16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

203. mál, klakstöðvar

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég sé, að það gætir kannske nokkurs misskilnings um það, hvað farið er fram á með þessu frv., því að það var spurt um það, hvað þetta mundi kosta, og mér virtist liggja í því, að þar væri gengið út frá, að hér væri um algert nýmæli að ræða, en það er það ekki nema að litlu leyti.

Í 3. gr. l. nr. 36 frá 1937, um klaksjóð og heimild fyrir ríkisstj. til þess að reka klakstöðvar og til leigunáms í því skyni, stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. skal heimilt að reisa a.m.k. 2 klakstöðvar, og skal hvor eða hver stöð geta framleitt allt að 2.5 millj. laxaseiða. Skal minnst 10% af árlegri seiðaframleiðslu“ o.s.frv. Þessi heimild hefur þess vegna alltaf verið í l. og gert ráð fyrir því, að það fé, sem safnast í klaksjóðinn, verði notað til þess að reisa þessar stöðvar, að minnsta kosti tvær eða fleiri. En ég hef nú satt að segja verið það íhaldssamur, skulum við segja, í þessu máli, að ég hef ekkert viljað við þessi klakstöðvamál fást núna undanfarin ár, vegna þess að það hefur enginn sérfróður maður starfað hjá ríkinu í þessum málum lengst af, þegar ég hef verið ráðh. Á fyrsta árinu, sem ég var landbrh., voru fullgerðar teikningar af fremur lítilli klakstöð, sem veiðimálastjóri hafði gert till. um, eftir þeim nýjasta útbúnaði, sem á þeim stöðvum er, en það er nú stöðugt að breytast, því að menn eru einatt að læra í þeim efnum, og var þá gert ráð fyrir því, að reist yrði lítil stöð hér inni við Elliðaár í staðinn fyrir þá stöð, sem Rafveita Rvíkur rekur, og yrði hún nokkru fullkomnari, en þessi stöð, sem nú er rekin. En eins og kunnugt er, hefur rafveitan rekið með mjög góðum árangri slíka klakstöð, og er fiskigengd í Eiliðaánum haldið við í mörg ár, að því er álitið er, með þessari klakstöð. Má t.d. nefna það, að tvær ár, sem voru alveg laxlausar, Botnsá í Botnsdal hér inn af Hvalfirði og Brynjudalsá, sem er þar rétt hjá, hafa báðar fengið seiði úr klakstöðinni við Elliðaár, og í þessum ám báðum er mjög mikil laxgengd núna. Menn héldu, að það mundi nú ekki takast með Brynjudalsá, en það sýndi sig á síðasta ári og árinu þar á undan, að laxgengdin var þar mjög mikil. Þessi laxaseiði, sem eru alin upp þarna við Elliðaárnar, eru af þeirri laxategund, sem í Elliðaárnar gengur, frekar lítil tegund, sem fer sennilega heldur fyrr í sjó, en aðrar tegundir og er minni þegar hún kemur aftur í árnar. Þessa tegund er gott að ala upp til þess að setja í vatnslitlar ár eins og þessar tvær, sem ég nefndi, Botnsá og Brynjudalsá. En það er álitið, að þessi stöð þarna við Elliðaárnar sé ekki á neinn hátt einhlít, vegna þess að þeir, sem sérfróðastir eru um þessi mál, eru allir sammála um það, að ekki megi ala upp þessa laxategund til þess að setja hana í stærri vatnsár, vegna þess að eftirtekjan eftir þessa laxategund er miklu minni, þar sem laxinn er svona smávaxinn,, og þeir telja þess vegna, að koma þurfi upp fullkomnari laxastöð, þar sem alinn er upp bæði sá lax, sem er af þeirri tegund, sem gengur í Elliðaárnar, smærri lax og aðrar stærri tegundir, þar sem laxinn verður á svipuðum tíma og Elliðaárlaxinn þetta 14 og upp í 20 pund. Er þetta hverjum manni skiljanlegt. Þeir telja, að þessi lax sé orðinn þetta lítill vegna þess, að hann hefur gengið í lítil vatnsföll, og sé önnur tegund og það sé óheppilegt að útbreiða hann í vatnsföll, þar sem eru skilyrði til þess að gangi stórlax og alist upp stórlax, og þetta sé orðið að verulegu tjóni, að Elliðaárlaxinum hefur verið blandað í önnur vatnsföll, þar sem skilyrði væru til þess að hafa stórlax með miklu meiri eftirtekju, en er eftir Elliðaárlaxinn.

