12.12.1952
Efri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Flm. brtt. og 1. flm. frv. þarf náttúrlega ekki að biðja afsökunar á því, þótt hann komi með brtt. Það er nú öðru nær. Það er það, sem öllum ber að gera, ef þeir telja, að það sé til bóta. Hitt er annað mál, að ég er ekki alveg viss um, að sú brtt., sem hann kemur hér með, geti að öllu leyti gengið og náð því takmarki, sem við báðir viljum láta ná með frv. Hann heldur að vísu, að það séu ekki sjóðir aðrir en þeir, sem konungur hafi staðfest, en því fer víðs fjarri. Því fer víðs fjarri, að konungur hafi staðfest skipulagsskrár jarða, sem mynda sjóð og gefnar voru á 13. öld í ákveðnu skyni til þessa eða hins hér á landi og skipulagsskrárnar eru ekki til fyrir og ekki eiginlega til annað en munnmæli um það, hvernig skipulagsskrárnar hafi verið, — munnmæli, sem styðjast við reynslu um það, hvernig sjóðunum hefur verið stjórnað síðan, og meira að segja frá nýrri tíma munu vera til skipulagsskrár sjóða, sem ekki hafa verið staðfestar af konungi. Ég held þess vegna, að brtt., eins og hann orðar hana, þurfi meiri athugunar við, því að ég vil alls ekki láta detta upp fyrir, að það megi breyta þeim kristfjárjörðum eða sjóðaeignum, sem til eru og óumflýjanlega þarf að breyta fyrir breytta staðhætti, þó að konungur hafi ekki staðfest það upprunalega, en það virðist mér það helzt gera eftir hans till. Þess vegna vildi ég mjög mælast til þess, að við í n. fengjum þessa till. til athugunar og málinu yrði frestað nú, enda þótt það þá dragist. Ég veit ekki, hvort það verður haldinn fundur á morgun, en við skyldum reyna að vera búnir að athuga það fyrir morgundaginn, ef fundur yrði á morgun, sem ekki er nú að vísu venja á laugardögum, en annars þá alltaf fyrir mánudaginn. Þess vegna vænti ég þess, að málinu verði frestað núna og það tekið út af dagskrá og við fáum að athuga þessa till. nánar, sérstaklega með tilliti til þess að ganga úr skugga um það, að þær eignir, sem hér um ræðir og ekki eru með konungsstaðfestingu eða a.m.k. mjög vafasamt, hvort eru með konungsstaðfestingu, geti heyrt þarna undir líka.