15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (2757)

216. mál, samskipti Íslendinga og varnarliðsins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Um þessar fyrirspurnir hef ég því til að svara varðandi fyrstu fsp., að hinn 30. sept. setti Brownfield hershöfðingi nýjar reglur um heimild varnarliðsmanna til dvalar utan stöðva sinna, eftir að viðræður höfðu átt sér stað milli íslenzkra stjórnarvalda og fyrirsvarsmanna varnarliðsins um þessi mál. Voru reglur þessar birtar almenningi í fréttatilkynningu ríkisstj. frá 8. okt. s. l., er lesin var í útvarpi og birt í blöðum 8. og 9. okt. s. l. Er aðalefni þeirra þetta:

1) Óbreyttum liðsmönnum ber að hverfa úr Rvík og nágrannabæjum kl. 22 öll kvöld nema miðvikudaga, en þá hverfa þeir heim á miðnætti.

2) Óbreyttir liðsmenn fá ekki næturorlof, nema alveg sérstaklega standi á að dómi þar um bærs foringja.

3) Takmarkaður er fjöldi þeirra liðsmanna, sem fara mega frá bækistöðvunum á sama tíma.

4) Öllum foringjum ber að gefa skriflega fjarvistartilkynningu og geta þess, hvar hægt sé að ná til þeirra allan þann tíma, er þeir eru fjarvistum, og reglur hafa verið settar um dvöl þeirra á skemmtistöðum.

Mér er ókunnugt um töluhlutfallið á milli foringja og óbreyttra liðsmanna, en það er vitað, að það er ekki nema lítill hluti liðsins, sem er foringjar, og fer um það eftir venjulegum reglum í þeirri starfsgrein, sem hér er um að ræða.

Um aðra spurninguna vil ég segja þetta: Síðan varnarliðið kom til landsins, hefur eftirfarandi reglum verið fylgt um aðgang Íslendinga að Keflavíkurflugvelli:

1) Öllum Íslendingum, sem starfa á flugvellinum, er heimill aðgangur að honum, að svo miklu leyti sem störf þeirra útheimta.

Um síðustu mánaðamót unnu á flugvellinum um 1.300 Íslendingar, karlar og konur. Sumt af þessu fólki býr á flugvellinum, ýmist eitt eða með fjölskyldu sína. Að sjálfsögðu hafa Íslendingar búsettir á vellinum frjálsan aðgang vegna heimila sinna.

2) Flugfarþegar, sem fara þurfa um völlinn, og fylgdarlið þeirra hafa frjálsan aðgang að flugstöðinni.

3) Gestum þeirra Íslendinga, sem á vellinum búa, er frjáls för til þeirra heimila, sem þeir ætla að heimsækja.

4) Varnarliðsmönnum, er óska að taka á móti Íslendingum í heimsókn, er það heimilt, en hér er þó höfð á sérstök gát. Þurfa varnarliðsmenn sérstakt leyfi íslenzku lögreglunnar til að taka á móti Íslendingum í heimsókn. Slík leyfi eru ekki veitt, þegar um er að ræða unglingsstúlkur, enda eru engin brögð að því, að eftir slíku sé leitað. Gestir varnarliðsmanna verða að vera farnir burt af vellinum klukkan 11 að kvöldi alla daga vikunnar nema laugardaga kl. 12½. Er fylgzt rækilega með því, að þessu sé fylgt, og fólk, sem ekki gerir það, er útilokað frá heimsóknum á völlinn. Mjög lítið kveður nú að heimsóknum íslenzkra kvenna á flugvöllinn. Þegar dansleikir eru um helgar, ber mest á heimsóknum þeirra, en þó er fjöldi þeirra stúlkna, er þá koma, innan við 10. Aðra daga vikunnar eru heimsóknir kvenna hverfandi og oftast engar. Heimsóknum kvenna á völlinn hefur fækkað mjög vegna þess, að strangt eftirlit er haft með komum þeirra, og íslenzka lögreglan hefur algerlega útilokað þær stúlkur frá að koma á völlinn, sem ekki fóru eftir settum reglum eða hegðuðu sér ósæmilega. Tala þeirra kvenna, sem bannaður er aðgangur að vellinum. er um 100.

5) Þeim öðrum, sem lögmætt erindi eiga á flugvöllinn, er leyft að fara þar inn. Er leitazt við að gæta þess, að menn geri sér ekki upp erindi, án þess þó að amazt sé um of við, að menn fari inn á völlinn.

Varðandi 3. lið fsp. vil ég taka þetta fram, að samkv. íslenzkum lögum hefur ríkisstj. ekki umfram það, sem ákveðið kann að vera með sérstökum samningum, heimild til að setja reglur um það, hve lengi menn, er hér dvelja löglega, megi vera á ferli að næturlagi eða hvenær þeir skuli vera komnir heim til sín. MeGaw, fyrrv. hershöfðingi hér, setti á sínum tíma reglur þær, sem í fyrstu giltu um dvöl hermanna utan herbúða sinna, og voru reglur þessar settar af hershöfðingjanum sjálfum án nokkurra viðræðna eða samkomulags við íslenzk stjórnvöld, og breyttu fyrirsvarsmenn varnarliðsins þeim síðan án samráðs við íslenzk stjórnvöld, en eftir það hefur, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, verið stöðugt samráð á milli réttra aðila um þessi efni.

Það er rétt að geta þess til skýringar á því, sem hann sagði, að þetta mál varð síður að kallandi eða minna vandræðamál strax og kom fram á veturinn í fyrra, vegna þess að reynslan var sú, að með vaxandi erfiðleikum á ferðum á milli Keflavíkur og Reykjavíkur dró mjög verulega úr þessum heimsóknum. Þess vegna var þessu máli ekki fylgt eftir á s. l. vetri eins og ella hefði verið gert. Í sumar, þegar það tvennt kom til, að ferðir urðu miklu greiðari og þar að auki var nýtt lið komið á völlinn, — og reynslan er sú, að nýir menn hafa meiri löngun til að koma hingað en þeir, sem hafa dvalizt nokkurt skeið í landinu, — þá var málið tekið upp að nýju með þeim árangri, sem felst í þeim nýju reglum, sem settar hafa verið.

Varðandi 4. liðinn vil ég taka það fram, að um það má vísa til hinna nýju reglna frá 30. sept. 1952, er nú gilda um þessi mál og voru samþykktar af nefnd þeirri, sem fjallað hefur um vandamál varðandi samskipti Íslendinga og varnarliðsmanna. Hafði n. að vísu gert róttækar tillögur, en samþykkti þó þessar reglur, þar sem hún taldi þær til stórra bóta frá því, sem verið hefur.