Þess vegna var það, að fyrsta árið var búið að gera teikningu að litilli klakstöð þarna við Elliðaárnar og leita sér upplýsinga um nýjustu gerð þessara stöðva, bæði frá Norðurlöndum og víðar að, frá Kanada og Bandaríkjunum, en í þeim svifum sagði núverandi veiðimálastjóri upp sínu starfi. Það er enginn sérfróður maður um þessi mál hér, og ég taldi, að það gæti ekki komið til mála að reisa þessa stöð, án þess að sérfróður maður væri í ráðum um það, hvernig stöðin yrði úr garði gerð, því að það væri mjög bagalegt, ef reist yrði slík stöð, þótt hún sé ekki stór og kosti ekki mikið, — ég kem inn á það aðeins síðar, — þannig, að það verk væri á eftir tímanum. En til þess að draga úr þeim kostnaði, sem ríkið þyrfti að hafa af slíkri stöð og starfrækslu hennar, var komið á samkomulagi milli rafveitunnar og ríkisstj. um það að reisa og reka stöðina í sameiningu, sameina litlu stöð rafveitunnar þessari fullkomnari stöð og reka stöðina í sameiningu, einnig með tilliti til þess, að það er álitið, án þess að vera að fara langt inn á það mál, að hægt sé að stytta uppeldistíma seiðanna með því að nota heita vatnið, því að eins og sennilega flestir vita hér, þá vaxa seiðin ekki nema fram á haustið, þangað til vatnið fer ofan í 4 gráður. Þá hættir vöxturinn og seiðið tekur ekki neina fæðu, þarf enga fæðu og vex ekki neitt yfir vetrartímann, en byrjar svo vöxt sinn aftur, þegar hitinn vex í vatninu á vorin. En þeir álíta, að það mætti stytta þennan tíma — og telja það fullreynt — með því að veita heitu vatni í kerin, þar sem laxaseiðin eru alin upp, og láta þau taka fæðu allan veturinn og halda áfram að vaxa, þangað til þeim er sleppt, nota þannig vetrartímann eins og sumartímann til vaxtar með því að hafa vatnið hæfilega volgt.

Úr framkvæmd þessa samkomulags við rafveituna varð síðan ekki neitt, þegar maðurinn fór og við biðum eftir sérfræðingi, sem átti að taka, pilti, sem var að stunda nám erlendis og bjóst víð að taka próf þá og þegar, en því miður hefur ekki lokið sínu prófi enn, og um aðra sérfróða íslenzka menn hefur ekki verið að ræða. Varð það síðan niðurstaðan, að veiðimálastjóri, sem hafði sagt upp starfi, tók við því aftur og kom þá að nýju með þessa samninga við rafveituna, sem ef til vill geta einnig orðið samningar við Stangaveiðifélag Rvíkur, sem á tiltölulega mikið fé í sjóði og kannske væri heppilegt að væri þarna aðili, með því að þeir mundu kaupa mikið af seiðum. Þeir gætu fyrst og fremst lagt fjármagn í þetta, þeirra dugnaður mundi koma þarna til að reka þessa stöð sem mest og þeir mundu verða stórir kaupendur á seiðum, vegna þess að þeir hafa nokkuð margar ár í takinu. En þegar við fórum að athuga í rn. um þessa framkvæmd, þá rákum við okkur á 3. gr., þar sem stendur: „Ríkisstjórninni skal heimilt að reisa“ o.s.frv. Og við töldum ekki heimilt að skýra greinina þannig, að við megum gera þetta í samfélagi við aðra, hvorki rafveituna, Stangaveiðifélagið né aðra, í 3. gr. sé aðeins heimild fyrir rn. til þess að reisa þessa stöð eða þessar stöðvar, að minnsta kosti tvær, ef fé er fyrir hendi, en við höfum ekki heimild til þess að taka aðra í félag við okkur, nema sérstök lagaheimild frá Alþingi komi til, og það er ekki annað, sem farið er fram á hér.

Það má svo sem benda á það, að það er alveg rétt, sem hér hefur verið tekið fram í framsögu, að það væri ef til vill eðlilegt að breyta um leið, — ég get fallizt á það, að þarna mætti ala upp fleira en laxaseiði, þarna mætti ala upp silungaseiði og gera aðrar tilraunir. Það mundum við nú sennilega telja okkur heimilt að gera, þótt ekki stæði sérstaklega í lögum, en viðkunnanlegast er að hafa það þar einnig.

