21.01.1953
Sameinað þing: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (2859)

200. mál, virkjunarskilyrði á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. raforkumrh. fyrir greinargóðar upplýsingar og svör við fsp. okkar hv. þm. V-Ísf.

Ég verð nú samt sem áður að láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að þeirri rannsókn, sem Alþ. samþ. að fram skyldi fara á virkjunarskilyrðum á Vestfjörðum, skuli ekki vera komið lengra áleiðis, en raun ber vitni, sérstaklega vegna þess, að það er svo sem ekki eins og hv. raforkumálastjórn hafi aðeins haft sumarið í sumar til þess að vinna þetta verk. Það er vitað, að mörg undanfarin ár og jafnvel áratugi hefur verið unnið að rannsóknum á þessu, og byggðarlögin á Vestfjörðum höfðu um áraskeið einn af færustu verkfræðingum landsins, Finnboga Rút Þorvaldsson, á launum einmitt til þess að vinna að rannsóknum á Dynjanda, og raforkumálastjórnin hefur að sjálfsögðu haft aðgang að þeim rannsóknum öllum og niðurstöðum þeirra.

En um það þýðir ekki að sakast. Hæstv. ráðh. hefur skýrt okkur frá, hvernig þessi mál standi, og er þá ekki um annað að gera en að bíða þess, að niðurstöður rannsóknarinnar og till. byggðar á þeirri niðurstöðu liti dagsins ljós á komandi vori, eins og getið var um í því bréfi, sem hæstv. ráðh. las.

Ég vil nú segja það, að þó að skortur á heildaráætlun um raforkuframkvæmdir á Vestfjörðum — ég meina eina heildarvirkjun — hafi hindrað framkvæmdir slíkrar stórframkvæmdar, þá hygg ég, að ríkisvaldið hafi nú ekki stutt einstök byggðarlög eins og skyldi til þess að koma í framkvæmd sínum áformum um umbætur í raforkumálum. Það er fyrst, að það er vitað, að einstök byggðarlög hafa tilbúnar áætlanir um að leysa raforkuþörf sina. Ég get t. d. getið þess, að eitt byggðarlag, Bolungavík í Norður-Ísafjarðarsýslu, hefur í áratugi unnið að undirbúningi sérvirkjunar fyrir sig. Sá undirbúningur er alveg búinn, og það er hægt að ráðast í framkvæmdir strax í dag. En þetta byggðarlag, sem í 2–3 áratugi hefur verið að berjast fyrir þessari sérvirkjun, hefur enn ekki fengið áheyrn.

Ég mundi nú ætla, ef svo lítur út sem hæstv. ráðh. hafði eftir raforkumálastjórninni, að líklegast muni verða horfið að sérvirkjunum fyrir hin einstöku byggðarlög á Vestfjörðum, þá ætti nú ekki lengur að standa á því, að þetta byggðarlag og önnur, sem hafa tilbúnar áætlanir um sérvirkjanir, fengju að hefja þær og fengju til þess þann atbeina og stuðning, sem gert er ráð fyrir í raforkulögunum.

Enn fremur vil ég benda á það, að það er alveg óumflýjanlegt, að meðan þessir landshlutar bíða eftir framkvæmdum í þessum efnum, þá njóti þeir einhvers stuðnings við rekstur þessara dieselrafveitna, sem þeir eru gersamlega að sligast undir. Ég hygg, að það sé rétt, að á árinu 1951 hafi heildarrekstrarhalli á rafveitunum á Vatneyri við Patreksfjörð, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri í Súgandafirði og Bolungavík verið um 600 þús. kr. Þessi halli varð allmiklu meiri á s. l. ári. Ég get ímyndað mér, að hann sé um 800–900 þús. kr., þrátt fyrir það að fólkið borgar, eins og ég sagði, upp í eina krónu og átján aura fyrir kílówattstundina, á sama tíma sem fólk t. d. hér í Reykjavík fær raforkuna fyrir 42,9 aura kílówattstundina. Ég held, að það sé óumflýjanlegt, að þangað til hægt verður að ráðast í framkvæmdir fyrir þessa landshluta, þá greiði ríkissjóður einhvern verulegan hluta þess mikla halla, sem er á rekstri dieselraforkustöðvanna. Ef ríkissjóður gerir þetta ekki, þá sligast þessi byggðarlög gersamlega undir þessum rekstri, og náttúrlega sér maður fram á það, að þar sem ríkið er í ábyrgðum fyrir lánum til þessara mannvirkja, þá lenda þau fyrr eða síðar og eru e. t. v. sum þegar lent á ríkinu.

Ég vildi nú beina þessu til hæstv. ríkisstj., að hún gæfi vaxandi gaum að því að styðja þessar dieselrafveitur, þangað til einhver niðurstaða er fengin um það, hvernig raforkuþörf Vestfjarða verður leyst í framtíðinni, og í raun og veru þangað til hrundið hefur verið í framkvæmd þessum virkjunum. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég hef sagt hér oft áður, að það liggur í augum uppi, að ef svo fer fram um langt skeið, e. t. v. áratugi, að ákveðnir landshlutar verða gersamlega útundan um raforkuframkvæmdir, þá þýðir það ekkert annað en það, að fólkið flytur þaðan, jafnvel þó að í hlut eigi þróttmikil framleiðslubyggðarlög eins og t. d. Vestfirðir, sem hafa tekið mjög mikinn þátt í framleiðslu sjávarafurða í landinu.

Ég hef ekki frekari orð um þetta, en ég beini þeim tilmælum og hvatningu til hæstv. ríkisstj. að láta sig þessi mál frekar varða, hvernig leyst verði sú brýna þörf, sem fyrir hendi er í þessum raforkumálum þeirra byggðarlaga, sem búa við dieselraforku víðs vegar úti um land.