30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

151. mál, málflytjendur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Eftir að Ísland hafði hlotið viðurkenningu á fullveldi sínu með sambandslögunum frá 1918, var það eitt af fyrstu verkum Alþingis að flytja æðsta dómsvaldið inn í landið. Fram að þeim tíma hafði hæstiréttur Dana verið æðsti dómstóll í íslenzkum málum, frá því að hann var stofnaður árið 1660. Í fyrstu þurfti sérstakt leyfi til þess, að íslenzk mál yrðu flutt fyrir hæstarétti Dana, en þegar stundir liðu fram, varð hann að reglulegu æðsta dómstigi landsins. Hæstiréttur Dana er mjög mikils metinn dómstóll, ekki einungis þar í landi, heldur af lögfræðingum úti um viða veröld, enda ákaflega vel vandað til hans, bæði að því er snertir val hæstaréttardómara og hæstaréttarlögmanna. Það var því í upphafi ákveðið, þegar lögin um íslenzkan hæstarétt voru sett, að taka, eftir því sem fært þótti, dönsku hæstaréttarlögin til fyrirmyndar. Í samræmi við það var svo ákveðið, að enginn gæti orðið hæstaréttarlögmaður, nema hann hefði lokið lögfræðiprófi með 1. einkunn og tekið, eftir að hafa stundað málfærslu eða önnur lögfræðistörf að minnsta kosti í 3 ár, próf fyrir hæstarétti í málflutningi með því að flytja þar fjögur prófmál, þar af að minnsta kosti eitt opinbert mál. Þá þótti — og ég hygg, að flestum þyki það enn — eðlilegt og sjálfsagt, að hæstiréttur landsins kvæði sjálfur á um það, hverja hann teldi hæfa til þess að flytja mál fyrir réttinum.

Með því að taka menn gilda sem hæstaréttarlögmenn að afloknu prófmáli 1ýsir hæstiréttur því í raun og veru yfir, að maðurinn sé fær um að flytja mál, og á það að vera trygging þess fyrir almenning, að honum sé óhætt að trúa þeim manni fyrir flutningi mála sinna, enda skiptir það að sjálfsögðu ekki litlu máli fyrir almenning, hvers konar menn veljast til þess að flytja mál hans fyrir úrslitadómstiginu.

Þegar hæstiréttur var stofnaður á Íslandi, var skrifleg málfærsla fyrir undirrétti, en strax tekin upp munnleg málfærsla fyrir hæstarétti. Þessu var breytt með lögum nr. 85 frá 1936, um meðferð einkamála í héraði, þannig að aðalreglan varð sú, að málflutningur yrði einnig munnlegur fyrir undirrétti. Ég er fyrir mitt leyti efins um, hvort það hefur verið rétt gert að gera munnlegan málflutning fyrir undirrétti að aðalreglu. Mér finnst reynslan hafa sýnt, að það hafi seinkað úrslítum mála í stað þess, að það átti að flýta fyrir þeim. Það hefur vafalaust gert málflutninginn dýrari fyrir ríkið, því að í Rvík að minnsta kosti eru tveir löglærðir menn dómarar og dómsritari við munnlegan málflutning. Og munnlegur málflutningur hefur það í för með sér, að það er miklu meiri vandi á höndum dómarans við samningu dóma heldur en þegar málflutningurinn er skriflegur. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að skriflegur málflutningur fyrir undirrétti sé tryggari fyrir rétt úrslit mála en munnlegur málflutningur, en út í það skal ég ekki fara nánar hér. Hitt er aftur á móti ekkert vafamál, að vandi málflutningsmannsins hefur aukizt stórlega við hinn munnlega málflutning.

Á öllum sviðum, hvort heldur er meðal iðnaðarmanna, sjómanna eða annars staðar, er alltaf verið að gera meiri og meiri kröfur til þeirra manna, sem öðlast vilja ákveðin atvinnuréttindi. Það er ein einasta undantekning, sem ég þekki frá þessu, og hún er frá mínum augum furðuleg, sem sé, að ár eftir ár hefur Alþingi samþ. lög, þar sem slakað hefur verið á kröfum til héraðsdómslögmanna, þannig að nú geta ýmsir starfsflokkar lögfræðinga, sem aldrei hafa mál flutt, orðið héraðsdómslögmenn án þess að leysa nokkra prófraun af höndum fyrir héraðsdómi. Ég tel þetta miður farið, en ég skal játa, að ég hef ekki beitt mér gegn því, meðan ég hef átt sæti hér á þingi, vegna þess að ég taldi mestu máli skipta, að örugglega væri búið um, að ekki veldust aðrir menn til flutnings mála í hæstarétti, æðsta dómstiginu, en þeir, sem rétturinn teldi hæfa til þess að lokinni lögáskilinni prófraun. Það hefur verið talað mikið um það meðal lögfræðinga, að erfitt væri að fá prófmál fyrir hæstarétti, einkum eftir að rétturinn ákvað að ekki yrðu tekin gild sem prófmál önnur mál en þau, sem sá, er próf ætlaði að þreyta, hefði flutt frá upphafi. Ég skal játa, að það geta verið nokkrir erfiðleikar fyrir menn að fá mál til flutnings, sem talin eru hæf prófmál fyrir hæstarétti, því að þau verða að vera nokkuð vandasöm. En hitt er í alla staði eðlilegt, að rétturinn krefjist þess, að menn hafi flutt málin frá upphafi, því að það er auðvitað ekkert próf, sem heitið getur, þótt menn flytji mál, sem hæstaréttarmálaflutningsmaður hefur flutt fyrir undirréttinum og ef til vill skrifað aðalræðuna fyrir hæstarétti. Á meðan skriflegur málflutningur var, var aftur á móti hægt að sjá, hvað kom frá þeim sjálfum, sem þreyttu prófraunina, og hvað var aðfengið. Aftur á móti er það ákveðin skoðun mín, að hæstiréttur hafi ekki tekið óeðlilega þungum tökum á þeim, sem reynt hafa að taka próf, og verður því ekki neitað, að stéttin ber þess nokkur merki. Auk þess hefur rétturinn notað heimild sína til þess að fækka prófmálum og látið menn sleppa með 1 eða 2 prófmál, þegar honum hefur verið kunnugt um frá fyrri starfsemi þeirra, að þeir væru hæfir til málflutnings fyrir hæstarétti.

