29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (2764)

91. mál, réttarrannsókn á starfsemi S.Í.F.

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Síðla árs 1948 og snemma á árinu 1949 bárust Landssambandi ísl. útvegsmanna tvær skýrslur frá umboðsmanni sínum og trúnaðarmanni í Lundúnum, Geir H. Zoëga. Skýrslur þessa trúnaðarmanns útvegsmanna höfðu að geyma mjög athyglisverðar frásagnir um sölu á saltfiski, en í sambandi við hana hafði Geir H. Zoëga rekizt á svo furðuleg fyrirbæri, að hann hafði sjálfur hafið sérstaka rannsókn á málinu. Niðurstöðurnar rakti hann í skýrslum sínum, og í stuttu máli eru þær á þessa leið:

1) Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur sem kunnugt er haft einokun á útflutningi saltfisks. Umboðsmaður sambandsins á Ítalíu, hr. Hálfdán Bjarnason, sér einn um sölu á öllum íslenzkum saltfiski, sem þangað er seldur, og fær fyrir þau störf verulegar upphæðir í beinu kaupi, umboðslaunum og fríðindum, þannig að fáir embættismenn munu fá hærri laun.

2) Þessi sami Hálfdán Bjarnason er og hefur lengi verið meðeigandi í firmanu Domenico-Marabotti, og kaupir hann íslenzkan fisk af sjálfum sér og þiggur þar með nýjan ágóða af fiskinum. Sem kaupandi að íslenzkum saltfiski er það auðvitað hagur hans að fá hann fyrir sem hagstæðast verð.

3) Auk þessa er Hálfdán Bjarnason meðeigandi í fiskhringnum S. A. L. A., sem annast smásölu á saltfiski, og þiggur þaðan nýjan ágóða.

4) Frá því í marz 1948 þar til Geir H. Zoëga samdi síðari skýrslu sína snemma árs 1949 hafði firma það, sem Hálfdán Bjarnason var aðili að, algera einokun á því að kaupa íslenzkan saltfisk, sem til Ítalíu fluttist. Aðrir ítalskir saltfiskkaupmenn, þ. á m. ýmis stærstu fyrirtæki Ítalíu á þessu sviði og sum þau, sem mest viðskipti höfðu haft við Ísland áður, fengu neitun við öllum óskum sínum um kaup á íslenzkum saltfiski, og skipti þá engu, þótt þeir byðu hærra verð.

5) Á sama tíma og umboðsmaður S. Í. F. takmarkaði þannig sölu á íslenzkum saltfiski til Ítalíu, þótt við hefðum alla möguleika til að framleiða mun meira magn fyrir ítalskan markað, keypti firma það, sem hann var aðili að, verulegt magn af saltfiski frá öðrum löndum, t. d. Færeyjum, og seldi hann í Ítalíu í samkeppni við íslenzka saltfiskinn.

6) Svipaða sögu hafði Geir H. Zoëga, trúnaðarmaður ísl. útvegsmanna, að segja um fisksöluna í Grikklandi. Þar hafði lítt kunnur smákaupmaður, Pipinelis að nafni, fengið einokunaraðstöðu, og var næsta óljóst, hvernig S. Í. F. hafði komizt í samband við slíkan mann, fyrr en í ljós kom, að fulltrúi Grikkja á þingi Sameinuðu þjóðanna hét einmitt sama nafni. Þessi gríski kaupmaður, sem jafnframt saltfisksölunni var gerður að íslenzkum ræðismanni, fékk orð á sig fyrir að selja íslenzkan saltfisk á mun lægra verði en fáanlegt var, og var m. a. þannig komizt að orði í skýrslunni að þessar lágu sölur einar saman hefðu haft af íslenzkum framleiðendum um 20 þús. £ á ári, eða nærfellt 1 millj. kr. samkv. núverandi gengi. Voru þessar lágu sölur næsta dularfullar, nema Pipinelis þessi hafi að nokkru leyti verið að selja sjálfum sér líkt og Hálfdán Bjarnason.

