29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

5. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Afgreiðsla þessa frv. í fjhn. hefur dregizt nokkuð. Ástæðan til þess dráttar er þó ekki sú, að neinn ágreiningur væri í n. um það, að nauðsyn bæri til að útvega stofnlánadeildum Búnaðarbankans, Byggingarsjóði og Ræktunarsjóði, nýtt fjármagn. Um það eru allir nm. sammála. En n. var í töluverðum vafa um það, hvernig það ákvæði 1. gr. frv., að sjóðirnir skyldu greiða vexti af láninu með sömu kjörum og það er fengið, gæti staðizt, þar sem alveg er vitað fyrir fram, að þegar um lántöku verður að ræða, þá verður það með verulega hærri vöxtum en sjóðirnir mega taka af lánum sínum samkv. lögum. Út af þessu atriði alveg sérstaklega óskaði n. umsagnar Búnaðarbanka Íslands, og er svar bankastjórans við bréfi n. birt sem fskj. með nál. á þskj. 317. Kemur það að sjálfsögðu fram í því svari, að bankastjórinn sér ekki heldur, hvernig þetta megi verða. Í niðurlagi bréfs bankastjórans er sagt, að nánari upplýsingar verði gefnar í skýrslu á sérstöku blaði. N. hefur nú ekki séð ástæðu til að láta prenta þá skýrslu, sem ég hef hér. Ég held einnig, að það yrði vafasamt gagn af því, þó að ég færi að lesa þessa skýrslu upp, en hún er um það, að gert er ráð fyrir, að Ræktunarsjóður taki 1 millj. kr. lán til 20 ára með 41/2% vöxtum og láni það aftur út til sama tíma með 21/2 % vöxtum, og er sundurliðað hvert ár fyrir sig hallinn af þessu, sem kemur fram 14 fyrstu árin, en snýst svo ofur lítið við eftir því sem greiðist inn af lánunum. Ég held að um þetta nægi að lesa niðurstöðutölurnar. Greiðslur Ræktunarsjóðs verða samtals 1.472.500 kr. og árgjöld til sjóðsins verða 1.282.940 kr., og halli á þessu láni er talinn munu nema 417.303 kr.

Það er nú auðsætt, að á sínum tíma muni þurfa að gera einhverjar ráðstafanir út af þessu, því að það mundi enda með því, að þessir sjóðir yrðu ekki til, ef það ætti að útvega þeim lán með miklu hærri vöxtum, en þeir taka og þeir ættu algerlega að standa undir því sjálfir. En n. tók þó enga ákvörðun um till. í þessu efni, og er auðvitað mál, að það getur hér komið fleira en eitt til.

Ég nefni það aðeins, án þess að ég sé að gera það að minni till., að meðan vextir eru jafnháir og þeir eru nú yfirleitt, þá væri ef til vill ekki endilega sjálfsagt, að sjóðirnir lánuðu út með jafnlágum vöxtum og nú er. Það er vitanlega töluvert vafasamt, að útlánsvextir, jafnvel í þessum stofnlánadeildum, eigi að vera mjög miklu lægri, en innlánsvextir sparisjóðsdeilda og sparisjóða. Ég slæ nú þessu aðeins fram, að það gæti verið um fleiri leiðir að ræða en aðeins þær, að framlög úr ríkissjóði þyrftu að koma til — og þá sízt að öllu leyti. En sem sagt, n. hefur ekki gert neinar till. um þetta og segir ekkert um það í sínu nál., hvernig með þetta skuli fara í framtíðinni, en leggur til, að frv. verði samþ. Það verður svo sennilega einhvern tíma til sérstakrar athugunar, hvernig með þetta atriði verður farið.