05.12.1952
Sameinað þing: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2551)

119. mál, varahlutir til bifreiða

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Í till. þessari er gert ráð fyrir því, að skorað sé á ríkisstj. að fella niður varahluta til bifreiða af skrá um bátagjaldeyrisvörur, en veita í staðinn samtökum bifreiðarstjóra og bifreiðaeigenda innflutningsleyfi fyrir nauðsynlegu magni bifreiðavarahluta.

Allshn. hefur rætt þessa till. allýtarlega. Henni eru, svo sem segir í nál., fullkomlega ljósir þeir erfiðleikar, sem það veldur ekki aðeins atvinnubifreiðarstjórum, heldur einnig ýmsum öðrum, sem bifreiðar þurfa að nota við atvinnurekstur sinn, að bifreiðavarahlutar skuli vera á bátagjaldeyrisskrá og með því aukaálagi, sem því fylgir. Það var hins vegar samdóma álit n., að ef á annað borð væri eðlilegt, að slíkur skattur væri á lagður, þá væri tvímælalaust, að í ýmsum tilfellum væri ekki óeðlilegt, að hann væri tekinn af varahlutum til bifreiða. Því fer að sjálfsögðu mjög fjarri, að bifreiðar séu í öllum tilfellum nauðsynlegar, heldur mega þær oft teljast lúxus, sem svo er nefndur, og ekki brýn þörf fyrir viðkomandi mann að eiga bifreið. Ef því á að leggja á skatt sem bátagjaldeyrinn, þá er ekki óeðlilegt, að hann sé lagður einmitt á svipaðar vörur og þá bifreiðavarahluta, sem svo er ástatt með. Og varðandi bátagjaldeyrisálagið er það að segja að það er lagt á ýmsar vörur, sem eru meiri nauðsynjavörur en varahlutar til bifreiða, sem geta ekki talizt nauðsynlegar vegna starfs manns eða atvinnu. Þar sem var um að ræða þessi tvö sjónarmið, þá var að sjálfsögðu ekki annað fyrir hendi en að íhuga, hvort hugsanleg væri sú leið að gera einhver skil þarna á milli, þannig að bátagjaldeyrisálag væri ekki innheimt af bifreiðum, sem væru notaðar til atvinnurekstrar, en hins vegar áfram innheimt af varahlutum til bifreiða, sem teljast mættu ónauðsynlegar. N. gat ekki fundið grundvöll fyrir slíkri skiptingu, svo að öruggt gæti talizt. Og þar sem hún taldi, að meðan á bátagjaldeyrislista væru margvíslegar vörur, sem segja mætti að væru fremur nauðsynjavörur en bifreiðavarahlutar almennt, þá taldi hún sér ekki fært að mæla með því, að till. yrði samþ. í því formi, sem hún er lögð fram. Það varð því niðurstaðan í n. að leggja til, að till. yrði vísað til ríkisstj. og að hún tæki þá til athugunar, hvort auðið væri að finna einhverja slíka reglu sem ég gat um, sem gerði mögulegt að gera greinarmun á því, hvort bifreiðavarahlutar væru notaðir til atvinnurekstrar bifreiða eða hvort um væri að ræða bifreiðar, sem frekar mættu teljast lúxuseign. Ég hygg, að það sé harla erfitt að draga slíka markalinu og a. m. k. sé erfitt að gera það án sérfræðilegrar athugunar á því máli og þess vegna verði ekki önnur leið heppilegri út úr því heldur en sú að vísa málinu til ríkisstj. í trausti þess, að hún taki þetta þá til athugunar, ef auðið yrði að framkvæma einhvern aðgreining þarna í milli. Það er því till. allshn., að þessari till. á þskj. 171 verði vísað til ríkisstjórnarinnar.