19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í D-deild Alþingistíðinda. (2649)

75. mál, bann við ferðum erlendra hermanna utan samningssvæða

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þann 1. þ. m. sögðu blöð frá því, að þá fyrir nokkru hefðu tvær nauðgunartilraunir verið gerðar, önnur á Keflavíkurflugvelli, hin í Keflavíkurkaupstað. Í þessu sambandi opinberaðist ýmislegt það, sem til nýjunga má teljast.

Er þar fyrst að nefna, að nauðgun, eða tilraun til nauðgunar, er ekki daglegur viðburður á Íslandi. Það eru liðin meira en fjögur ár, síðan hér var seinast dæmt fyrir nauðgun, eftir því sem mér hefur verið tjáð af skrifstofu sakadómarms í Reykjavík. Nú eru gerðar tvær tilraunir til nauðgunar í einni og sömu viku.

Annað, sem til nýjunga má teljast í þessu sambandi, er sú staðreynd, að viðkomandi lögregluyfirvöld gáfu blöðum ekki skýrslu um fyrri nauðgunartilraunina, fyrr en viku eftir að hún var framin. Jafnaðarlega er þó blöðum tilkynnt um afbrot, hvort sem eru af þessu tagi eða t. d. þjófnaðir eða ofbeldisárásir annarrar tegundar, mjög stuttu og yfirleitt í hæsta lagi sólarhring eftir að þau eru framin. En nú dróst þetta sem sé í heila viku. Tilkynning lögreglunnar um atburðinn var sjö daga á leiðinni frá Keflavíkurflugvelli á skrifstofu dagblaðanna í Reykjavík. Er þetta undarlega seinlæti helzt sambærilegt við afgreiðslu þýðingarmestu opinberra tilkynninga, sem þurfa að ganga á milli margra háttsettra embættismanna og ráðuneyta til samþykktar, áður en talíð er óhætt að birta þær. Og þó virðist jafnvel ekki víst, að blöðunum hefði nokkurn tíma verið skýrt frá málinu, ef eitt þeirra hefði ekki verið búið að tilkynna viðkomandi lögregluyfirvöldum, að það hefði fengið nákvæmar upplýsingar um það frá öðrum aðilum og mundi birta þær, ef ekki kæmi opinber skýrsla.

Það þriðja, sem til nýjunga má teljast í þessu sambandi, er sú staðreynd, að útbreiddasta og stærsta blað landsins, sem venjulega gerir mikið úr afbrotum á fréttasíðum sínum, krefst ströngustu refsingar yfir frakkaþjófum og unglingum, sem slást upp á fólk, og er oft með ábyrgðarþungar hugleiðingar um nauðsyn þess, að nöfn slíkra afbrotamanna séu birt skýrum stöfum öðrum til viðvörunar, — þetta blað virtist allt í einu hafa misst áhugann á að berjast gegn afbrotum á þennan hátt. Það sagði frá fyrri nauðgunartilrauninni í stuttri tveggja dálka grein, þar sem lítið bar á henni á innsíðu. Frá seinni tilrauninni sagði það í örstuttri eins dálks klausu á öftustu síðu. Í fréttinni af fyrri tilrauninni lagði blaðið auk þess sérstaka áherzlu á það í fyrirsögn, að kvenmaður sá, sem fyrir árásinni varð, hafi verið drukkinn, og gæti maður haldið, að það hafi með þessu viljað gefa í skyn, að þetta væri í rauninni ekkert mjög óeðlilegur atburður, miðað við kringumstæður. Ekki komst blaðið þó hjá að segja frá því, sem kom fram í tilkynningu lögreglunnar, að eftir árásina var stúlkan með „glóðarauga og allmikið bólgin í kringum munninn og á vinstri kinn“, þegar að henni var komið um morguninn, þar sem hún hafði legið í rúminu bjargarlaus heila nótt.

Og enn má nefna atriði sem til nýjungar hlýtur að teljast í sambandi við þetta mál. Í tilkynningu lögreglunnar um fyrri nauðgunartilraunina segir, að fjórir menn hafi heyrt neyðaróp stúlkunnar, en enginn þeirra hreyft legg né lið til að hjálpa henni. Einn þeirra, íslenzkur maður, var meira að segja staddur í bragganum, þar sem atburðurinn gerðist. Það hefur nú sem sé átt sér stað á Íslandi, að karlmenn láta það afskiptalaust, að kvenmanni sé misþyrmt á hinn viðurstyggilegasta hátt svo að segja fyrir augunum á þeim. Karlmennska þeirra er ekki meiri en svo, að þeir leggjast aftur út af og sofna, þegar neyðaróp stúlkunnar hafa vakið þá. Af mörgum nýjungum, sem opinberazt hafa í sambandi við málið, er þessi held ég einna athyglisverðust.

