um slíkt mál sem þetta sé nokkur minnsti ágreiningur milli flokka eða nokkur flokkur geri þetta mál að flokksmáli, hvorki til fylgis né andstöðu. Þess vegna finnst mér, að þetta mál ætti að geta gengið fljótt og greiðlega gegnum Alþ. í þetta sinn, þar sem jafngóðar upplýsingar liggja nú fyrir um jarðeignir allra opinberra sjóða eins og nú er. Ég skal taka það fram, að ég álit aðalatriðið það, að slíkir sjóðir séu ekki bundnir við það, þó að þeim hafi upprunalega verið gefnar jarðar, að eiga þessar jarðir áfram, og gæti ég fallizt á þá breyt. á frv., að þetta væri aðeins heimilað, ef mönnum þætti varhugavert að heimila almenna breyt. á skipulagsskrám.

Í fyrra, þegar þetta mál var til meðferðar í hv. Alþ., var því í annarri d. vísað til fjhn., en í hinni d. til hv. allshn. Eins og ég hef nú tekið fram, þá álít ég aðalatriðið í þessu máli jarðeignir þessara opinberu sjóða, þar með taldar kristfjárjarðirnar, sem áreiðanlega er nauðsynlegt að setja einhver ákvæði um. Mér finnst því, að sú n., sem ætti að fjalla um þetta mál, væri landbn. Það kann nú að virðast í fljótu bragði einkennilegt að vísa frv., sem heitir „frv. um eftirlit með opinberum sjóðum“, til hv. landbn. En tilgangur frv. og efni þess er slíkt, að ég tel, að það eigi þar heima, og geri það að till. minni, að frv. verði vísað til hv. landbn.