02.02.1953
Efri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

121. mál, sjúkrahús o. fl.

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Um þetta frv., sem hér liggur fyrir, urðu töluverðar umræður við fyrri hluta þessarar umr. á laugardaginn var.

Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta mál, vegna þess að það snertir hérað mitt og er um sjúkrahúsbyggingu á Suðurlandsundirlendinu.

Undirbúningur undir sjúkrahús er ekki neitt nýtt mál austan fjalls. Það var laust eftir aldamótin síðustu, sem töluvert mikil hreyfing kom um það eystra að safna til sjúkrahúss og reisa það austan fjalls. Og þetta komst svo langt, að byrjað var í kringum 1920 eða skömmu fyrir 1920 að byggja spítala á Eyrarbakka. Þetta mál fór þannig, að húsið var byggt upp fyrir samskotafé og lánsfé. En þegar það er komið það langt, að húsið er komið upp, en vantar í það áhöld og annað slíkt til þess að gera það að spítala, þá er svo komið, að undirbúningsnefnd ber upp á sker með þetta mál, og endirinn er sá, að húsið er tekið úr höndum þeirra manna, sem þarna stóðu að, og gert að fangahúsi, og það er það enn í dag. Þetta er nú ef til vill útúrdúr frá þessu máli, sem hér liggur fyrir, en mér finnst þetta vera svo skylt, að það sé rétt að nota þetta tækifæri til að minna á þennan þátt sjúkrahússmálsins á Suðurlandi.

Nú hefur verið um nokkurt árabil töluvert mikil hreyfing uppi í héruðunum fyrir austan að undirbúa byggingu sjúkrahúss á þessu svæði. Og núna tvö s.l. ár hefur verið starfandi nefnd, sem hefur verið skipuð af sýslunefnd Árnesinga, í þessu máli. Það hefur nú ekki mjög mikið gerzt í því enn þá annað en að ýmis félagasamtök eru þarna starfandi eystra, sem hafa það m.a. á stefnuskrá sinni að safna fé í væntanlegt sjúkrahús. Hvað þetta fé er orðið mikið núna, veit ég ekki, vegna þess að enginn aðili er yfirleitt til þess að hafa um það heildaryfirsýn, hvað féð er mikið á hverjum stað og samtals, en vitað er, að það er orðið þó nokkuð og áframhald á söfnun og mikill hugur í íbúum héraðanna. Nokkuð hefur það háð þessu máli, að ekki hefur verið vitað, hvað sjúkrahúsið yrði reist á breiðum grundvelli eða hverjir það yrðu, sem teldust eigendur þess og vildu bindast samtökum um að koma því upp. En á s.l. hausti kom hreyfing á málið í Rangárvallasýslu, og eftir að sú hreyfing komst á stað og var komin á opinberan vettvang, þá varð það til þess, að nefndin, sem starfaði í Árnessýslu með þetta að starfssviði, kallaði saman fund, sem var svo haldinn á Selfossi í nóvember í haust. Á þeim fundi voru mættir þm. Árn., Rang. og þm. V-Sk., sýslumenn Árnesinga og Rangárvallasýslu og héraðslæknar á þessu svæði, eftir því sem til þeirra náðist. Þeir voru eitthvað um fjórir eða fimm, sem voru mættir. Þar var þetta rætt, og það merkilegasta, sem gerðist á þessum fundi, að mínu áliti, er það, að þá kom fram alveg hiklaus skoðun þeirra fulltrúa, sem þarna voru mættir frá Rangárvallasýslu, að sýslurnar ættu að vera allar saman um þetta mál, að standa saman um byggingu sjúkrahússins. Þetta álit ég vera langmesta atriðið, sem fram kom á þeim fundi. Þar var því slegið föstu, sem sagt, af þessum fulltrúum, sem þarna mættu, að sjúkrahúsið yrði byggt að minnsta kosti af Rangárvallasýslu og Árnessýslu. Vissa var ekki fengin fyrir því hjá fulltrúum Vestur-Skaftafellssýslu, hvort hún mundi verða með, og liggur ekki fyrir enn. En það má telja öruggt, að þegar þetta mál fer af stað fyrir alvöru, þá séu báðar sýslurnar, Rangárvallasýsla og Árnessýsla, með þessu.

