20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

151. mál, málflytjendur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af hálfu meiri hl. allshn. eftir ósk nokkurra lögmanna.

Það mun vera svo, að það er nokkrum vandkvæðum bundið að uppfylla skilyrði laga um rétt til þess að flytja mál fyrir hæstarétti nú orðið. Í seinni tíð hafa þau skilyrði verið nokkuð þrengd frá því, sem áður var, og er erfitt að uppfylla þau fyrir málfærslumenn, svo að þeir geti öðlazt rétt til að flytja mál fyrir hæstarétti. Hæstiréttur hefur sem sé sett það að skilyrði, að þau ein mál verði tekin gild sem prófmál, að þau séu vandasöm í flutningi og veigamikil og að málfærslumaðurinn flytji einnig málið fyrir undirrétti, m.ö.o., að hann flytji málið fyrir báðum réttum, bæði undirrétti og hæstarétti. Þar sem það er líka skilyrði, að málin þurfi að vera vandasöm í flutningi og veigamikil, þá má fara nærri um það, að þeir, sem þurfa að fá flutning slíkra mála, tryggi sér það þegar fyrir undirrétti, að sá maður, sem flytur það þar, flytji málið einnig fyrir hæstarétti. Verður þess vegna fyrir þá menn, sem ekki hafa öðlazt þessi réttindi, mjög erfitt og vandasamt að uppfylla þetta óhjákvæmilega skilyrði hæstaréttar til þess að geta orðið málfærslumenn við hæstarétt.

Ég hygg, að það þurfi ekki að óttast það, að þó að þetta skilyrði sé nokkuð rýmkað og það sé ekki svona miklum takmörkunum háð, þá verði þeir einir menn málfærslumenn fyrir hæstarétti, sem uppfylla önnur skilyrði og hafa mikla möguleika til að láta til sín taka við flutning mála þar. Þess vegna held ég, að það sé á allan hátt bæði sanngjarnt og réttmætt að sýna frjálslyndi í þessum efnum, en ekki binda það svo mjög í viðjar eins og vel getur orðið, ef á að fullnægja þessum skilyrðum réttarins.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en vil vænta þess, að hv, deild geti á þetta fallizt og afgr. það sem fyrst.