Þannig voru í stærstu dráttum skýrslur Geirs H. Zoëga, en þær voru mjög ýtarlegar, samtals 46 þétt vélritaðar fólíósíður, og höfðu að geyma mörg sönnunargögn, bréf, ljósmyndir og önnur skilríki. En engin tök eru á að rekja það mál nánar hér á þeim örstutta tíma, sem ég hef til umráða, enda vænti ég þess, að hæstv. ráðh. fylli út í eyðurnar í sínum ræðutíma.

Eins og áður er sagt, höfðu skýrslur Geirs H. Zoëga borizt hingað til lands fyrri hluta árs 1949. Nokkrum mánuðum síðar urðu skýrslur þessar opinberar, efni þeirra var rakið í útvarpsumræðum og ýtarleg frásögn um þær birt í blöðum. Spunnust síðan háværar umræður um málið, enda voru kosningar fram undan, og tók flokksmálgagn hæstv. dómsmrh. þá afstöðu að lýsa skýrslurnar þvaður eitt og uppspuna. Jafnframt kvað þetta málgagn hæstv. ráðh. ekki koma til mála, að nokkur réttarrannsókn væri framkvæmd, enda hafði ráðh. haft skýrslurnar undir höndum mánuðum saman án þess að fyrirskipa slíka rannsókn. Kröfur blaða og almennings um rannsókn urðu þó stöðugt háværari og bornar fram af meiri þunga. Og þar kom, að ekki varð lengur staðizt gegn þeim, og réttarrannsókn var loks fyrirskipuð snemma árs 1950.

Rannsókn þessi var ekki falin hinum almennu dómstólum landsins, heldur fékk lögfræðingur, hr. Guttormur Erlendsson, málið til meðferðar. Var lengi vel fylgzt með gangi málsins af áhuga af almenningi og þrásinnis spurt, hvernig rannsókninni miðaði, en svörin urðu ævinlega þau, að hún stæði enn yfir. Þótti mönnum að lokum sýnt, að þarna yrði um eilífðarrannsókn að ræða, og færðist að lokum þögn og hula yfir þetta stóra mál. Þannig stóðu sakir enn, þegar ég lagði fyrirspurn mína fram fyrir tveim vikum. Ég hafði þá spurt þá menn, sem ég vissi kunnugasta og áhugasamasta um þetta mál í stjórnarflokkunum, um gang þess, og vissu þeir ekki annað en að það væri enn í rannsókn þeirri, sem hafin var fyrir nærri 3 árum. Hins vegar hefur komið í ljós, eftir að ég bar fram fyrirspurnirnar, að málið var lengra á veg komið en ætlað var. Guttormur Erlendsson lögfræðingur hefur sem sagt lokið rannsókn sinni, og að henni lokinni fól hæstv. ráðh. honum enn að taka málið til meðferðar og að þessu sinni að kveða upp í því dóm. Taldi dómarinn sína eigin rannsókn sanna, að engin þeirra atriða, sem rakin voru í upphafi, vörðuðu við lög, og samkv. því sýknaði hann forráðamenn S. Í. F. af allri sök, og nú mun málið vera á leið til hæstaréttar.

Þar sem þessi atriði hafa nú komið í ljós, þarf ég ekki að ónáða hæstv. ráðh. við að endurtaka þau. Engu að síður væri mér mikil þökk á, að hann skýrði frá niðurstöðum rannsóknarinnar í sambandi við hvert það atriði, sem drepið var á í upphafi þessa máls. Einnig væri fróðlegt að fá um það vitneskju, hvernig réttarrannsóknin var framkvæmd, hvort t. d. var lagt hald á bækur S. Í. F., á svipaðan hátt og gert var í máli Olíufélagsins h/f, en rannsókn þess átti sér mjög hliðstæðan aðdraganda; enn fremur hvort framkvæmd var sjálfstæð rannsókn í Ítalíu og Grikklandi og hvort yfirvöld þar í löndum voru beðin um aðstoð til að skýra málið til fulls. Og að lokum er þess að vænta, að hæstv. ráðh. skýri sérstaklega frá því, hver þau atriði voru í niðurstöðum rannsóknarinnar, sem hann taldi þannig vaxin, að sjálfsagt væri, að dómstólarnir skæru úr um þau.