Þá kem ég að því frv., sem hér liggur fyrir. Á þessum fundi, sem ég hef nú verið að skýra frá, var staddur flm. þessa frv., sem er bæði 1. þm. Rang. og héraðslæknir í Rangárhéraði, og sat hann bæði sem héraðslæknir og sem þingmaður á þessum fundi. Þá var þetta frv. nýkomið fram í Nd., og það kom vitanlega til umræðu á þessum fundi. Var mönnum ljóst, að með því að gera þetta væntanlega sjúkrahús að fjórðungssjúkrahúsi, mundi byggingarstyrkurinn verða minni, en á sjúkrahúsi, sem væri byggt af héraðinu, eins og venjulegir spítalar í kaupstöðum eru. Þetta var fundarmönnum ljóst; ég vil taka það fram vegna þeirra umræðna, sem komu fram hérna á laugardaginn var um þetta mál. En eins og kunnugt er, þá njóta fjórðungssjúkrahúsin rekstrarstyrks, þótt í óverulegum mæli sé, en þó var það þannig, að álit meiri hluta fundarmanna var það, að öryggið um það að fá rekstrarstyrk á húsið, þegar það væri komið upp, réði meiru um það en þó að byggingin fengi aðeins hærri byggingarstyrk. Þetta sjónarmið, að öryggi um rekstur, þegar húsið væri komið upp, væri betra, heilbrigðara en heldur hærri byggingarstyrkur, var orsökin til þess, að fundurinn féllst á að mæla með frv. þrátt fyrir mismuninn á byggingarstyrknum.

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp afrit af fundargerð af þessum fundi, þar sem var einmitt talað um þetta frv.:

„Umræður snerust að nokkru um nýlega fram komið frv. á Alþingi um fjórðungssjúkrahús á Suðurlandi, og var meiningarmunur um þýðingu þess. Meiri hl. fundarmanna taldi ávinning að frv., ef að lögum yrði.“

Þannig liggur þetta fyrir frá þessum mönnum, sem þarna höfðu tækifæri til þess að koma saman og tala um þetta mál. Ég vil í þessu sambandi minna á ummæli hv. þm. Barð., að hann lét orð falla í ræðu sinni um þetta mál eitthvað á þá leið, að hann væri ekki viss um, hvort héraðsbúar mundu verða þakklátir fyrir það, að þm. Suðurlands beittu sér fyrir því að samþ. þetta frv., þar sem ekki mundi liggja fyrir álit þeirra um það og menn yfirleitt væru ekki kunnugir þýðingu frv., þeir álitu, að það hefði eitthvað miklu meira að segja að öðru leyti í sambandi við þetta mál. Og þá féllu ummæli hv. þm. á þá leið, að þarna hefðu ef til vill verið að verki menn, sem hefðu persónulegan hag af því, að húsið væri byggt. Ég veit nú ekki, hvað hv. þm. hefur átt við með þessum ummælum, en ég þykist með þessu hafa skýrt rétt og nákvæmlega frá, hvernig málin standa um þetta mál heima í héraði og hvernig á því stendur, að fallizt er á það að samþ. frv., þótt það hafi trúlega það í för með sér, að byggingarstyrkurinn minnki heldur. Þá vil ég enn minna á það í sambandi við þetta, að héraðsbúum sé þetta ókunnugt, viti ekki um þetta, að á síðasta þingi íþróttasambandsins Skarphéðins, þar sem eru mættir fulltrúar úr þessum þremur sýslum, var einmitt samþykkt áskorun um að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. Og þarna eru menn úr ýmsum félagasamtökum í héraðinu, sem hefur verið kunnugt um málið. Og ég vil endurtaka, að það er mikill áhugi um framgang málsins heima í héraði.