03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér liggur fyrir og er komið hingað aftur úr Nd., er flutt af landbn. þessarar hv. d. Þegar þetta mál kom fyrir þá n., þá var það flutt ágreiningslaust, aðeins gerði n. smávegis breyt. á því. Ég vil taka það fram, að n. sendi þetta mál ekki til umsagnar t.d. til biskups eða þeirra aðila, sem helzt hefðu átt um þetta að fjalla, og ég vil lýsa því hér með, að ég sem einn nm. fór ekki fram á þá, að þetta væri gert. En við meðferð þessa máls í Nd. kemur í ljós, að það kemur til kasta bæði fyrir stjórn Prestafélags Íslands og það kemur einnig á biskupsskrifstofuna, og ég vil vekja athygli hv. d. á því, að það koma sterk mótmæli frá þessum aðilum núna, og ég vil leyfa mér að lesa upp mótmælin, sem koma frá Prestafélagi Íslands eða stjórn þess, með leyfi hæstv. forseta, og þau hljóða svo:

„Á fundi sínum í gær samþ. stjórn Prestafélagsins ályktun þá, er hér segir: Stjórn Prestafélags Íslands telur það ekki hæfa, að prestssetursjarðir séu skertar án samþykkis hlutaðeigandi prests og biskups, og mótmælir eindregið frv. því, er nú liggur fyrir Alþ. um heimild til þess að taka leigunámi og byggja á erfðaleigu hluta af prestssetursjörðum.“ Þetta bréf er dags. 26. jan. 1953, og undirritar það Ásmundur Guðmundsson, formaður Prestafélags Íslands.

Ég vil vekja athygli á einu enn í sambandi við þetta mál. Landbn. Nd. hefur klofnað í málinu. Minni hl. leggur til, að því sé vísað frá með rökstuddri dagskrá. En það, sem ég vildi vekja athygli á, eru ummæli í nál. meiri hl. n., sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Landbn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum. Hafa þar mætt til viðræðu um frv. biskupinn yfir Íslandi, stjórn Prestafélags Íslands, biskupsritari og landnámsstjóri. Af viðræðum við þessa aðila varð n. ljóst, að biskupinn og meiri hl. þeirrar n., sem undirbjó lögin frá 1952 um skipun prestakalla, litur svo á, að óheimilt sé að skipta þeim prestssetrum, sem þar eru ákveðin, nema ný lagafyrirmæli komi til.“ Þetta er dregið út úr viðræðum við þessa menn. — Enn segir: „Það var enn fremur upplýst, að verið er að undirbúa skiptingu á 3 prestssetursjörðum með fullu samþykki þeirra aðila, er um það eiga að fjalla.“ — Enn segir: „Loks viðurkenndu nokkrir þessara aðila, að enn væru nokkrar prestssetursjarðir, sem ástæða gæti verið til að skipta og að skaðlausu fyrir búrekstur á þeim prestssetrum, miðað við núverandi búskaparhætti hér á landi.“

Af þessum ummælum, sem tilfærð eru hér í nál., get ég ekki dregið aðra ályktun en þá, að þessir aðilar, stjórn Prestafélags Íslands, biskupsritari, landnámsstjóri og biskupinn yfir Íslandi, hafi látið það álit í ljós, að það væri ekki hægt að skipta þessum prestssetursjörðum, nema ný lagafyrirmæli komi fram, og það er ekki að sjá annað af þessari tilvitnun hérna í nál. en að þeir hafi verið samþykkir því, að þessi lög yrðu samþ., að lagafyrirmæli yrðu sett, til þess að hægt væri að skipta þessum jörðum. En nú vil ég bara spyrja: Hvernig stendur þá á þessum mótmælum, sem hér koma? Þar er frv. mótmælt harðlega af stjórn Prestafélagsins og álitið alveg óviðunandi, að þetta frv. sé samþ. Ég var að vísu ágreiningslaust flm. að þessu frv., og ég skal játa það, að ég stakk ekkert upp á því að láta þetta frv. fara til umsagnar hinna réttu aðila, sem ég álit að eigi að fjalla um það. Um leið og ég játa þetta, þá finnst mér það skylda mín, þegar það er komið á þennan vettvang eftir meðferð í hv. Nd. og þessi mótmæli liggja fyrir, um leið og það kemur hingað til einnar umr., að vekja athygli hv. dm. á því, og ég vil lýsa því yfir, að þó að það verði greidd atkv. um þetta frv. núna, þá mun ég greiða atkv. á móti því.