03.02.1953
Efri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

187. mál, eftirlit með rekstri ríkisins og ríkisstofnana

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. um þetta frv. með fyrirvara, og ég vildi aðeins gera grein fyrir þessum fyrirvara.

Ég mæli með frv. vegna þess, að ég álít, að það mætti verða mikið gagn að slíku embætti, ef í það velst hæfur og dugandi maður. Annars er verr farið, en heima setið, og þessi tilraun mundi að öðrum kosti verða alger misheppnun. Afstaða mín til þess. hvort stofna beri þetta embætti eða ekki fer eingöngu eftir því, hvort svo reynist, að dugandi maður sé fáanlegur í embættið, eða þá að samkomulag geti orðið í fjvn. um að velja slíkan mann í embættið, en samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því, að það sé fjvn., sem velur manninn í embættið. Þess vegna vil ég, að ákvæðið um þessa embættisstofnun verði aðeins heimildarákvæði, og vil áskilja mér og mínum flokki rétt til þess að vera á móti embættisstofnuninni, ef ekki reynist unnt að fá samkomulag um hæfan og dugandi mann í starfið.

Sömuleiðis álít ég, að ekki eigi að gera það að skilyrði fyrir veitingu embættisins, að viðkomandi sé alþm. Hins vegar er rétt, að Alþ. eða fjvn. velji manninn í embættið. Ég tel fráleitt, að ríkisstj. veiti slíkt embætti, því að embættismaður sem þessi þarf að vera eins óháður framkvæmdavaldinu og kostur er.

Þetta eru í stuttu máli ástæðurnar fyrir fyrirvara mínum og einnig fyrir því, að ég get ekki verið með rökstuddu dagskránni.

Ef málið kemst til 3. umr., þá mun ég bera fram brtt. í samræmi við það, sem ég hef nú sagt.