16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

203. mál, klakstöðvar

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð til að láta í ljós ánægju mína yfir því, að skriður kemst á þetta mál á þann veg, sem hér er til stofnað. Við, sem höfum setið nokkuð lengi hér á Alþingi, munum eftir því, þegar Þórður heitinn Flóventsson frá Svartárkoti fræddi þm. og aðra hér meðal okkar þjóðar um möguleikana á laxayrkju. Síðan er alllangt um liðið, og því miður hefur langur tími liðið, sem ekki hefur verið hagnýttur sem skyldi í þessu efni. Þórður Flóventsson var mikill áhugamaður og sérfræðingur í þessum efnum, líklega ekki skólalærður, en sérfræðingur af guðs náð. Ég tel það alveg tvímælalaust stórt áhugamál fyrir íslenzku þjóðina, að gaumur sé gefinn að þeim möguleikum, sem í því eru fólgnir að ala upp nytjafiska, hverju nafni sem þeir nefnast, í vötnum landsins. Get ég af eigin reynslu staðfest það, sem fram kom hjá hæstv. ráðh. um eina fisktegundina, það fyrirbrigði, sem ég hef haft talsverð afskipti af og niðursuðuverksmiðja Sölusamlagsins hefur haft til sölu, murtuna, að hún þykir svo merkilegur og góður fiskur í Bandaríkjunum, að ég hef það fyrir satt, að henni hafi verið hleypt þar inn til sölu þrátt fyrir það, þó að almennt sé litið hornauga til innflutnings á ýmsum vatnafisktegundum og þær tegundir jafnvel útilokaðar frá því að seljast á amerískum markaði. En murtan hefur þótt það hnossgæti, að þeir hafa aldrei fengið af henni nóg og tæpast hægt að segja, að þeir hafi spurt um verðið. Þannig gelur það vel verið með fleiri vatnafiska. Ég játa fyrir mitt leyti, að ég er ófróður í þeim efnum, en ég tel víst, að hér sé mikið og veglegt verkefni fyrir framtíð þessarar atvinnugreinar og að einmitt það að koma þessu máli nú í nýjan farveg sé rétt spor, og í því sambandi vildi ég benda þeim, sem með málið fara, á það, sem í rauninni segir sig þó sjálft, að sérþekkingu á þessum efnum hefur okkur lengi skort. Og þó að ég dragi ekki í neinn efa, að veiðimálastjórinn, sem var og er kannske nú orðinn aftur, hafi góða þekkingu á þessu sviði, þá mun það borga sig vel að spara ekki allt of mikið í því efni, en styðjast við hina beztu sérfræði í þessu efni og afla þannig landinu hinnar beztu þekkingar á þessu sviði, hvort sem hún er útlend eða innlend.

Ég vildi segja þessi orð til þess að láta í ljós fyrir mitt leyti ánægju yfir því, að þessu — í mínum augum — stórmáli er hér að nýju hleypt á flot og á þann veg, að því er virðist, að líkindi geta orðið til þess, að meiri framkvæmdir og gerhugsaðri í þessu efni geti átt sér stað framvegis, en verið hefur. Ég hygg, að það sé síður, að okkur hafi skort fjármuni til þess arna, en hitt, að okkur hafi skort allt of mikið þekkingu á málinu. Það er, eins og hæstv. ráðh. tók fram, alveg órannsakað mál, í hvað mörgum greinum hægt er í þessu landi að koma upp og auka viðgang nytjafiska í vötnum.