22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2307)

70. mál, lánveitingar út á smábáta og vátryggingar smábáta

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 73 höfum við hv. þm. V-Ísf. og hv. þm. N-Þ. sett fram till. til þál. Þótt efni till. sé augljóst og greinargerðin undirstriki það, vil ég samt með nokkrum orðum að auki leggja áherzlu á till.

Lánsfjárskortur er yfirleitt athafnamönnum og framleiðendum á Íslandi til fyrirstöðu og þrautar. En líklega hafa þó engir framleiðendur eins hvimleiðar sögur að segja af aðstöðu sinni í þeim efnum og smábátaeigendur eða þeir menn, sem hafa ætlað að gerast smábátaeigendur. Jafnan verða þessir menn að ganga bónleiðir til búða úr lántökuferðum, ef þeir ætla að fá lán út á báta sína eina saman. Engin lánsstofnun telur sig geta lánað út á þessa báta eða vera skylt að lána út á þá. Bátarnir eru ekki taldir veðhæfir, af því að þeir eru yfirleitt ekki í vátryggingu eins og stærri bátar nema þá um hásumartímann.

Þau lán, sem fengizt hafa út á þessa báta, eru í fiskveiðasjóði eða sparisjóðum. Við bankana er yfirleitt óþarft að ræða um lán handa þessum útvegi. Lánin hjá fiskveiðasjóði og sparisjóðunum hafa lántakendur orðið að baktryggja með fasteignarveðum ellegar ábyrgðum og þá helzt ábyrgðum sveitarsjóða. En margir hafa engin fasteignarveð að setja, hafa til engra einstaklinga að leita, er gildir teljast sem ábyrgðarmenn, og — eins og vonlegt er og betur fer — vilja ekki leita til sveitarsjóða. Og svo fellur útgerðin niður eða ferst fyrir.

Þetta má ekki lengur svo til ganga. Útgerð opinna vélbáta er mjög þýðingarmikil fyrir afkomu þjóðarinnar. Á sumum stöðum er hún jafnvel eina útgerðin. Á ýmsum stöðum, þar sem fleiri farkostir sækja sjó, er hún happadrýgsta útgerðin til jafnaðar. Henni fylgir minnst áhætta í rekstrarkostnaði. Hún hefur sízt og minnst leitað til ríkisins um aðstoð. Henni fylgir sá mikli kostur, að hún er venjulega stunduð að heiman. Það styrkir heimilislífið, sparar útgjöld og drýgir vinnukraft. Oft eru bátaeigendur þannig settir, að fjölskylda útgerðarmannsins getur unnið að útgerðinni eins og fjölskylda bóndans að búinu og það hefur atvinnulega mjög mikla þýðingu.

Það, sem sannar m. a., að útgerð opinna vélbáta er alls engir smámunir fyrir þjóðlífið, er skýrsla, sem tekin hefur verið af Fiskifélaginu fyrir árið, sem leið, þ. e. árið 1951, og sýnir sú skýrsla, hvað margir stunduðu þessa útgerð meiri hluta þess árs. Í maí voru 168 bátar með 429 skipverja við veiðar. Í júní 225 bátar með 560 skipverja. Í júlí 168 bátar með 437 skipverja. Í ágúst 144 bátar með 368 skipverja. Í september 133 bátar með 348 skipverja. Í október 114 bátar með 318 skipverja. Og í nóvember 110 bátar með 298 skipverja. Aðra mánuði ársins stunduðu að vonum miklu færri þessa útgerð, eða frá desember til apríl. Í júní, þegar flestir eru skrásettir á smábáta eða 560 menn samtals, þá er þetta rúmlega sjötti hver maður, sem fiskveiðar telst stunda í þeim mánuði á öllu landinu, botnvörpungar og línugufuskip eru þar með talin. En í nóvember, þegar fæstir fara til fiskjar á opnum vélbátum, miðað við þá mánuði, sem ég nefndi, þá er þetta þó rúmlega tíundi hver maður, sem talinn er fara að fiski í þeim mánuði.

Nú kemur einnig til sögunnar á þessu ári, 1952, að vegna rýmkunar landhelginnar gera menn ráð fyrir því, að fiskganga aukist til mikilla muna á veiðisvæði smábátanna, og þess vegna fjölgar í stórum stíl þeim mönnum, sem vilja fá sér opna vélbáta og þurfa að fá lán út á slík veð.

Það er ákaflega eðlilegt frá öllum sjónarmiðum, að Alþ. fell ríkisstj. að koma því í kring, að Fiskveiðasjóður láni út á hina litlu fiskibáta í samræmi við lánveitingar hans út á stærri báta, baktryggingarlaust. Hins vegar er ekki til þess ætlazt, að fiskveiðasjóður veiti lánin, nema vátryggingar bátanna verði fullkomnari, en þær eru nú. Þess vegna þarf líka jafnframt að fela ríkisstj. að koma því til leiðar, eins og till. gerir ráð fyrir, að tryggingarfélögin taki litlu bátana í sambærilegar tryggingar og hina, enda verða eigendur smærri bátanna að vera tryggðir fyrir slysatöpum á þessum eignum. Annað er óhæfilegt. Það hefur oft brotið niður athafnasama smábátaeigendur að missa þessar eignir ótryggðar. Verði aftur á móti bátarnir sæmilega vátryggðir, verður það til almenns öryggis fyrir smábátaútgerðina, og veiti fiskveiðasjóður lán út á þá sem fullkomin veð, munu sparisjóðir einnig koma til liðs á sama hátt víðs vegar um land.

Ég vænti þess, að hv. Alþ. samþykki þessa till., en ég tel þó við eiga, að umr. verði frestað og málinu vísað til n., og ég vil óska þess, að till. verði vísað til hv. allshn.