En hvað kemur til, að nú ber svo margt nýrra við? Þessari spurningu er fljótsvarað. Ástæðan til þess er einfaldlega sú, að erlendur her hefur setzt upp í landinu. Það voru bandarískir hermenn, sem frömdu báðar umræddar nauðgunartilraunir, og það liggur beinast við að álykta, að einmitt af þeirri ástæðu hafi orðið hinn undarlegi dráttur á, að viðkomandi yfirvöld flyttu blöðunum skýrslu í málinu. Hvað snertir afstöðu íslenzkra stjórnarvalda til hinna svo nefndu verndara virðist nefnilega gilda sú regla, að í lengstu lög skuli reynt að komast hjá að láta verða uppvíst um það, sem miður fer í framkomu þeirra, hversu mikil afbrot sem þar kann að vera um að ræða, því að slíkt muni vekja hjá almenningi grunsemdir um, að verndin sé nokkuð dýru verði keypt og sé jafnvel ekki nein vernd, heldur þvert á móti eyðilegging á öllu því, sem sagt hefur verið að hún ætti að tryggja: sjálfstæði, frelsi og menningu þjóðarinnar. Öll gagnrýni á framferði hernámsliðsins sé sem sagt stuðningur við þá, sem hafa barizt gegn því, að það hefðist við í landinu, eða eins og vitrir stjórnmálamenn og vel gefnir blaðamenn kalla það: vatn á mylnu kommúnista. Kjarninn í þessum siðaboðskap er í rauninni sá, að þjóðin skuli öryggisins vegna koma fram við hið erlenda herlið af auðmýkt og undirgefni, og er þess þá ef til vill ekki langt að bíða, að það verði álitið bera vott um þjóðhollustu að láta svo nefnda verndara sína sparka í sig, berja sig, jafnvel skyrpa á sig möglunarlaust.

Já, það voru bandarískir hermenn, sem nauðgunartilraunirnar gerðu, og enn af þeirri ástæðu var svo lítið gert úr málinu sem raun bar vitni í stærsta blaði landsins. Maður getur verið ábyrgðarfullur og harður í horn að taka, þegar við er að eiga umkomulausa unglinga, sem stela frökkum úr forstofum betri borgara, en það verður að sýna fyllstu varkárni, fyllstu aðgæzlu í ályktunum, þegar fulltrúar mesta herveldis heims, verndarar vorir, vilja nauðga konum. Kurteisi kostar ekki peninga, stendur þar.

Og enn af þessari sömu ástæðu hefur það nú gerzt, að íslenzkur karlmaður getur legið hinn rólegasti í rúmi sínu, þó að hann viti, að í næsta herbergi er verið að berja unga konu til óbóta. Þarna brenna í einum punkti afleiðingar þess hugsunarháttar, sem virðist ráðandi í afstöðu íslenzkra stjórnarvalda til hins erlenda herliðs. Íslendingurinn, sem lá hinn rólegasti í rúmi sínu, meðan bandaríski hermaðurinn reyndi að nauðga íslenzkri stúlku í næsta herbergi, er persónugervingur þeirrar vesalmennsku, sem reynt er að leiða íslenzku þjóðina í.

Íslendingum ríður nú ekki á neinu meira en því að stöðva þetta undanhald og snúa því upp í sókn, og það er ekki hvað sízt af þeirri ástæðu, sem flutt er till. sú, sem hér liggur fyrir á þskj. 83. Þau mál, sem þessi till. snertir. hafa mikið verið rædd að undanförnu, bæði hér í hv. Alþ. og utan þings. Fyrir fjórum vikum var hér til umr. till., sem tveir hv. þm., 8. þm. Reykv. og þm. N-Þ., flytja um takmarkanir á ferðum hermanna. Í ræðu, sem hv. 1. landsk. varaþm. flutti þá, sýndi hann fram á galla þá, sem eru á þeirri till., og komst réttilega að þeirri niðurstöðu, að hún væri mjög gagnslítil og ekki líkleg til að bæta raunverulega úr því ófremdarástandi, sem hér er um að ræða. Tel ég óþarft að tefja störf þingsins með því, að nú sé aftur farið nákvæmlega út í þetta atriði.

Hv. 3. landsk. þm. tók einnig til máls í umr. fyrir fjórum vikum, og hneig ræða hans einnig í þá átt, að ákvæði umræddrar till. væru ekki nógu ströng, og hefur hann látið á sér skilja, að hann mundi fylgjandi því, að hernámsliðið yrði algerlega einangrað og dvöl þess, í frítímum a. m. k., skilyrðislaust bundin við þá staði, sem það hefur sérstaklega fengið til umráða með gerðum samningi við íslenzk stjórnarvöld. Ekki lýsti hann þó að svo stöddu yfir stuðningi sínum við till. þá frá mér og hv. 1. landsk. varaþm., sem hér er nú til umr. En ætla má, að í henni fellst einmitt það, sem hann vill að gert sé í málinu. Og það þori ég að fullyrða, að í þessari till. okkar felst það, sem almenningur vill að gert sé í málinu. Krafan um algera einangrun herliðsins verður æ háværari, enda væri þá Íslendingum illa brugðið, ef þeim leyndist það enn, eftir allt sem á undan er gengið, hvílíkur voði hernámið er orðið fyrir siðferði æskunnar og menningu þjóðarinnar. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að blaðið „Frjáls þjóð“ hefur snúið sér til þjónandi presta í Reykjavík og nýkjörnu prestanna þar og óskað álits þeirra á kröfunni um, að herstöðvunum verði lokað og herinn algerlega einangraður. Svör frá þremur prestanna, séra Árelíusi Níelssyni, séra Emil Björnssyni og séra Þorsteini Björnssyni, hafa þegar verið birt. Svar séra Árelíusar er m. a. á þessa leið :

