29.10.1952
Sameinað þing: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (2769)

91. mál, réttarrannsókn á starfsemi S.Í.F.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði um það, hvernig dómarar ættu að hegða sér. Ég get tekið undir hvert einasta orð af því, og ég tek undir það, að það á ekki að þola, að menn séu ójafnir fyrir lögunum. Ef það sannast, að það sé gert af hálfu dómsmálastjórnarinnar, ef dómsmrh., hver sem hann er, beitir valdi sínu þannig, verður að draga hann til ábyrgðar fyrir það. Ég álít hins vegar, að ásakanir hv. þm. á mig í því sambandi séu með öllu rakalausar.

Við ræddum í fyrra annan þátt þessara mála, sem hv. þm. talaði um, og skal ég ekki fara að rekja það nú í sambandi við allt annað mál, þó að ekki muni standa á mér til umr. um það, hvorki hér né annars staðar. En til merkis um það, að hv. þm., — svo glöggur sem hann annars er, þar sem hlutleysi hans kemst að og þar sem gistivinátta ræður ekki meira en óhlutdrægni, — til merkis um það, að honum skýzt í þessu, er, að hann talar um það sem einhverja nýjung, að settir væru sérstakir setudómarar til þess að fara með tiltekin mál, og að líklegt væri, að sérstakar deilur spryttu út af störfum slíkra manna, þá vil ég aðeins minna á það, að í morgun voru mjög fallegar greinar um einn mætan samborgara okkar, sem einu sinni var kallaður „rannsóknardómarinn mikli“ og kenndur við Hnífsdalsmálin, Halldór Júlíusson. Sú var tíðin, þegar flokkur hv. þm. var hér mestu ráðandi, að þá var ekki skirrzt við, hvorki í þeim málum né öðrum, að setja sérstaka rannsóknardómara, ef ástæða þótti til, og þótti þá ekki síður vafi leika á, hvort rétt væri að farið, heldur en nú.

Um það, að mál séu endilega betur komin hjá hinum föstu dómurum, þá er ég því sammála almennt, að það er óheppilegt að taka mál af hinum föstu dómurum og fá öðrum í hendur, ef ekki er ríkt tilefni til eða þeir svo störfum hlaðnir, að þeir geti ekki annað þeim viðbótarstörfum, sem á þá hlaðast. En til merkis um, að ekki muni þetta vera einhlítt, má drepa á það, að í því máli, sem hv. þm. gerði hér að umræðuefni, máli Helga Benediktssonar, þá hygg ég, að svo reiður sem Helgi Benediktsson er nú við Gunnar Pálsson, dómarann í því máli, og svo miklar sakargiftir sem hann hefur borið honum á hendur, þá séu ekki minni sakargiftirnar, sem hann hefur borið á hendur þeim héraðsdómara, sem um sinn var í Vestmannaeyjum, meðan meðferð mála Helga Benediktssonar stóð, þess héraðsdómara, sem mundi hafa fengið rannsóknina að verulegu leyti, ef hún hefði verið látin liggja undir héraðsdómara. Það er einmitt einn þáttur í þessum málsóknum gegn Helga Benediktssyni nú, ærumeiðingarnar, sem hann viðhafði um fyrrv. bæjarfógeta í Vestmannaeyjum, Gunnar Þorsteinsson, fyrir hans embættisstörf. Það er nú einu sinni þannig, að sumir menn virðast ekki geta unað neinu yfirvaldi eða neinum dómara án þess á örskömmum tíma að lenda í slíkum stórdeilum við þá, að fullkomin vandræði hljótist af.

Að öðru leyti vil ég segja um meðferð þessara mála, bæði S. Í. F.-málið og mál Helga Benediktssonar, að ég geri ráð fyrir, að þau komi fyrir hæstarétt á sinum tíma. Ég er þegar búinn að gera ráðstafanir til þess, að S. Í. F. málið kemur fyrir hæstarétt; og slíkur ófriður sem er kringum mál Helga Benediktssonar þykir mér ákaflega ósennilegt annað, en að hans mál komi einnig til hæstaréttar. Þá kemur það til þess að verða borið undir úrskurð okkar æðsta dómstóls, hvort hér hafi verið rétt að farið af ákæruvaldinu, sem ég ber ábyrgð á í þessu tilfelli, eða dómurunum, sem ég ber ábyrgð á að því leyti, að ég hef sett þá til starfans, þó að ég hins vegar ráði vitanlega ekki um einstök dómsstörf þeirra. Þeim ræð ég ekki og á ekki að ráða og skipti mér vitanlega ekki af, vegna þess að slíkt væri alger misbeiting míns embættisvalds. Störf þeirra koma til þess að liggja undir mati dómstólanna, í þessu tilfelli hæstaréttar, og fæst þá af hæfustu mönnum skorið úr um það, hvor hafi réttara fyrir sér í þessum efnum.