Hæstaréttarlögmenn hér á landi voru lengi vel 11. Svo fjölgaði þeim smátt og smátt og eru nú 25, auk 5 manna, sem réttindi hafa til þess að vera hæstaréttarmálaflutningsmenn hvenær sem er, þótt þeir gegni nú öðrum störfum, og 5 manna, sem eru að taka prófið eins og nú stendur. Miðað við fólkstölu og málafjölda samanborið við önnur lönd er þessi tala yfirdrifin og það svo, eins og kemur fram í nál., að ekki voru fleiri en 9 hæstaréttarlögmenn árið 1951, sem fluttu 10 mál eða fleiri fyrir réttinum. Hinir höfðu allir flutt færri mál. Tala fluttra mála er auðvitað enginn mælikvarði á hæstaréttarlögmenn eða aðra málflutningsmenn, því að sumir leggja mest upp úr því að sætta mál og hafa því lítinn málafjölda fyrir dómstólunum, en aðrir eru meira gefnir fyrir að láta dómstólana skera úr ágreiningi. En hinu ber ekki að neita, að æskilegt er, að málflutningsmenn séu í stöðugri æfingu. Ég hef því hvað eftir annað stungið upp á því í hópi okkar málflutningsmanna, að við tækjum okkur saman af fúsum vilja um það að láta ekki nema svo sem 8–10 úr okkar hópi stunda reglulegan málflutning fyrir hæstarétti og að þeir stunduðu þá ekki önnur störf, til þess að þeir fengju hæfilega æfingu í málflutningi.

Ég vil ekki neita því, að ég varð hissa, þegar ég sá frv. það, sem hér liggur fyrir, og alveg steinhissa þegar það flaug gegnum Nd. algerlega ómelt og með svo miklu offorsi, að það var ekki einu sinni sent til umsagnar lagadeildinni og sérstaklega hæstarétti. Það kom líka fljótlega í ljós, að þeir menn, sem aðallega börðust fyrir þessu frv. í þeirri mynd, sem það er, voru ekki menn, sem ætluðu sér að stunda eða hafa stundað málfærslu sem aðalstarf, heldur lögfræðingar, sem vildu fá hæstaréttarlögmannstitilinn sem fyrirhafnarlausa nafnbót. Ef frv. yrði samþ. í því formi, sem það hefur komið í frá Nd., yrðum við okkur bókstaflega til athlægis gagnvart útlöndum, og enginn mundi leggja neitt upp úr því að vera kallaður hæstaréttarlögmaður, því að það þýddi í raun og veru ekki annað en það, að maðurinn væri lögfræðingur, sem útskrifaður væri fyrir 10 árum eða meira.

Óskum þeirra manna, sem barizt hafa fyrir að fá frv. þetta samþ. til að afla sér nafnbótar, hefur allshn. verið sammála um, að ekki komi til greina að fullnægja. Aftur á móti er n. sammála um að vilja uppfylla allar sanngjarnar óskir þeirra manna, sem vilja gera sér að aðalstarfi að stunda málfærslu, innan þeirra takmarka, sem viðunanleg mega teljast og hæstiréttur getur fallizt á. Að þessu öllu athuguðu hefur n. eftir mikla vinnu komizt að þeirri niðurstöðu að mæla með því, að prófmálum hæstaréttarmálflutningsmanna verði fækkað úr 4 og niður í 3. Til þess að gera ungum mönnum ekki ókleift að afla sér prófmála, hefur n. einnig lagt til, að þeim mönnum, sem starfað hafa að málflutningi í 10 ár og á þeim tíma flutt a.m.k. 40 mál munnlega eða fyrir milligöngu fulltrúa þeirra, sé gefinn kostur á að fylgja málum sínum eftir í hæstarétti, ef rétturinn telur þá hæfa til þess, án þess þó að fá heitið hæstaréttarlögmaður. Ef þeir óska eftir að verða hæstaréttarlögmenn, verða þeir að þreyta þá prófraun, sem til þess þarf.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að vara hið háa Alþ. mjög við því að slaka til á kröfum um menntun og æfingu málflutningsmanna. Úr lagadeildinni útskrifast nú tvisvar á ári eins margir menn og voru í henni þegar ég var við nám í háskólanum. Það er að verða fullkomin offjölgun málflutningsmanna og lögfræðinga, ef mikill meiri hluti þeirra leggur ekki fyrir sig venjuleg viðskiptastörf. Það verður að tryggja það, að málflutningsmenn verði ekki fleiri en svo, að þeir geti haft sæmilega afkomumöguleika. Mér er kunnugt um, að það eru þegar að verða brögð að því, að einstaka málflutningsmenn geti ekki staðið skil á innheimtu fé, og það eru líka að verða brögð að því, sem leiðir af offramleiðslu innan stéttar, að málum fjölgar mjög og sum sýnast vera aðallega hafin til þess að tryggja málflutningsþóknun.

Að svo mæltu leyfi ég mér fyrir hönd allshn., sem er sammála, að leggja til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. leggur til á þskj. 598.