03.02.1953
Efri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það var eingöngu vegna ummæla hæstv. forseta, að ég vildi taka hér til máls. Hann óskaði eftir því, að ég gæfi skýringar á þeirri tortryggni, sem ég sýndi sér. Ég vil alveg mótmæla því, að ég hafi sýnt honum nokkra tortryggni. Mér þykir það ákaflega leiðinlegt, að hann skuli hafa gleymt því, að þegar þessi frv. eru til afgreiðslu í fjhn., þá spyr ég alveg sérstaklega um það, hvort frv. verði látin fylgjast að hér í gegnum þessa hv. d. Hvorki ég á sæti í Nd.hæstv. forseti, svo að við gátum ekkert um það rætt, hvað þar kæmi til að ske, og það er ekki af því, að ég vantreysti hæstv. forseta í meðferð málsins, en hann er bara ekki einn í þeim ágæta flokki. Ég veit ekki betur, en hér hafi skeð það undur, að einn af hans ágætu flokksmönnum hefur gefið út sérstakt nál., lagt fram um 30 brtt. í ákveðnu máli, en snýst svo á móti sínum eigin brtt. og drepur þær allar í einu höggi. Ég veit, að hæstv. forseti hefði aldrei farið þannig að, en það eru aðrir menn í Framsfl., sem eru kúgaðir, heldur en hæstv. forseti. Ég hef enga tryggingu fyrir því, að þessi mál næðu bæði fram að ganga, nema orð hæstv. forseta, sem ég trúðl. En þegar hann einmitt kemur hér og lýsir yfir frá sínum hæstv. ráðh., að það eigi að koma yfirlýsing, sem við vitum ekki hvað inniheldur, þá gefur það mér fullkomið tilefni til þess að spyrja um, hvers vegna málið megi ekki bíða þar til sú yfirlýsing sé komin. Ef hæstv. forseti hefði skýrt frá því, hvað var innihald þeirrar yfirlýsingar, eða sagt mér það sem nm., þá horfði málið allt öðruvísi við.

Þetta vil ég láta fram koma hér, því að það er þessi ástæða ein til þess, að ég óskaði eftir, að þessu máli yrði frestað. Ég hef enga hugmynd um það, hvað sú yfirlýsing inniheldur. Hún kann að innihalda allt milli himins og jarðar. Ég hef enga tryggingu fyrir því, hvernig hún er.