28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðist vera um svo mikilsvert mál að ræða hérna, að mér þykir rétt að segja nokkur orð um það þegar við 1. umr., ekki sízt með tilliti til þess, að Alþfl. á engan fulltrúa í fjhn., sem ég vil gera ráð fyrir, að fái þetta mál til meðferðar. Annars skal ég segja það, að mig furðar á því, að hæstv. fjmrh. skuli ekki sýna sig í d., þegar þetta mál er borið hér fram, því að það er vissulega ekki neitt smáræði fyrir ríkissjóðinn, sem hér er um að ræða. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að af fé almennings, eignum ríkissjóðs séu um 45 millj. kr. gefnar ákveðnum stofnunum, þ. e. a. s. ráðstafað úr ríkissjóði, sem er sameign landsmanna allra, hvorki meira né minna en 45 millj. kr. sem gjöf til ákveðinna stofnana. Mér er að vísu ekki jafnvel kunnugt og að sjálfsögðu hæstv. fjmrh. og sennilega einnig hv. flm. þessa frv., sem eru samflokksmenn hæstv. fjmrh. og sjálfsagt hans ráðunautar í fjárhagsmálefnum ríkisins, um fjárhag ríkissjóðs, en ég þykist þó vita það, að fjárhagur ríkissjóðs sé ekki sá, að það skipti ekki miklu máli fyrir hann, hvort þetta er beinlínis gefið þessum ákveðnu stofnunum eða lagt fram sem lán, sem á að endurgreiðast með vöxtum, eins og til er sett. Ekki sízt virðist mér þetta augljóst, þegar þess er gætt, að á þessu Alþ., sem nú er fyrir skömmu byrjað, eru óskir frá hæstv. ríkisstj. bornar fram í frv.-formi um að fá heimild til lántöku innanlands eða utan, aðallega erlendis, sem skiptir mörgum milljónatugum, til áburðarverksmiðju, til lánsstofnana bænda, Búnaðarbankans eða ræktunarsjóðsins, til að fullgera virkjanirnar við Sog og Laxá og fleira, sem telja mætti. Ég skal fullkomlega viðurkenna það, að þær stofnanir, sem hér um ræðir, bæði Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna og lánadeild smáíbúðarhúsa, eru stofnanir, sem sjálfsagt er að styrkja, og það hefur líka verið gert. Sumar af þeim, eins og Búnaðarbankinn, hafa verið styrktar mjög rausnarlega fram að þessu, og liggja hér frammi allmargar till. um að auka starfsfé hans mjög verulega með beinum framlögum úr ríkissjóði og lánum, eins og mönnum er kunnugt.

Hv. frsm. sagði að vísu, að segja mætti, að hér væri um nokkuð miklar upphæðir að ræða, en þessa gætti nú ekki mikið í öllum þeim mikla mat, sem hér væri reiddur fram á Alþ. En furðuleg bjartsýni er nú þetta hjá hv. frsm., og nokkuð kveður við annan tón stundum. (Gripið fram í.) — Já, þegar skiptist á innborgunartíma, bætir hv. þm. við. Upphæðin er sú sama, þó að hún greiðist á nokkuð löngum tíma, og ýmsar þarfir munu án efa kalla að á því tímabili, áður en þær skuldir eru að fullu greiddar. Ég vil því mega vænta þess, að áður en þessu máli er ráðið til lykta, verði það gaumgæfilega athugað af þeirri n., sem fær það til meðferðar, og hún gangi eftir ýtarlegri skýrslu um fjárhag ríkisins í sambandi við þessa fáheyrðu ráðstöfun og jafnframt um, hvaða annað fé hefur í lánaformi í gegnum ríkissjóð verið veitt þessum stofnunum. Mundi þá verða óskað með fullri sanngirni, að þær yrðu látnar sæta sömu kjörum, veitt óafturkræft framlag í staðinn fyrir lán, því að hér er ekki upp talinn nema lítill hluti af því fé, sem ríkissjóður á þann hátt hefur lagt til ákveðinna stofnana. Og sé byrjað á þessu, þá má búast við því, að fleiri komi á eftir, sem eiga alveg sama réttinn, geta ætlazt til hins sama og hv. flm. gera ráð fyrir í sambandi við þessar stofnanir í þessu frv.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til við þessa umr. að taka sérstaklega fram annað, en að sýna, að enn í þessu frv. kemur greinilega fram sú stefna hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokka hennar að mismuna einstöku atvinnustéttum í landinu ákaflega greinilega. Það er gert ráð fyrir, að af þessum 47 millj. renni rösklega 2/3 til Búnaðarbankans eins, en 1/3 til stofnana, sem annast lánveitingar til íbúðarhúsa í þéttbýli. Það þarf ekki annað en bara að líta til fólksfjöldans á hverju þessara landssvæða um sig til þess að sjá, að í raun og veru, miðað við það, ætti hlutfallið að vera öfugt, því að það eru meira en 2/3 íbúa landsins, sem búa í kaupstöðum og kauptúnnm landsins; það er minna en 1/3, sem býr á þeim svæðum, þar sem Búnaðarbankanum er sérstaklega ætlað að bæta úr fjárþörfinni og lánsþörfinni. — Ég skal sem sagt ekki hafa þessi orð mín fleiri við þessa umr. Ég vildi mega vænta þess, að þetta mál fengi hina ýtarlegustu athugun og að fjhn. gangi eftir því hjá hæstv. fjmrh., að glöggar skýrslur liggi fyrir, áður en frv. er afgreitt, um getu ríkissjóðs í þessu efni og hvers vænta megi um eftirköst, þ. e. a. s., hverjir koma á eftir og fara fram á það sama, ef farið er út á þá braut, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.