23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Hv. þm. A-Húnv. var að tala um, að hann vildi ekki setja ákvæðin um endurlánin í samband við þetta frv., sem hérna væri til umræðu. Ákvæðin um endurlánin eru ákveðin með þessu frv. Þetta frv. er um tvennt, eins og það kemur fyrir frá ríkisstj., þ.e. annars vegar um að taka lánið erlendis, hins vegar um að endurlána það til Byggingarsjóðsins og Ræktunarsjóðsins með sömu kjörum og það sé tekið, og það má ganga út frá því, að þrátt fyrir kannske mjög góða viðleitni ríkisstj. fái hún ekki lægri vexti en 41/2–5%, þannig að þá er ákveðið með þessu frv. ríkisstj., að það skuli lána til þessara sjóða með 41/2% eða 5% vöxtum, en þessir sjóðir skuli lána það út aftur með 2% og 21/2% vöxtum og hvað snertir annan sjóðinn, sem sé Byggingarsjóðinn, til helmingi lengri tíma, en það er tekið. Þess vegna er um það að ræða í sambandi við þetta mál nú að ákveða kjörin, sem féð skuli endurlánast með til þessara tveggja sjóða. Það er núna, sem liggur fyrir að taka ákvarðanir um það, og okkar till. er, að þegar ríkið endurlánar, skuli það lána með sömu kjörum og það uppáleggur Byggingarsjóðnum og Ræktunarsjóðnum að lána aftur út fyrir. Það þýðir ekki í raun og veru að skjóta sér fram hjá því að taka ákvörðun um afstöðu viðvíkjandi þessum kjörum núna. Það er alveg gefið mál, að það að skylda Byggingarsjóðinn og Ræktunarsjóðinn til að lána út með helmingi verri kjörum, en hann fær lánið þýðir að draga úr starfsemi þessara sjóða. Það er ómögulegt að koma sér undan því, það þýðir að draga úr starfsemi þessara sjóða, það þýðir að minnka þau lán, og það þýðir lítið fyrir menn að vera að koma með till. um aukin lán til landbúnaðarins og annað slíkt og betri lánskjör, ef menn á sama tíma ætla með því að samþykkja þetta stjfrv. óbreytt og stuðla að því, að það verði dregið úr lánunum og kjörin fyrr eða síðar rýrð.