23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég verð nú að lýsa því yfir, að ég tel það mjög þýðingarmikið fyrir bændastéttina, að ekki einasta þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ., heldur og að þessi lántaka verði framkvæmd. Og ég ber fullt- traust til hæstv. ríkisstj. um það, að hún sæti svo góðum kjörum um þessa lántöku sem völ er á.

Varðandi vaxtaspursmálið, sem hér hefur verið gert að umræðuefni, þá tel ég óþarft að setja það í samband við þessa lántöku, því að það er lagaatriði, og hingað til hafa ekki verið hækkaðir neitt vextir í þessum sjóðum Búnaðarbankans, enda þótt aðrir vextir í landinu hafi verið hækkaðir. Þá er ekki hægt að hækka nema með lagabreytingu. — Það vandamál, sem hér hefur verið gert að umræðuefni af tveim síðustu ræðumönnum, að þetta verði bankanum ekki til lengdar fært, það er vandamál, sem ég vil ekki setja í samband við þessa lántöku, en fyrr eða síðar náttúrlega kemur til athugunar að öðru leyti í sambandi við rekstur bankans. Ég vil taka þetta fram, að með þessum fyrirvara mun ég greiða atkv. alveg hiklaust gegn þessari till., því að ég vil ekki setja þetta mál neitt í samband við þá lánsheimild, sem hér er verið að fara fram á.