15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé mjög slæmt að afgreiða þetta mál nú við 2. umr. í staðinn fyrir að láta fara fram betri rannsókn heldur en nú þegar hefur verið gerð í hv. allshn. um þetta mál. Satt að segja undrar það mig, að n. hér á Alþ., sem er kunnugt um okur olíuhringanna, er kunnugt um málaferlin í sambandi við þeirra álagningu, er kunnugt um margra ára og áratuga meðferð þeirra á þjóðinni, skuli taka mál eins og þetta til meðferðar án þess að taka sér fyrir hendur að einhverju leyti sjálf að rannsaka, hvernig þetta stendur. Það lágu fyrir henni þau plögg, sem ég las hérna upp áðan, og hún gat ákaflega vel vitað, hvernig aðstaðan þarna var, og enginn aðili í landinu hafði eins góða aðstöðu og ein nefnd þingsins sjálfs til að geta krafið viðkomandi aðila — í þessu tilfelli olíuhringana — allra upplýsinga um málið, þannig að það lægi alveg fyrir okkur nú við þessar umr., hvernig þetta stæði. Ég skil ekki, að þær upplýsingar, sem ég flutti hérna áðan, séu nýjar fyrir hv. allshn., og það hefðu verið á þessum tíma, sem málið hefur legið fyrir henni, fullir mögulegar til þess að ganga úr skugga um það við hringana, hvernig þetta raunverulega stæði. Ég held þess vegna, að það langskynsamlegasta, sem verði gert nú við 2. umr. málsins, sé að samþ. þær brtt., sem ég er hérna með. Ég gæti nefnilega trúað, að þegar búið væri að samþ. þær brtt. við 2. umr., þá kæmu hringarnir hlaupandi með alls konar upplýsingar, sem þeir hafa kannske ekki verið allt of óðfúsir að láta í té. Þá gæti nefnilega hv. allshn. farið að tala við þá eins og sá, sem valdið hefur, þegar hún hefði þetta frv. fyrir sér í því formi, að þetta yrði leyst á kostnað olíuhringanna. Og rannsóknarskyldan, sem hv. frsm. n. réttilega talaði um hér áðan, lægi þá á olíuhringunum. Þeir yrðu að koma og sanna nú, að þetta væri ekki hægt, sem Alþ. hefði samþ.

Ég get þess vegna ekki á það fallizt að taka mína till. til baka. Ég vil láta atkv. ganga um það nú, hver afstaða hv. þd. er viðvíkjandi olíuhringunum. Ég held, að það dugi engin linkind í þeim efnum. Hitt er ég alveg sammála um, að síðan, þegar búið væri að breyta frv. þannig við 2. umr. málsins, þá gæti allshn. athugað sinn gang vel á milli umr., því að það verður vafalaust komið til hennar til þess að kvarta. En þá verður hennar aðstaða líka miklu betri. Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að mínar brtt. séu samþ. nú við 2. umr. málsins, og síðan er þá hægt milli 2. og 3. umr. að athuga málið betur.