Þótt ég sé ekki fróður um þessi atriði, þá veit ég þó svo mikið um þau, að það mætti gefa um þau ýmsar eftirtektarverðar upplýsingar. T.d. má það varla fara fram hjá okkur, að Danir, sem ekki hafa neitt betri skilyrði til þess að ala upp nytjafiska en við, seldu fyrir 3 árum fyrir 2 millj. til Bandaríkjanna og selja núna fyrir 30 millj. silung, sem er alinn upp á búgörðum, sem hafa þá atvinnu eina að ala upp silung, en þetta mál allt saman er órannsakað hjá okkur. Þetta er mikið svo kallaður regnbogasilungur, sem þeir ala upp. Við vitum ekkert um það, hvaða fiskur það kann að vera hér hjá okkur, sem er eins hentugur fiskur til fóðrunar, uppeldis og sölu og regnbogasilungurinn. Við vitum t.d., að það er geysilegur markaður fyrir murtu, hefur alltaf verið nægilegur markaður fyrir murtu í Frakklandi og núna aftur í Bandaríkjunum. Við vítum ekkert um, hvað tekur mörg ár að ala hana upp, hvað hún er hentugur silungur til uppeldis. Við vitum ekkert um þær mörgu urriðategundir, sem eru hér í vötnum, hvað þær eru hentugar til uppeldis. Við vitum ekkert með Íshafsbleikjuna, hvort hægt er að taka hana og ala hana upp. Víð vitum bara, að Svíar hafa komizt svo langt í þessu uppeldi, að þeir ala upp laxinn og sleppa honum aldrei í sjó, og hefur tekizt að fá af honum sama keim eins og hann kæmi úr sjó, en þeir nota mikið sérstakar tegundir, sem þeir hafa komizt að, hvað nota sem fæðu í sjó, m.a. rækjur. Þetta mál er allt órannsakað, og ég vil bara benda á, að það, sem við erum hér að fara fram á, er eiginlega að draga úr þeim útgjöldum, sem gert er ráð fyrir í lögunum um klaksjóð að ríkið hafi af þessum málum, og reyna að fá áhuga rafveitunnar, sem hefur reynslu í þessu máli, sameina það sérþekkingu veiðimálastjóra og áhuga þeirra veiðímanna, sem ef til vill vilja taka þátt í því að reisa slíka klakstöð og reyna að hrinda þessu máli lengra áleiðis.

Það er margt, sem er órannsakað í þessu. Til dæmis heldur veiðimálastjóri því fram, að það hafi ákaflega litla þýðingu að setja þessi seiði í ár, þar sem lax sé fyrir, það sé bezt að friða laxinn, þar sem hann er fyrir, og láta hann sjá sjálfan fyrir fjölguninni. Hins vegar sjáum við það á þeim dæmum, sem ég nefndi um Botnsá og Brynjudalsá, að þar eru tvö dæmi, sem skera alveg úr og enginn fræðimaður leyfir sér að mótmæla, að þar er geysileg laxagengd. Það er mikil laxagengd í báðum þessum ám, þar sem enginn lax var áður og eingöngu voru sett seiði, sem alin voru upp og sleppt þangað sem pokaseiðum. En nú er sú nýja aðferð að ryðja sér til rúms einnig að ala laxinn upp, þangað til seiðin eru 12 cm löng. Það er miklu dýrara að vísu, en þá er talið að farist miklu minna af þeim en þegar seiðunum er sleppt sem pokaseiðum. Allt þetta er órannsakað mál, og þessi stöð, sem á að reisa þarna við Elliðaárnar og gera ríkinu eins fjárhagslega auðvelt og hægt er, er fyrsta sporið í þá átt að geta unnið í þessum málum eitthvað svipað því, sem aðrar þjóðir hafa unnið, og er þó alveg vafalaust, að við höfum hér betri skilyrði, en næstum nokkur önnur þjóð í þessum efnum. Meðal annars eigum við veiðivötn uppi um heiðar, sem eru alveg ósambærileg við nokkur önnur veiðivötn í heiminum. Fiskisældin er það mikil. Og þetta er allt óplægður akur, vandamál, sem að vísu þessi stöð leysir ekki nema að litlu leyti, en það er þó að minnsta kosti fyrsta sporið í áttina.