16.01.1953
Neðri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. minnt hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það dróst nú fyrir okkur minni hl. í allshn. að skila nál. í þessu máli, eins og fram kom hér á þingfundi, áður en þingið fór í frí fyrir jólin. En nú liggur fyrir á þskj. 523 nál. okkar, og þar gerum við í meginatriðum grein fyrir skoðunum okkar og afstöðu til málsins, og þarf ég þess vegna ekki mjög miklu þar við að bæta, þó að ég vilji aðeins árétta nokkur þeirra atriða, sem kannske skipta mestu máli.

Frv., eins og það liggur fyrir, er um verðjöfnun á olíu og benzíni. Það hefur hins vegar komið fram till. frá einum nm., sem myndaði meiri hl., um að taka benzín út úr verðjöfnunni, þ. e. hv. þm. Siglf., og að þessu athuguðu er eiginlega meiri hl. fyrir því í allshn., að það verði ekki tekin upp verðjöfnun á benzíni. Við höfum fallizt á það, að það muni vera rétt, eins og fram kemur í grg. olíufélaganna, sem fylgir nál. meiri hl., að meiri verðjöfnun á benzíni heldur en nú er — því að hún er þegar allmikil, eins og kunnugt er — muni leiða til almennrar hækkunar á benzíninu. Við teljum, að það verði ekki hrakið, sem olíufélögin segja í áliti sínu á bls. 5 í nál. meiri hl., að jöfnunarverðið á benzíni muni því hafa í för með sér aukinn óþarfa flutningskostnað, sem að sjálfsögðu mundi hækka útsöluverðið, svo sem þau rökstyðja með því, að menn mundu hirða minna um að taka benzínið á þeim stöðum, þar sem það er ódýrast. Sér í lagi mundu stærstu benzínnotendurnir úti á landi, sem hafa umboðslaun af sölu og notkun og afgreiðslu benzínsins, meira en nú er freistast til þess að taka benzínið heima hjá sér, og á þann hátt mundi í heild leggjast meiri flutningskostnaður á benzínið og orka til almennrar hækkunar á því.

Við meðferð málsins hefur kannske verið meira rætt um verðjöfnun á olíunni, og þar má segja, að mest hafi borið á málflutningi þeirra manna, sem sagt hafa, að útgerðin úti á landi og utan Faxaflóa sérstaklega, sem býr við hærra olíuverð, megi ekki við þessum miklu meiri tilkostnaði heldur en önnur útgerð, sambærilegir starfsbræður annars staðar á landinu. Þessa staðhæfingu erum við þeim alveg sammála um. En svo auðnast okkur ekki að verða samferða lengur, vegna þess að þeir, sem bera fram þessa verðjöfnun á olíunni, segja: Til þess að rétta hag útgerðarmanna úti á landi, þá skulum við láta útgerðarmennina við Faxaflóa borga hærra olíuverð. — Í þessu er ég þessum aðilum ekki sammála. Ég mundi vilja vera þeim sammála um ýmsar aðrar leiðir til þess að greiða niður olíukostnað útgerðarinnar úti á landi, en ekki eins og sakir standa nú með því að taka fé til þess frá þeim, sem reka útgerð við Faxaflóa. Og það er vegna þess, að ég tel þá aðila, bátaútveginn og togarana, eins og nú standa sakir, á engan hátt aflögufæra. Menn segja að vísu: Ja, því skyldu þeir ekki geta borgað hærri olíu við Faxaflóa, þegar þeir borga svona miklu hærri olíu annars staðar úti á landi? — Útgerðin úti á landi berst í bökkum og getur ekki borið hinn mikla tilkostnað, og það sama gildir um útgerðina hér við Faxaflóa. Það er naumast hægt að benda á nokkra útgerð, sem ber sig nú, svo að heitið getið. Það þykir gott, ef hægt er að láta endana ná saman. Fram yfir það hefur ekki verið um mikið að ræða, hvorki hér við Faxaflóa né annars staðar.

