11.11.1952
Neðri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (3078)

135. mál, lánsfé til íbúðabygginga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Það blandast vafalaust engum hv. þm. hugur um, hver nauðsyn liggur á bak við flutning þess, og ég vildi taka undir það með hv. frsm., hv. 5. þm. Reykv., að undir meðferð þessa máls og þá helzt strax gerði fjhn. nokkra gangskör að því að reyna að grafast fyrir um, hvernig sakirnar standa viðvíkjandi þessum málum. Það er eitt atriði, sem mig langar sérstaklega til, að fjhn. gæti fengið upplýst í viðræðum við bankana um þessi mál, og það er, hvað eru raunverulega lánin, sem núna eru veitt á Íslandi út á íbúðir. Ég held, að núverandi brunabótamat allra íbúðarhúsa á Íslandi sé um 3000 millj. kr., eða þrír milljarðar. Ég veit, að öll lán veðdeildar Landsbankans eru, ef ég man rétt, 38 millj. kr. Ég býst við, að aðrir bankar hafi kannske nokkra tugi milljóna lánaða út á veð í húsum. Ólíklegt þykir mér þó, að það sé samanlagt í bönkunum mikið yfir 60, 70 til 80 millj. kr. Þá er það, sem væri lánað út á veðrétt í húsum af einstaklingum. Það kynni að vera kannske 100–200 millj., — ég veit ekki, hvað það er, en mér er nær að halda, að öll veðlán út á hús á Íslandi séu varla yfir, ef þau ná nokkuð nærri því að komast í 300 millj. kr., eða 10% af andvirði allra húsbygginga á Íslandi. — Nú vitum við, að öll hús á Íslandi að heita má eru byggð mestmegnis af okkar kynslóð, en að nokkru leyti af kynslóð okkar feðra. Þau eru sem sé byggð það sem af er þessari öld, og hvað þýðir það, ef þeir, sem eiga þessi hús núna, eiga ýmist með hárri leigu gagnvart öðrum eða gagnvart sjálfum sér að rísa undir að borga upp allt, sem byggt hefur verið á Íslandi á þessum 50 árum? Það þýðir, að allir þeir efnaminni á Íslandi kikna undir því og verða að selja sín hús og selja sínar íbúðir og að meginið af öllum húsum á Íslandi verður boðið upp á næstu 10–20 árum og lendir í höndunum á örfáum auðkýfingum, sérstaklega hér í Reykjavík. Þetta er afleiðingin af því að neita konsekvent um lán út á hús eins og nú er gert. Það er rétt, að menn geri sér alveg hreint ljóst, hvað slík lánsfjárpólitík þýðir. Hún þýðir gagnvart kynslóðunum í heild, að það er sagt við þessa kynslóð: Þú verður að borga upp öll húsin, sem nú eru byggð á Íslandi, — sem þýðir, að það er sagt við þessa kynslóð: Þú verður að neita þér jafnvel um sumt það nauðsynlegasta til þess að borga upp þessi hús. Það verður afleiðingin af því. Þar sem slíkt er ekki framkvæmanlegt, þá lendir þetta út í því, að hinir efnaminni kikna undir því að eignast nokkurn skapaðan hlut, enda er þróunin, sem nú er að fara fram í þjóðfélaginu, sú, að alþýða manna og millistéttir, sem voru að eignast einhvern hluta af sínu landi eða húsunum, sem á því standa, eða verkstæðunum, sem á því eru byggð, fyrir 5–10 árum, eru að missa það allt saman aftur. Það er þróunin, sem er að ganga fyrir sig núna á þessum árum, að þessir aðilar missa það allt saman aftur, m. a. og sérstaklega vegna lánsfjárpólitíkurinnar og vegna hins skipulagða atvinnuleysis, sem nú er í landinu.

Ég held, að það sé óhætt að segja, að það er óvíða byggt eins vel og byggt er á Íslandi núna. Og meginið af þeim byggingum, sem hér eru reistar, a. m. k. 10 síðustu árin, eru byggingar, sem vafalaust geta staðið, ef ekkert sérstakt kemur fyrir, ein 200–300 ár og verið búið í þeim. Og það sjá allir menn, að það er ekki nokkurt vit, að núverandi kynslóð sé látin borga þær upp. Og svo bætist við það, sem er nú aðaltilgangurinn með þessu frv., að tryggja það, að menn geti haldið áfram þessari starfsemi, sem nú er að miklu leyti búið að stöðva eða valda mönnum svoleiðis erfiðleikum í sambandi við það, eins og gleggst sést hjá þeim, sem nú eru að berjast í sambandi við smáíbúðirnar, að þeir eru að kikna undir þessu. Það er þess vegna engum efa bundið, að það þarf að finna lausnir í þessum málum, og þetta frv. er að því leyti alveg í rétta átt. Hins vegar vildi ég benda á það, — ég held það væri gott, að fjhn. íhugaði það um leið, — að þarna er farið fram á 30 millj. kr. Ef til vill komum við til með að heyra það, að hæstv. ríkisstj., sem hv. frsm. upplýsti nú að mundi víst lítið hafa rannsakað enn þá hans þáltill. frá síðasta þingi eða það, sem þar var falið að gera, — hún segi, að það sé kannske erfitt að fá þessi lán. Og ég vil aðeins minna á í því sambandi, af því að það eru sumir, sem halda að það séu aldrei neinir peningar til, að Landsbankinn græddi á síðasta ári samkv. hans reikningum 28 millj. kr. í hreinan tekjuafgang og það er fé, sem hann hvort sem er á að lána út aftur, og það væri m. a. hægt náttúrlega að fyrirskipa honum að setja það í veðdeildina og lána það út. Eins og við vitum, þá er það þessi stofnun hér, Alþingi, sem ræður því, hvað Landsbankinn gerir og hvernig hann stjórnar og hvernig hann starfar. Það er með l. frá þessari stofnun, sem Landsbankinn er búinn til. Það er með l. frá þessari stofnun, sem honum er breytt. Og það er hægt að fyrirskipa héðan, — og Alþingi er eina stofnunin í landinu, sem getur það, — hvað gera skuli í þessum efnum, þannig að það er síður en svo, að Alþingi sé valdalaust í þessum efnum. — Ég vil sem sé eindregið mæla með þessu frv. og vonast til þess, að það verði tekið til góðrar athugunar í fjhn. og afgr. fljótt frá henni aftur.