Ég vil beina því til hv. þm. V-Húnv., sem hefur góðan aðgang að Geir H. Zoëga, mági sínum, sem má að vissu leyti telja upphafsmann þessara S. Í. F.-mála, að ef hann hefur einhverjar þær upplýsingar í málinu, sem hann telur ekki að hafi verið rannsakaðar til hlítar, þá annaðhvort komi hann þeim á framfæri við dómsmrn. eða — ef hann treystir því ekki þá við málflutningsmenn hæstaréttar á sínum tíma, til þess að úr því fáist skorið af hinum æðsta dómstóli, hvort rétt hafi verið farið að eða ekki. Ég mæli hvorki mig né aðra undan því, að þetta komi fram, heldur skora ég beint á hv. þm. að láta ekkert liggja í þagnargildi, sem hann telur að horft geti til upplýsingar málinu.

Um það, að Gunnar Pálsson hafi beitt Helga Benediktsson harðræði í málsókninni gegn honum, ræddum við í fyrra, svo að ég skal ekki rekja það frekar, en ef Helgi Benediktsson telur, að rangt sé að farið í málinu, þá hefur hann það á valdi sínu að skjóta því til hæstaréttar.

Hann getur borið það undir hæstarétt sérstaklega, hvort Gunnar Pálsson sé hæfur dómari í málinu. Ég þori að ábyrgjast, að Gunnar Pálsson, sem er einn hæfasti lögfræðingur landsins, hafði fullkomna hæfileika til þess að fara með málið, áður en málsóknin hófst. Hvort einhverjir slíkir úfar hafa risið með honum og Helga Benediktssyni í rannsókn málsins, að nú sé eðlilegra, að annar maður dæmi málið, fram hjá því hef ég viljað leiða minn hest, ef svo má segja, vegna þess að ég tel, að það sé réttara og það eina sjálfsagða, að hæstiréttur dæmi um það, því að hvar væri réttarvarzlan komin, ef dómsmrh. ætlaði að fara að svipta þá dómara, sem búið er á annað borð að fela mál, meðferð málsins í miðjum klíðum? Þá fyrst mætti tala um misnotkun dómsvaldsins, og þá væri einhver ástæða fyrir þeim gífuryrðum„ sem hv. þm. viðhafði í sinni ræðu, en það er ekki eins og á þessum málum hefur verið haldið.

Hitt verður að segja, að það sýnir furðanlegan barnaskap hjá þessum tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, þegar þeir spyrja um það, hvort rannsókn í S. Í. F.-málinu hafi á allan hátt verið hagað eins og rannsókn í máli Helga Benediktssonar eða í máli Olíufélagsins. Vitanlega fer það alveg eftir sakaratriðum hverju sinni, hvað rannsaka þarf og hvernig rannsókninni er háttað. Það er því alveg fráleitt að segja: Í þessu tilfelli var þetta gert til upplýsingar málinu, bækur teknar og haldið fyrir sakaraðila, í öðru tilfelli var það ekki gert. — Það er því aðeins hægt að segja, að í þessu sé ósamræmi, ef málin að öðru leyti eru eins og ef sakargiftirnar eru hinar sömu. En í þeim málum, sem um ræðir, öllum þremur, máli Helga Benediktssonar, Olíufélagsmálinu og S. Í. F.-málinu, eru sakargiftirnar mjög ólíkar og þess vegna eðlilegt, að með sitt hverjum hætti sé farið í hverju tilfelli, en um þau öll er það sama að segja í þessu atriði, að dómsmrh. eða dómsmrn. hefur engin afskipti haft af því, hvernig dómarinn hagaði rannsókn sinni, frekar en tíðkanlegt er í hverju tilfelli, sem fyrir dómstólana kemur. Það eru dómararnir, sem ráða því, og síðan liggur það undir mati hinna æfðustu og hæfustu manna, og ég tel, að það sé því aðeins tímabært að gera árásir á einstaka dómara og svívirða þá fyrir sína frammistöðu, eftir að sú skoðun hefur farið fram á málinu, sem fyrir hæstarétti fer fram að lokum.