Ég held, að öllum sé ljóst, hversu rík nauðsyn er að halda uppi útgerð og framleiðslustarfsemi sem víðast á landinu. Og ef menn halda því fram, að það sé svo erfitt að gera út á ýmsum stöðum úti á landi vegna meiri tilkostnaðar á olíu, eins og hér um ræðir, þá mundi ég vilja segja: Það er svo mikil þjóðfélagsleg nauðsyn að halda þessari útgerð áfram vegna þeirrar framleiðsluaukningar, sem hún ber í skauti sér, og vegna þeirrar atvinnuaukningar og atvinnusköpunar, sem hún hefur í för með sér, að þjóðfélagsborgararnir í heild verða að rísa undir því að gera þessari útgerð kleift að bera sig, og þess vegna sýnist mér einfaldast, að það eigi að vísa henni á almannasjóð landsmanna, á ríkissjóðinn, en ekki á sjóði nokkurra annarra útgerðarmanna, sem berjast í bökkum. Þetta er viðhorfið í sambandi við togarana. Það munu vera um 17 togarar, sem eru gerðir út utan Faxaflóa, og til þess að leysa þeirra vandræði, sem hér um ræðir, fyndist mér miklu eðlilegra að verja um 50 þús. kr. úr ríkissjóði til hvers þessara 17 togara, innan við milljón króna alls, til þess að ná því marki, sem þeir mundu ná með þessu frv.

Um bátana gegnir svo nokkuð öðru máli. Þeir eru langsamlega flestir gerðir út hér við Faxaflóa, og þær viðræður, sem nú standa yfir á milli bátaútvegsmanna annars vegar og fiskkaupenda hins vegar, þar sem ríkisstj. er þriðji aðilinn til þess að reyna að tryggja útgerð bátanna, byggjast allar á þeim rekstrargrundvelli, þar sem miðað er við núverandi olíuverð. Ef olíuverð þessara báta ætti að hækka vegna verðjöfnunarinnar, þá væri þar með raskað verulega þessum grundvelli. Og við þetta bætist svo einnig, að um bátana má segja það, að það eru margir bátar, sem gerðir eru út utan Reykjavíkur og nágrennis, utan Faxaflóa, og þurfa að vísu að borga olíueininguna dýrara verði, en bátar hér í Faxaflóa, en hafa samt minni tilkostnað af olíunni, vegna þess að þeir nota minni olíu, þar sem þannig háttar til, að þeir hafa miklu styttra á miðin að fara. Það er þannig ekki einsýnt til að jafna metin á milli útgerðarinnar að fara þær leiðir, sem hér er lagt til, með verðjöfnuninni á olíunni.

Það er sagt af 1. flm. þessa máls, að það sé svo dýrt að flytja nauðsynjar austur í V.-Skaftafellssýslu, af því að þetta sé svo löng leið, að það verði að lækka benzínið fyrir bændurna þar austur frá, og þá segir þessi hv. þm.: Það á að gera það með því að láta þá bændur, sem nota benzín annars staðar, greiða hærra verð við verðjöfnunina. — Ég vil nú segja það við þennan hv. þm., sem benti réttilega á það í sinni framsöguræðu, að það væru 60 aurar, sem ríkissjóður væri búinn að taka með benzínskattinum af hverjum lítra: Hví ekki að fara og heimta sinn hluta af skattinum og segja: Við, sem höfum svona erfiða aðstöðu í þjóðfélaginu, viljum ekki borga sama benzínskatt og hinir? — Mér finnst það miklu eðlilegra sjónarmið heldur en að segja: Hækkið þið verðið hjá hinum, sem nota benzín, svo að við getum fengið lægra verð. — Það er ekki frambærilegt, að ríkissjóður taki svona gífurlegan benzínskatt af þeim, sem hafa svona erfiða aðstöðu vegna notkunar á benzíni í sveitum, þar sem landflutningar eru jafngífurlega langir. Við skulum vera a. m. k. svo sanngjarnir að segja, að það sé a. m. k. algerlega matsatriði, hvort það sé réttara að láta þá aðila, sem nota benzín líka, borga þetta eða láta borga þetta úr ríkissjóði, sem er búinn að taka 60 aura af benzíninu.

