05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (2629)

56. mál, endurskoða orlofslögin

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég get nú verið stuttorður eins og þeir tveir síðustu ræðumenn, sem hér hafa talað, enda kom fátt og lítið fram í ræðum þeirra, sem ekki var áður þar upp lesið hér úr stólnum. En þó vildi ég út af því, sem ég sagði um tilvitnun mína í ræðu Brynjólfs Bjarnasonar, skora enn á ný á hv. 1. landsk. þm. að koma nú með Alþt. og lesa upp úr þeim sjálfur og sýna fram á, að eitthvað væri slitið úr samhengi og eitthvað væri farið rangt með. Hann hefur haft æði langan umhugsunartíma með þetta núna. Hann getur fengið að koma þessu að í öðru máli, en ef hann gerir það ekki, af því að hann getur ekki gert það, þá standa ómerk þessi — ja, það er kannske óþinglegt að segja það — ómagaorð, en forseti hringir ekki á mig, svo að ég læt það fjúka.

Ég sagði það í frumræðu minni, að ég sæi ástæðu til þess að gera nokkra grein fyrir baráttunni fyrir orlofslöggjöfinni, og það gerði ég í fyrstu framsöguræðu minni, og þá komst ég ekki undan því að vitna í ræðu Brynjólfs Bjarnasonar, því að það var einn merkilegur vottur þess hér á. Alþ., hvernig þessu máli var tekið. Sérstaklega sá ég ástæðu til þess að vitna í orð þessa mikla forustumanns út af samningum Dagsbrúnar um orlofsréttinn, þar sem hann taldi það vera nauðsynlegt að tvíendurtaka það, hve nauðaómerkilegir væru þeir samningar, sem Dagsbrún hefði þá náð.

Ég er hv. 6. þm. Reykv. (SG) hvergi nærri sammála um það, að hagsmunamál alþýðunnar yfirleitt verði fyrst og fremst og bezt leidd til lykta á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar. Ég mun sízt af öllu gera lítið úr baráttu hennar fyrir hagsmunamálum sinnar eigin stéttar, en ég held þó, að æði miklu skemmra hefði verið komið áleiðis áhugamálum þeirrar hreyfingar og verkalýðsins í landinu yfirleitt, ef ekki væri til sú löggjöf í landinu, sem barizt hefur verið fyrir og fengin hefur verið fram hér á Alþ. Ég býst við, að seint hefði gengið að koma á með samningum við atvinnurekendur þeim tryggingum, sem nú gilda hér í landi, löggjöfinni um verkamannabústaði og annað slíkt, svo að það sé síður en svo, að það sé lítil ástæða til þess að berjast fyrir hagsmunamálum þessarar stéttar á Alþ., enda mun hv. 6. þm. Reykv. vera til þess kosinn að berjast fyrir hagsmunamálum verkalýðssamtakanna hér á Alþ., og ég efast ekki um, að hann muni gera það af góðum vilja og með allri þeirri getu, sem hann hefur yfir að ráða.