11.12.1952
Neðri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (3006)

20. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Efni þessa frv. er það, að í laga- og hagfræðideild Háskóla Íslands skuli vera fjórir prófessorar í stað þriggja, sem nú eru. Háskólinn hefur óskað eftir þessari breytingu og sendi Alþ. tilmæli um það í fyrra. Það mál fékk þá ekki byr, en nú hefur hæstv. ríkisstj. tekið það upp og flytur um það stjórnarfrv. á þskj. 20. Rökin fyrir þessu eru einkum þau, að tala fastakennara eða prófessora í lögfræði hefur verið óbreytt í 41 ár, eða frá því að háskólinn tók til starfa 1911. Á þessum tíma hefur nemendum fjölgað mjög mikið og námsgreinum einnig að töluverðu leyti. Háskólinn telur þess vegna brýna nauðsyn að fá aukna kennslukrafta og telur, að á móti þeim kostnaði, sem af þessu stafaði, mætti draga nokkuð úr þeim útgjöldum, sem nú eru vegna aukakennslu eða aukakennara við lagadeildina.

Í grg. frv. er málið ýtarlega rökstutt. Menntmn., sem fékk það til umsagnar, fékk svo einn prófessoranna á fund til sín til að gefa þar skýringar um málið. N. gat ekki orðið á einu máli um afgreiðsluna, en meiri hl. leggur til, að frv. verði samþykkt.