Það á sér stað margvísleg verðjöfnun í okkar þjóðfélagi á einn eða annan hátt. Það eru lagðir símar út um allar sveitir fyrir hagnaðinn af bæjarsímanum í Reykjavík t. d., og þetta er auðvitað verðjöfnun, og menn láta þetta gott heita. Og það eru auðvitað byggðir vegir úti um sveitirnar og brýr fyrir benzínskatt úr ríkissjóði, — benzínskatt, sem tekinn er í Reykjavík og nágrenni og annars staðar, þar sem vegir og brýr eru komnar. Þetta er líka ósköp eðlilegt og kemur öllum meira og minna í þarfir og menn sjá allir nauðsynina á því. Ég held, að það sé ástæðulaust að deila um það, að menn almennt sjái nauðsynina á því, að það sé það mikið samræmi í aðstöðu atvinnurekstrar og atvinnulífs á landinu, að byggðin geti haldizt ekki síður úti um sveitir landsins heldur en í kringum höfuðstaðinn, við Faxaflóa, og næsta nágrenni; þess vegna sé spurningin aðeins um það, að menn greini á um leiðirnar, hvernig eigi að tryggja þetta. Sannleikurinn er líka sá, að þetta er ekki meira „princip“-mál um verðjöfnunina heldur en það, að við sjáum, að þm. flokkast alveg einfaldlega eftir því, hvar þeir hafa eiginhagsmuna að gæta í sinu héraði. Og það má segja með réttu, að það sé eðlilegt, að ég sé á móti þessu, þetta snerti menn, Sem séu umbjóðendur mínir hér í höfuðstað landsins, o. s. frv., þar sem ég er þm. Reykv. Það mótar vissulega að verulegu leyti mína skoðun, og ég spyr sjálfan mig að því: Er rétt að taka það, sem þarf til að rétta útgerð og öðrum atvinnurekstri hjálparhönd í þessu efni, frá fáum aðilum, ef það er heildarhagsmunamál þjóðfélagsins, að þetta sé gert? — Ef það er jafnmikið hagsmunamál þjóðfélagsheildarinnar eins og einhverra einstakra hópa og meira, þá er engin ástæða til þess eða a. m. k. ekkert réttlætanlegra að fara inn í hinu þrönga hóp, til þess að málið nái fram að ganga.

Sannleikurinn er sá, að hvað sem segja má um þetta og hver sem niðurstaðan í þessu verður, þá höfum við látið fylgja nál. álit frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem ber ekki með sér, að það sé mikill áhugi í hópi bátaútvegsmanna fyrir þessari verðjöfnun, og byggi ég það á því, sem þar kemur fram, að þegar sambandsstjórnin spyr öll sambandsfélögin og alla einstaka aðila að því, hvaða álit þeir hafi á þessu máli, þá eru bara 3 aðilar, sem svara, og einn af þeim er með verðjöfnun og 2 á móti. Ég hef heyrt sagt, að þeir hafi ekki getað svarað þessu, af því að það hafi verið um hávertíð, sem þeir hafi verið spurðir. Ég veit ekki, hvort það er hægt að taka svona gilt. Þeir geta verið hér á fundum um hávertíð og gert ályktanir á þingum o. s. frv. En að þeir hafi ekki tíma til þess að tjá sig um hagsmunamál eins og þetta, vil ég ekki telja gild rök. Eitthvað annað hlýtur að liggja þar á bak við, og einnig er það víst, að þetta hefur auðvitað verið mikið deilumál á fundum L. Í. Ú., og það má kannske segja, að það sé að eðlilegum hætti, því að mestur fjöldinn af þessum bátaútvegsmönnum er við Faxaflóann og hér í nágrenninu og hefur þá hagsmuni af því, að olíuverðið hækki ekki vegna verðjöfnunar.

Meira skal ég nú ekki fara út í það, hvernig heimilisástæðurnar eru hjá bátaútvegsmönnunum og útgerðarmönnunum í þessu máli, sbr. það, sem fram kemur í bréfi landssambandsstjórnarinnar. En við höfum að öllu athuguðu lagt til, hv. þm. Hafnf. og ég, að það sé með afgreiðslu þessa máls ekki tekin afstaða til stefnusjónarmiðs í þessu eða „princip“-sjónarmiðsins, hvort það skuli vera verðjöfnun eða ekki verðjöfnun, — látum það liggja á milli hluta og leggjum þess vegna til, að málinu sé vísað frá með rökst. dagskrá, þar sem við teljum, að eins og sakir standa í dag sé samþykkt málsins ekki tímabær, og það teljum við að sé vegna töluvert sérstakra kringumstæðna eins og nú háttar.