„Ég tel sjálfsagt, að herstöðvunum sé lokað og herinn algerlega einangraður. Sé það ekki gert, er siðferði æskulýðsins og þjóðerni Íslendinga teflt í algera hættu.“

Í svari sínu minnir séra Emil Björnsson á, að prestastefna 1951 samþykkti „með tilliti til dvalar erlends herliðs í landinu og þeirra alvarlegu tíma, sem fram undan eru“, eins og það var orðað, áskorun um að „efla hverja þá viðleitni, er stuðla mætti að heilbrigðu félagslífi og kristilegu siðgæði“, og síðan segir séra Emil :

„Ég tel einangrun herliðsins í herstöðvunum stuðla að þessu hvoru tveggja og óumflýjanlegt að hverfa að því ráði, eins og komið er.“ — Og enn fremur: „Mín skoðun er sú, að einangrun herstöðvanna sé það spor, sem næst beri að stíga, allt annað sé gagnslaust.“

Séra Þorsteinn Björnsson tekur í sama streng, að lokun herstöðvanna sé æskileg ráðstöfun. Þetta er sem sé álit þriggja kennimanna höfuðborgarinnar. Svör hinna við spurningum blaðsins hafa enn ekki verið birt, en þeir hafa þegar flestir, ef ekki allir, lýst yfir þeirri afstöðu sinni til þessa máls, í ræðum eða á annan hátt, að ganga má út frá því sem vísu, að þeir muni svara mjög á líka leið eins og þeir séra Árelíus, Emil og Þorsteinn.

Já, mál þessi hafa verið mikið rædd að undanförnu og margir orðið til að lýsa þeirri spillingu, sem viðgengizt hefur hér í Reykjavík og nágrenni af völdum hernámsins. Og þar á meðal dró hv. 8. þm. Reykv., Rannveig Þorsteinsdóttir, upp mynd af ástandinu í ræðu sinni hér fyrir fjórum vikum. Einnig eru málinu gerð allnáin skil í grg. fyrir till. okkar hv. 1. landsk. varaþm., sem hér er nú til umr. Má þannig ætla, að hv. alþingismenn hafi þegar gert sér fullljósa grein fyrir alvöru málsins, og tel ég því ástæðulaust að tefja tíma þingsins með því að rekja hina ljótu spillingarsögu hernámsins að þessu sinni. En ég vil endurtaka það og leggja sérstaka áherzlu á, að almenningur mun ætlast til, að farin sé einmitt sú leið, sem í þessari till. felst: „Alþ. ályktar, að á meðan erlendur her dvelst í landinu, skuli hermönnum óheimil öll ferðalög og vist í frítíma sínum utan yfirlýstra samningssvæða,“ Með þessu er tekið undir kröfu almennings um einangrun herstöðvanna. „Yfirlýst samningssvæði“ mundi þarna verða Keflavíkurflugvöllur og að öllum líkindum líka bækistöðvar hersins í Hvalfirði. Því miður verður þarna að miða eingöngu við frítíma hermannanna, enda gæti Alþ. ógjarnan bannað þeim allar ferðir út fyrir herbúðirnar til skyldustarfa, meðan enn er í gildi sá samningur, sem það hefur illu heilli gert um dvöl þeirra í landinu. Till. felur í sér skýlausa viljayfirlýsingu Alþ., enda hlýtur almenningur að líta svo á, að Alþ. sé eini rétti aðilinn til að taka af skarið í þessum efnum, eða hver ætti annars að gera það, þegar um er að ræða svo örlagaríkt mál fyrir framtíð Íslendinga í landi sínu?

Ég sagði áðan, að Íslendingum riði nú ekki á neinu meira, en því að stöðva undanhald það, sem stefnir að algerri auðmýkt og vesalmennsku, og snúa því upp í sókn. Og það er með tilliti til þeirrar staðreyndar, sem till. er valið þetta orðalag. Alþ. getur ekki viðurkennt neitt sjónarmið annað en það, að á þess valdi sé og einskis annars aðila að setja reglurnar í þessum efnum. Þetta er Alþingi Íslendinga og það eru Íslendingar, sem eiga þetta land. Alþ. á ekki að spyrja útlendinga, hvað þeim þóknist að gera í þessu landi. Alþ. á að segja útlendingum, hvað því sé þóknanlegt og hvað ekki þóknanlegt að þeir geri í þessu landi. Alþ. á að hafa forustu um að halda uppi sóma Íslendinga gagnvart útlendingum og efla virðingu þeirra fyrir sjálfum sér. Alþ. á að sýna í verki þann skilning, að gæfa smáþjóðar er ekki fyrst og fremst undir því komin, að stórar þjóðir kalli sig vini hennar, að fámennið er ekki mesta hættan fyrir smáþjóð, heldur hitt, að hún eigi of margt smámenna.