11.11.1952
Neðri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir, að ég er samþykkur þessu frv., sem hér liggur fyrir, og mun veita því stuðning. Ég vil þó taka það fram, að ég tel dálítið varhugavert að fara inn á þá braut að leysa öll vandamál í sambandi við útlánastarfsemi og fé til lánastarfsemi í landinu með því að taka erlend lán. Það er dálítið hættuleg braut, og ég held, að það þurfi að athuga það mjög ýtarlega, ekki sérstaklega í sambandi við þetta mál, heldur bara almennt um lánamál okkar, hvort þörf sé á því að taka svo mikið af erlendum lánum eins og um er talað. Það er athugandi, að mikið af þessu fé, sem yrði endurlánað Iðnaðarbankanum, fer ekki til greiðslu á erlendum varningi, hráefni og slíku; verulegur hluti fer til greiðslu á vinnulaunum og alls konar öðrum framleiðslukostnaði hinna ýmsu iðnfyrirtækja, sem fengju þetta fé lánað, eftir að bankinn væri búinn að hefja starfsemi sína, og þess vegna virðist ekki vera sérstök þörf fyrir það, að allt féð yrði tekið í erlendu láni.

Ég vil sérstaklega leggja áherzlu á það, að afgreiðslu þessa máls verði hraðað sem mest, vegna þess að ég tel vera mikla nauðsyn á því að hrinda áfram Iðnaðarbankanum, koma honum í framkvæmd. Eins og hv. þdm. muna, þá voru sett lög um Iðnaðarbanka hér á síðasta þingi og samþ. á Alþ. 19. des. 1951. Að vísu var þingið ekki sammála í þessu atriði. Það var sérstaklega einn flokkur þingsins, sem skar sig þar úr og hafði ekki áhuga fyrir þessu máli, en að málinu stóð hins vegar mikill meiri hluti þm. í báðum þingdeildum, og þess vegna varð ég nokkuð hissa, þegar ég frétti það, eftir að haldnir voru stofnfundir Iðnaðarbankans, að þar hefði verið upplýst, að ríkissjóður væri ekki tilbúinn til þess að greiða sitt hlutafjárframlag eins og l. gerðu ráð fyrir. En í 3. gr. l., sem samþ. voru 19. des. í fyrra, er gert ráð fyrir því, að hlutafé bankans skuli vera 61/2 millj. Ríkissjóður á að leggja fram 3 millj. kr. eða allt að 3 millj. kr., Félag íslenzkra iðnrekenda og Landssamband íslenzkra iðnaðarmanna skulu safna og leggja til, hvort um sig, 11/2 millj. í hlutafé, en 1/2 millj. á síðan að afla með hlutafjársöfnun innanlands samkv. opinberu útboði. Nú liggur það fyrir, að það er búið að safna þessu hlutafé, sem Landssamband íðnaðarmanna og Félag íslenzkra iðnrekenda hafa safnað, og það er bara meðal iðnaðarmanna; og það sýnir bezt, þegar tekið er tillit til þeirra erfiðleika, sem atvinnulífið og iðnaðurinn á við að stríða núna, hvílíkur áhugi er á málinu að það skuli vera nú búið að safna þessu hlutafé. Á stofnfundinum var upplýst, að ríkisstj. vildi ekki borga út nema fjórðung af sínu hlutafé eða 750 þús. kr. af þessum 3 millj. og mundi ekki leggja fram meira, nema því aðeins að hún fengi greidda af því vexti, eða sem nokkurs konar lán. Nú má segja sem svo, að ríkið eigi náttúrlega sem hluthafi að sitja við sama borð og aðrir hluthafar. En það er vitanlega hægt að leysa það með öðrum hætti en þeim, að ríkið taki vexti af sínu hlutafé. Eðlilegast er, að ríkið borgi út sitt hlutafé, en síðan verði samið við hina einstöku hluthafa, sem lagt hafa fram 3 millj. á móti, að þeir, sem þegar eru búnir að borga, og þeir munu allir vera búnir að borga sinn fjórðung, greiði venjulega bankavexti af því hlutafé, sem eftir er að greiða, og leggi bankanum fram tryggingar fyrir greiðslu þess hlutafjár. Þá sitja ríkið og þessir einstöku hluthafar, sem þessi tvö sambönd hafa safnað, við sama borð, og þá fæst það líka, að bankinn getur hafið starfsemi sína.

Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að þær undirtektir, sem komið hafa fram við stofnun hankans, sýna, að þessir fjölmörgu menn, sem að iðnaðinum standa í landinu, muni vilja leggja mikið á sig til þess að skaffa þessum banka rekstrarfé, og ég efast ekkert um það, að strax og bankinn væri búinn að hefja starfsemi sína, mundi honum áskotnast sem sparisjóðsinnstæður og á annan hátt ýmislegt fé til þess að starfa með fyrir hina mörgu aðila, sem þarna eiga hlut að máli og hagsmuna hafa að gæta í sambandi við það, að iðnaðurinn í landinu verði rekinn stöðugt og örugglega. Í Sþ. flyt ég till., sem ekki hefur enn þá komið til umr., um það, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að greiða nú þegar allt hlutafjárframlag ríkissjóðs til Iðnaðarbanka Íslands h/f. Þessi till. er ekki komin til umr. Ég vil aðeins minna á það hérna, að þessi tvö mál ganga í sömu átt að verulegu leyti, og virðist vaka fyrir bæði mér og flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, það sama: að koma bankanum á stað sem allra fyrst. Bankans biða mikil verkefni, og menn bíða með óþreyju eftir því, að hann geti hafið starfsemi sína, og það er illt til þess að vita, að ríkisstj. skuli setja þannig fótinn fyrir þetta.

Ég vil alveg undirstrika það, að það tiltæki ríkisstj. að vilja ekki greiða út hlutafjárframlag sitt er í fullu ósamræmi við vilja meiri hluta þingsins, sem kom fram, þegar stofnun Iðnaðarbankans var ákveðin með lögum í fyrra. Og þess vegna taldi ég rétt, að þetta mál yrði borið fyrir þingið og þingið verði á ný látið skera úr um það, hvort það sé ekki vilji þess áfram eins og var í fyrra, að þessum banka verði hleypt af stokkunum. Hæstv. fjmrh., sem mun vera í fyrirsvari fyrir ríkisstj. í sambandi við allar greiðslur, er kannske vorkunn, vegna þess að hann og hans flokkur var einkum — meðal þingmanna — á móti því, að iðnaðarbanki væri stofnaður á sínum tíma. Og ég held, að þessi andstaða hans gegn því að greiða út hlutafjárframlagið sé ekki annað, en framhald af andófi, sem flokkur hans beittí í þessu iðnaðarbankamáli á síðasta þingi.

Ég vildi sérstaklega mælast til þess við þá n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún hraði afgreiðslu þess sem mest, vegna þess að ég tel, að það liggi fyrir meirihlutavilji á Alþ. fyrir því, að þessi iðnaðarbanki geti hafið starfsemi sína sem allra fyrst.