03.02.1953
Efri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

194. mál, sparisjóðir

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Ég skal nú ekki heldur halda uppi neinu málþófi í sambandi við þetta mál, enda orðið langt liðið á kvöldið, en aðeins gera hér nokkrar athugasemdir við framsögu hjá hv. frsm. minni hl.

Hann spurði hér, hvort það mundi ekki þykja nokkuð einkennilegt og verða skrýtin andlitin á bankastjórum hinna bankanna, ef Landsbankinn yrði settur sem eftirlitsmaður yfir þeirra starfsemi. Ég skal svara þessari spurningu með annarri spurningu: Hvort yrði ekki enn lengra andlitið á þeim, ef sá eftirlitsmaður yrði settur yfir þá, sem nú rækir þetta starf? Hvernig mundi þá verða upplitið bæði í Útvegsbankanum, Búnaðarbankanum og öðrum bönkum? (Gripið fram í.) Ég spyr, — því að hv. frsm. þykir ágætt, að það sé hafður sá háttur á, sem nú er. Það hefur, skilst mér, enginn sparisjóður á landinu kvartað yfir því, að það væri ekki ágætt. Hvað mundu bankarnir segja, ef slíkur prýðilegur maður yrði settur sem eftirlitsmaður og rækti það eins prýðilega og hann hefur rækt þetta starf hér? Hvernig mundi þá verða upplitið á bankastjórnunum?

Ég vil hins vegar alveg mótmæla því, sem hefur komið fram hér, bæði frá hv. minni hl. og frá hæstv. ráðh., að hér sé um að ræða samkeppni, og sízt af öllu nokkra fjandsamlega samkeppni. Hér er einmitt um að ræða ákaflega mikið samstarf á milli þessara tveggja aðila, Landsbankans annars vegar og sparisjóðanna almennt. (Gripið fram í: Viðskipti.) Vinsamleg viðskipti. Og Landsbankinn hefur í dag langsamlega mesta eftirlitið með þessari starfrækslu. Það er enginn aðili í landinu eins kunnugur þessum málum, fyrir utan þær stjórnir, sem stjórna hverri stofnun, eins og einmitt Landsbankinn og enginn aðili eins velviljaður þessum aðilum eins og Landsbankinn. Það þykir mér rétt að láta koma fram hér vegna þeirra ummæla, sem hafa fallið hér í sambandi við þetta mál.

Það var hins vegar síður en svo, að ég gæti ekki hugsað mér, að eftirlitið yrði falið einhverjum öðrum aðila m. a. endurskoðunardeildinni, og það vissi hv. minni hl. En það kom skýr yfirlýsing um, eins og sýnir sig í bréfi, sem hér fylgir með, að endurskoðunardeildin taldi alls konar ljón á veginum; það væri gersamlega ómögulegt fyrir hana að taka að sér þetta starf, nema helzt að bæta við mörgum mönnum, sem kostaði mikla peninga, eins og kemur fram í bréfinu, til að gegna því starfi, sem við vitum þó að er ekki rækt af nema einum manni í hjáverkum í dag. Og ég verð nú að segja það, að ég er bara undrandi yfir því svari, sem kom frá endurskoðunardeildinni í sambandi við þetta mál, því að það var fullkominn vilji hv. n. að reyna að fá samkomulag um það, hvort ekki væri hægt að koma þessari endurskoðun eða eftirliti fyrir á ódýrari hátt fyrir ríkissjóð og á öruggan hátt, m. a. með því að fela það þessari stofnun. Það kom einnig mjög til mála hér — og fannst mér, að hv. minni hl. hefði þá ekki haft nokkuð við það að athuga — að fela þetta Framkvæmdabankanum. Og var það aðallega vegna þess, að ekki var meira rætt um það heldur en gert var, að það var ekki búið að stofna bankann með l., og það þótti þar af leiðandi nokkuð óviðeigandi að setja það inn í frv. að fela það stofnun, sem ekki var komin á fót. Annars var mjög rætt um það, að það ætti kannske miklu frekar heima þar heldur en hjá Landsbankanum. En ég verð að segja það, að ég sé engan eðlismun á því, hvort tveggja eru ríkisbankar. Það þykir heldur ekkert við það að athuga nú, að Landsbankinn hafi svo mikið eftirlit með Framkvæmdabankanum, að Framkvæmdabankinn sé raunverulega settur þar sem niðursetningur. Og er hann þó sjálfsagt keppinautur Landsbankans á sumum sviðum, því að það er ætlazt til þess, að hann taki a. m. k. að sér sumt af verkefnum bankans, og sýnilegt í ummælum bankastjórnar Landsbankans, að henni er ekkert vel við slíkan keppinaut, síður en svo, að það sé. En það þykir ekkert athugavert við það að hafa hann sem niðursetning í Landsbankanum, þó að það þyki athugavert að láta Landsbankann hafa .... (Gripið fram í.) Hafa ekki báðir viðskipti við Landsbankann? Hafa ekki sparisjóðirnir viðskipti við hann? Ætlar ekki hinn bankinn líka að hafa viðskipti við hann, þar sem hann ætlar að láta Landsbankann, eða Seðlabankann, geyma allt sitt fé og gera öll sín daglegu störf? Það er nú ekki hægt að samrýma svona lagað, að halda því fram, að það sé einhver fjandskapur gegn sparisjóðunum að láta Landsbankann hafa eftirlitið, sem hann raunverulega í dag hefur, en fela svo Landsbankanum alla daglega afgreiðslu í hinni miklu stofnun, Framkvæmdabankanum. Nei, það er eitthvað annað, sem liggur á bak við hjá mönnum, sem leyfa sér að telja þetta rök.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta nú. En ef till. hefði komið fram um það frá hv. minni hl. og einhver vilji um það að koma þessu fyrir á annan hátt, en að vísa málinu beint frá, þá hefði ég verið til viðtals um það. En hér er ekki gert neitt annað, en að vísa þessu máli frá, og það er gert af allt öðrum ástæðum en þeim, sem bornar eru fram hér. Það veit hv. minni hl. að er. Skal ég svo ekki ræða um það frekar hér.