31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

121. mál, sjúkrahús o. fl.

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Frv. þetta er hingað komið frá hv. Nd. og er um það að bæta við í tölu þeirra sjúkrahúsa, sem viðurkennd eru sem fjórðungssjúkrahús, einu sjúkrahúsi fyrir Suðurlandsundirlendið. Munu vera samtök um það í byggðum Suðurlandsundirlendisins að standa að byggingu þessa sjúkrahúss. Í bréfi frá landlækni, sem heilbr.- og félmn. Nd. birti með áliti sínu, skýrir hann viðhorf sitt til þessa máls, og er hann mjög samþykkur því, að málið nái fram að ganga. Samkv. þessu var málið afgr. hingað til þessarar hv. d.

Meiri hl. heilbr.- og félmn. þessarar d. mælir með því, að frv. sé samþ. óbreytt, en minni hl., þ.e. hv. þm. Barð., er því andvigur. Ég vil taka það fram, að mér er kunnugt um það og hef þær upplýsingar frá hv. 2. þm. Árn., sem á sæti í þessari deild, að við umræður um málið á svæðinu, sem hér um ræðir, var það athugað, að það eru til möguleikar, sem eru aðeins ætlaðir að vísu smærri sjúkrahúsum, til þess að fá greidda 2/3 kostnaðar við byggingar, og þeim, sem að þessum málum standa, er þetta mjög ljóst, en hafa fylkt sér um þá ósk, að þetta væntanlega sjúkrahús Suðurlandsundirlendisins verði viðurkennt sem fjórðungssjúkrahús og hljóti styrk samkv. því. Er sá styrkur að vísu nokkru minni, en ætlaður er sjúkrahúsum eða sjúkraskýlum í sveitum, en þetta er vitað og viðurkennt. Leit meiri hl. n. svo á, að eðlilegt væri að koma til móts við óskir þeirra manna, sem vilja stofna þarna til fjórðungssjúkrahúss.