21.10.1952
Efri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

9. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það kemur nú sjálfsagt engum á óvart, hvað hv. 1. landsk. hafði til málanna að leggja í þessu efni, því að það var nú ekkert nýtt í því. Fyrirrennari hans hefur á liðnum þingum haft það sama að segja um þetta mál. Ég ætla því ekki að lengja hér umr. með því að svara þessari ræðu hans að neinu ráði. Hann byrjaði á því að benda á það, að þó að þetta frv. léti lítið yfir sér, eins og hann orðaði það, þá væri það verulegur hluti af tekjum ríkissjóðs, sem það heimilaði að innheimta af þjóðinni. Það er nú rétt, að það er allmikið fé, sem kemur inn í ríkissjóðinn samkv. 1. gr., en samt sem áður virðist þessum hv. þm. vera hægt að afnema þessar tekjulindir, án þess að hann bendi á nokkrar aðrar tekjulindir í staðinn. Hann sagði, að óbeinir skattar hefðu aukizt. Það er rétt. Óbeinir skattar hafa aukizt. En hefur þá ekki einnig aukizt mjög það, sem ríkissjóður leggur fram í eitt og annað og landsmönnum kemur að notum, og er hans flokkur hógværari, en aðrir í því að krefjast framlaga frá ríkissjóði til eins og annars, oft að sjálfsögðu góðra mála í sjálfu sér, ef peningar væru fyrir hendi? Hann talaði um stefnu síns flokks. Í fjármálum virðist mér, að sú stefna sé skýrt mörkuð og hafi alltaf verið, það er yfirleitt að vera á móti því, að ríkissjóður leggi gjöld á eða fái tekjur, og með öllum útgjöldum. Hvernig þeir gætu svo komið þessu heim og saman, ef þeir ættu að stjórna og bera ábyrgð á fjármálunum, það er mér ekki skiljanlegt og líklega fáum og sennilega ekki þeim sjálfum, og þess vegna þýðir ekki að ræða það. Það er öllum vitanlegt, að þetta er gert til þess að reyna að fá af því vinsældir, því að flestum er illa við að greiða skatta, og allir vilja þó fá sem mest úr ríkissjóði til þeirra hluta, sem þeir telja nauðsynlegt að gera, og þess vegna kann það að virðast í fljótu bragði vænlegt til fylgisauka og vinsælda að vera á móti sköttum, en með framlögum úr ríkissjóði. En ég hef nú þá trú, að mikill hluti fólks sé þó enn það viti borinn, að hann sjái það, að slík pólitík er ekki raunveruleg, og þess vegna efast ég mjög um, að vinsældirnar af svona stefnu og fylgisaukinn vegna hennar verði eins og þessi hv. flokkur, ef til vill gerir sér vonir um. Um þetta þýðir ekki að ræða við hv. frsm. minni hl., það verður auðvitað klippt og skorið, og skal ég ekki orðlengja þetta frekar.