22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (2612)

47. mál, innflutningsleyfi fyrir fólksbifreiðum

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er nú sannarlega ekki vonum fyrr, að áhugi hefur virzt vakna fyrir því hjá stuðningsmönnum stjórnarflokkanna, að eitthvað sé gert til þess að rétta hlut atvinnubifreiðarstjóra í sambandi við innflutning á bifreiðum. Það er ekki ofsögum sagt af því misrétti, sem þeir hafa orðið fyrir í þessu efni, eins og sýna m. a. þau dæmi, sem hv. flm. þáltill. nefndi hér áðan um það, að á síðasta áratug hefur verið flutt inn á annað þúsund fólksbifreiða, en samt sem áður hafa atvinnubifreiðarstjórarnir, þ. e. þeir menn, sem stunda akstur bifreiða sem atvinnu, ekki fengið nema sárafáar bifreiðar til þess að geta endurnýjað atvinnutæki sín.

Nú vildi ég mega vona, að sá áhugi, sem nú virðist vera að vakna hjá stjórnarflokkunum í þessu efni, sé eitthvað meira en í tilefni af þeim alþingiskosningum, sem standa fyrir dyrum á næsta ári, og vildi þá líka mega vona, að í tilefni af framkomu þessarar till. verði nú gert eitthvað meira en aðeins að tala um þessi mál og síðan að láta framkvæmdirnar sitja á hakanum og kannske lítið úr þeim verða, a. m. k. þegar kosningunum væri lokið.

Ég hef þess vegna viljað taka undir um þennan áhuga og gera tilraun til þess að beina honum inn á eitthvað raunhæfari brautir, en mér virðist felast í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, og hef þess vegna leyft mér að flytja brtt., sem er á þskj. 80 og er þannig orðuð, með leyfi hæstv. forseta:

Tillgr. orðist þannig: Alþ. leggur fyrir ríkisstj. að sjá til þess, að fluttar verði inn árlega ekki færri en 50 fólksbifreiðar, 6–7 manna, og verði innflutningsleyfum fyrir þessum bifreiðum úthlutað eingöngu til atvinnubifreiðarstjóra eftir till. viðkomandi stéttarfélaga.“

Síðan, í 2. lið till., er gert ráð fyrir breytingu á fyrirsögn, sem leiðir af þeirri efnisbreytingu, sem með þessu yrði á till. sjálfri.

Ég álit sem sagt, að ef stjórnarflokkarnir og meiri hluti Alþ. þar með vill sýna einhvern raunverulegan áhuga fyrir leiðréttingu í þessu efni, þá beri að gera um það ákveðnari ályktanir en felast í till., sem aðeins gerir ráð fyrir því, að atvinnubílstjórar verði látnir sitja fyrir innflutningsleyfum fyrir fólksbifreiðum, þegar slík leyfi verði veitt.

Nú verð ég að segja það, að ég hef þá reynslu af þessu á undanförnum árum, að ég hef hvað eftir annað sótt um leyfi til þess að endurnýja mjög gamla bifreið, sem ég hef notað við minn atvinnurekstur í þessu efni, en hef ávallt fengið þau svör, hvort heldur hefur verið hjá fjárhagsráði eða hjá sjálfum viðskmrh., að ekki séu yfirleitt veitt nein leyfi fyrir fólksbifreiðum. Þetta hafa alltaf verið svörin, þrátt fyrir það þótt fólksbifreiðarnar hafi streymt inn í landið, og ég er dálítið hræddur um það, að ef ekki verður gerð öðruvísi samþykkt um þetta en felst í till. eins og hún er, þá muni geta farið nokkuð á líka leið, að þegar atvinnubílstjórarnir fara að biðja um leyfið, þá verði svörin þau sömu: Ja, það eru bara engin leyfi veitt fyrir fólksbifreiðum, og þess vegna getið þið ekki fengið bifreiðar.

Ég álít, að það sé þess vegna full ástæða til þess að orða þetta miklu ákveðnar, eða t. d. á þá leið, sem ég orða hér í minni brtt.

Nú hefur því allajafna verið svarað, þegar við atvinnubílstjórarnir höfum sótt um að fá leyfi fyrir bifreiðum, að leyfin væru ekki veitt, og því borið við, að það væri ekki til gjaldeyrir til þess að flytja inn bifreiðar fyrir, gjaldeyririnn væri ekki til og þess vegna væri ekki hægt að gera þetta fyrir okkur, hversu fegin sem innflutningsyfirvöldin vildu nú gera það.

Nú langar mig til að nota þetta tækifæri til þess að spyrja hæstv. viðskmrh.: Hvernig hefur þá verið til gjaldeyrir til þess að flytja inn alla þá fólksbíla, sem hv. framsögumaður nefndi áðan að fluttir hefðu verið inn á þessu tímabili, þegar atvinnubílstjórar hafa svo að segja engin leyfi fengið? Og hvernig hefur verið til gjaldeyrir til þess að flytja inn alla þá dýru lúxusbíla, sem fluttir hafa verið inn nú á s. l. sumri, fyrst ekki hefur verið til gjaldeyrir til þess að veita t. d. mér og öðrum atvinnubifreiðarstjórum leyfi til þess að endurnýja bíla, sem eru tvisvar til þrisvar sinnum eldri en þeir bílar, sem endurnýjaðir hafa verið með þessum innflutningi lúxusbílanna? Hvernig hefur sá gjaldeyrir verið til? Hvaðan hefur hann verið fenginn? Mér þætti mjög fróðlegt að fá hér upplýsingar í þessu efni, því að ef farið er eitthvað sérstaklega að rætast úr um gjaldeyri og af þeim ástæðum hafi verið hægt að flytja inn þessa Buicka, sem nú skreyta götur bæjarins, þá væri kannske einhver meiri von til þess, að framvegis yrðu veitt leyfi, svo að um munaði, handa atvinnubifreiðarstjórum. — Ég vildi sem sagt vænta þess að fá upplýsingar um þetta efni, og ég vildi enn fremur vænta þess, að Alþ. vildi þá taka svo alvarlega á þessu máli, sýna það mikinn áhuga fyrir leiðréttingu í þessu efni til handa atvinnubifreiðarstjórunum, að það féllist fúslega á að samþykkja þá brtt., sem ég flyt hér, til þess að samþykkt þáltill. í heild sinni yrði að einhverju gagni.