04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

36. mál, hafnarbótasjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram hér þrjár brtt. við 1. gr. Það er fyrsta brtt., að orðið „slíkum“ í 1. tölulið 1. gr. falli niður og hef ég rætt áður, hvers vegna þessi brtt. er fram borin, og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það hér. — Ég hef einnig borið fram brtt. við 2. tölulið, að orðin „samkv. 1. gr. l. nr. 29 1946, um hafnargerðir og lendingarbætur“ falli niður. Ef þessi till. verður samþ., þá er ekkert um það deilt, að ríkissjóður ber ábyrgð á öllum þeim lánum, sem lánuð eru samkv. þessari mgr. úr hafnarbótasjóði, og þykir mér rétt, að það sé tekið fram ákveðið í lögunum. — Ég hef í þriðja lagi borið fram hér undir e-lið till. um það, að síðasta mgr. falli niður: „Leita skal umsagnar Fiskifélags Íslands og vitamálastjóra um fjárveitingar úr sjóðnum, en ráðherra úrskurðar.“ Þetta ákvæði hefur ekki verið í lögunum áður, og ég sé ekki ástæðu til þess að setja það nú, eins og ég hef tekið fram áður, tel enda, að það sé mjög óheppilegt, á meðan sjálfur vitamálastjóri situr á þingi og hefur þar að gæta hagsmuna ákveðins héraðs. Ég skal ekki orðlengja þetta meira, en væntí þess, að þessar till. allar verði samþykktar.