11.11.1952
Neðri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

49. mál, laun forseta Íslands

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði hæstv. forsrh. nokkra grein fyrir efni frv. og ástæðunum fyrir því, að gefin voru út þau brbl., sem hér liggja fyrir til staðfestingar.

Fjhn. hefur fyrir sitt leyti einróma mælt með því, að frv. þetta verði samþ. En efni þess er, eins og sjá má á grg. og hinum fáorðu tveim gr. frv., að ákvarða laun forseta Íslands á annan veg, en áður var gert, því að þegar sett voru lög 1944 um laun forseta Íslands, þá gilti sú almenna regla um launauppbætur til opinberra starfsmanna, að þær skyldu aðeins greiddar á ákveðinn hluta af laununum, sem nam þá aðeins fimmtungi launa forsetans, eða af tæpum 10 þús. kr. Þegar svo dýrtið óx jafnmjög eins og öllum er kunnugt um, var alveg sýnilegt, að það var skapað misræmi í þessum launakjörum forsetans, miðað við það, sem var ákvarðað um aðra þá ríkisstarfsmenn, sem launalögin náðu til. Og eftir að gengislækkunarlögin höfðu verið sett, þegar ákvörðuð voru eiginlega nánast ný grunnlaun og ákveðið að veita uppbætur á þau eftir þeim reglum, sem þar voru settar í öndverðu og framlengdar hafa nú verið á tveim þingum, þá var orðið augsýnilegt, að það mátti ekki lengur við svo búið standa með launakjör forseta Íslands. Þess vegna gaf hæstv. ríkisstj. út nú í vor, 20. marz, æði löngu fyrir forsetakosningarnar, þau brbl., sem hér liggja fyrir, því að það eru ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, að það megi ekki breyta launum forseta á kjörtímabilinu til lækkunar. En brbl. ákváðu ákveðin grunnlaun, 85 þús. kr., og var það miðað við það á vissan hátt, að eins og grunnlaun opinberra starfsmanna höfðu breytzt af sjálfu sér með ákvæðum gengislaganna, þá þyrfti að festa einhver ákveðin grunnlaun einnig fyrir forseta Íslands.