03.02.1953
Efri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það kemur fram þarna vitnisburður um það, að það hafi átt að afgr. málin út úr þinginu samtímis. (Gripið fram í.) Þannig féllu orðin, hver sem það hefur verið, og þess vegna væri ástæðulaust að taka þetta — (Gripið fram í.) En það er dálítið annað, hvort þau eiga að fylgjast að út úr þinginu eða fylgjast að út úr þessari hv. d. (Gripið fram í.) Já, alls ekki að fylgjast að út úr d. Þarna er kominn vitnisburður úr n., sem stangast algerlega við framburð hv. þm. Barð., þannig að það er einhver misskilningur þarna á ferðinni. En sleppum því, það kemur ekki þessu máli við.

Það er auðséð, að það er farið að bera á því, sem vill stundum verða þegar líður á þing, að menn gerast dálítið geðstirðir, og hættulegt að vera með stór mál á ferðinni, þegar þannig stendur á. Ég get þess vegna fellt mig við það, þó að ég óskaði eftir því, að þetta mál væri tekið á dagskrá, að það sé tekið út af dagskrá í kvöld, jafnvel þótt það sé komið fram, að það er ástæðulaust að bera fram þær sakir, sem hér hafa verið bornar fram.

Viðkomandi hinu atriðinu, að nú eigi að samþ. frv., sem hafi verið fellt efnislega í sambandi við fjárl., er því vitanlega til að svara, að það hefði verið algerlega óformlegt í hæsta máta að afgr. slíkt mál í sambandi við fjárl. á þann hátt, sem farið var fram á í þeim brtt., sem komu fram við fjárl., ekki síst þar sem þetta frv. lá fyrir og auðvelt var að afgr. það á þinglegan hátt, eins og nú á að gera, svo að því máli er auðsvarað. — Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég ætla ekki að tefja þessar umr. lengur, en mér finnst rétt að fresta málinu og bíða þess, að menn verði í betra skapi.