03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Minni hl., hv. þm. A-Húnv., hefur nú gert grein fyrir sinni till. Ég vil aðeins víkja að henni örfáum orðum. Um þá breytingu á frv., sem meiri hl. leggur til, virtist svo sem hann vildi beina athygli manna að því, að það skyldi aðeins leita till. nýbýlastjórnar. En í gr. er beinlínis tekið fram, að til þess að slík skipti fari fram, þá þurfi til þess samþykki skipulagsnefndar prestssetra, og í því sambandi er rétt að upplýsa það, að í þessari n. eru biskupsskrifari, landnámsstjóri og skrifstofustjórinn í kirkjumrn. Það sýnist þess vegna nokkuð vel um hnútana búið, að það verði ekki flanað að þessu og að þessir aðilar muni athuga sinn gang, áður en þeir gera nokkuð í þessu efni. Ég skildi nú raunar ræðumann svo, að hann viðurkenndi það, og það er yfirleitt viðurkennt, að það eru nokkrar prestssetursjarðir, sem eru þannig, að það eru engar minnstu líkur til, að prestur geti komizt yfir að nytja þær til fullnustu, og þá er allóeðlilegt, að þeim megi ekki skipta, enda er það almennt viðurkennt og hefur líka verið svo í framkvæmd. En með brtt. okkar viljum við jafnframt því, að við teljum réttmætt að skipta einstökum jörðum, leggja áherzlu á það, að jörðunum verði ekki skipt svo, að þær eftir sem áður verði þó ekki ávallt það stórar jarðir, að á þeim megi reka gott bú. Ég hygg, að prestum yfirleitt sé meiri greiði gerður með slíku, en að sitja á stórum jarðarskrokkum, sem þeir hafa engin tök á að nytja til fullnustu og hver einasti vegfarandi eða hver, sem fer fram hjá, getur bent á: „Ja, sjáið þið nú, hvernig þetta prestssetur er.“ Slíkt hefur viðgengizt og viðgengst enn, að þessir prestar eru þannig settir, og ég veit um suma þeirra að minnsta kosti, að þeir telja, að það sé bezt farið, að prestinum sé ætluð hæfileg bújörð, sem víst má telja, að hann geti komizt yfir að nytja. Þetta er það, sem við leggjum til með okkar brtt. að sé jafnhliða tryggt.

Hitt atriðið, sem frsm. minni hl. gerir að aðalatriði, að mér skilst, er það, að það þurfi að taka ýmis önnur atriði til athugunar, eins og það, hvernig prestar fari með jarðir sínar, og margt annað. Það skal ég fyllilega játa, að það er fullkomlega ástæða til þess, en ég sé ekki neina ástæðu til þess að fara að tengja það við þetta litla frv., sem er eingöngu ætlað að ráða bót á þessu atriði. Og ég vil benda á, að ef það væri rétt, sem þessir aðilar, sem mest hafa um þetta mál fjallað, halda fram, að það væri óheimilt að skipta prestssetursjörð hér eftir, þá þarf beinlínis löggjöf um það efni. Ég veit t.d., að það er nú undirbúið og er aðeins eftir að leggja síðustu hönd á skiptingu á Kálfafellsstað, sem er gerð með fullu samþykki allra aðila. Það munu líka vera tvö prestssetur, sem er líkt ástatt um, þó að það sé ekki komið alveg eins langt. Ef það er mjög mikill vafi á, að hægt sé að gera það lögum samkv., þá telur meiri hl., að það liggi beint fyrir og það sé skylda Alþ. að taka þá af öll tvímæli um það atriði. Það er þetta, sem ég vil sérstaklega benda hv. dm. á, að það er að minnsta kosti hæpið fyrir d. að skjóta sér undan að taka þessa ákvörðun, hvað sem hinum atriðunum líður, sem ég hef ekki út af fyrir sig og ég býst við enginn nm. hafi út af fyrir sig neitt á móti að verði tekin til meðferðar síðar.