Það hefur nýlega verið leyst hér allsherjarverkfall með ráðagerðum, sem kippt er til baka fyrir mikinn hluta fólks með því að samþ. þetta frv. Það hefur verið lækkað olíuverð og lækkað benzínverð, og olían hefur verið lækkuð sem liður í því að lækka framfærsluvísitöluna, sem að sjálfsögðu mundi aftur hækka við þessa verðjöfnun hjá fjölda fólks hér í Reykjavík og nágrenni. Og það hefur verið lækkað mjólkurverð. Það er alveg greinilegt, að benzínverðjöfnun mundi hækka benzínverðið á því svæði, þar sem mest mjólkurmagnið er hér í nágrenninu, eins og í Árnessýslu. Annaðhvort verður sú hækkun að koma niður á bóndanum til meiri lækkunar á mjólkinni eða þá það verður að velta þeim aukna tilkostnaði yfir á neytandann með hækkuðu mjólkurverði, og menn vita, hvað það mundi mælast vel fyrir, eftir það, sem á undan er gengið. Ég held þess vegna, að það sé mjög óráðlegt eins og sakir standa að samþ. þetta mál, vegna þess að í augnablikinu hefur það miklu víðtækari verkanir heldur en það mundi hafa haft á öðrum tímum, sökum þeirra deilna, sem nýlega hafa staðið í þjóðfélaginu og leystar hafa verið með margvíslegum ráðstöfunum, sem samþykkt þessa frv. gripur að verulegu leyti inn í. Það er nú verið að reyna að tryggja útgerð bátanna, og þeim viðræðum er ekki lokið, og þetta frv. mundi einnig raska þeim grundvelli, sem með þeim viðræðum er lagður, en það er rekstrargrundvöllur bátanna samkv. nál. ríkisskipaðrar nefndar, eins og fram kemur í grg. okkar, frá 1945, sem þeir áttu sæti í: Pétur heitinn Magnússon, Klemenz Tryggvason, núverandi hagstofustjóri, og Gylfi Þ. Gíslason alþm. og prófessor, og hefur aðeins verið breytt í samræmi við verðbreytingar, sem orðið hafa frá þeim tíma. Það er þess vegna mjög óeðlilegt að gera hér á þingi ákvarðanir, á sama tíma sem slíkar viðræður standa yfir, sem raska þeim grundvelli, sem þær eru á byggðar. Loksins held ég, að togaraútgerðin í dag standi það höllum fæti, bæði hér við Faxaflóa og annars staðar, ekki sízt vegna þeirrar ófyrirséðu úrlausnar í landhelgisdeilunni, sem við stöndum í, að það sé ekki neinu á bætandi, og sé því miklu skynsamlegra að hverfa að þeim leiðum að reyna að rétta þeim hjálparhönd að öðrum leiðum, sem verst standa. Hér við verð ég líka að bæta því, sem fram kemur í lok grg. okkar og snertir

Reykjavíkurbæ og mér er náttúrlega nærstæðast, að það hefur auðvitað veruleg áhrif, eftir að Reykjavíkurbær er búinn að gangast inn á ýmis atriði í sambandi við lausn vinnudeilunnar, sem miðuð eru við fjárhagsáætlun, sem á nú að fara að afgreiða, og vitaskuld miðað við það, að það breytist þá ekki aðrir liðir hennar, þ. á m. að ekki sé samþ. á þinginu frv., sem að verulegu leyti breytir niðurstöðutölum þeirrar fjárhagsáætlunar, sem við erum með. Er bent á, að munað geti t. d. á fjárhagsáætlun rafveitunnar hálfri til heilli milljón króna bara vegna olíunotkunar toppstöðvarinnar á þessu ári. Hins vegar yrði hún miklu minni á árinu 1954, eftir að Sogsvirkjunin nýja er komin í gang, svo að það á við einnig þarna, að einmitt að gera þetta nú er að minni skoðun sérstaklega ótímabært, auk þess sem þetta snertir auðvitað stórlega bæjarútgerðina í Reykjavík, sem er með 8 togara, og mundi þá muna hana um ½ millj. kr., ef þessi verðjöfnun væri samþ., í auknum rekstrarkostnaði á olíunni einni.

Af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint, finnst mér, að hv. þm. þurfi ekki að karpa mjög um „princip“-afriðin í þessu máli. Þetta eru hagsmunasjónarmið, sem eru mismunandi eftir því, hvar menn eru búsettir á landinu, og það er vissulega hægt að hugsa sér fleiri leiðir til þess að ná því marki, sem þetta frv. stefnir að, heldur en þá, sem þar er á bent, og að minn áliti skynsamlegri, eins og nú standa sakir. En okkar till. er sú — með leyfi hæstv. forseta — að málinu verði vísað frá með svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Þar sem samþykkt frv. mundi hafa í för með sér verulega röskun á því samkomulagi, sem náðist hinn 19. des. s. l. milli ríkisstj. og atvinnurekenda og launþega til lausnar allsherjarverkfallinu, sem þá hafði staðið nærri þrjár vikur, og þar sem samþykkt þess mundi enn fremur hafa veruleg áhrif til röskunar á rekstrarkostnaði bátaútvegsins, sem lagður er til grundvallar í viðræðum L. Í. Ú., frystihúsaeigenda og ríkisstj. til þess að tryggja útgerð bátaflotans á vetrarvertíðinni, og þar sem loksins er fullvist, að togaraútgerðin við Faxaflóa er þess allsendis óviðbúin, eins og nú standa sakir, að taka á sig þann aukna rekstrarkostnað, sem samþykkt frv. mundi orsaka, telur deildin ekki tímabært að samþykkja frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“