24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

86. mál, skemmtanaskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla, að þetta sé annað frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fyrir þessa hv. deild og jafnframt látið fylgja það með, að ríkisstj. og einstakir ráðherrar hafi ekki tekið afstöðu til stjórnarfrv. sjálfs. Þetta má heita nýr siður hjá Alþ., ætla ég, eða nýlegur a. m. k. og varla til bóta, verð ég nú að segja, því þegar hæstv. ríkisstj. leggur fyrir Alþ. frv., þá er það minnsta, sem hægt er að ætlast til af henni, að hún sjálf sé þá, þegar hún leggur frv. fyrir þingið, búin að skapa sér skoðun um málið. Ég verð að segja, að það er ákaflega undarlegt athæfi að leggja fyrir Alþ. frv., sem ríkisstj. svo ætlar að snúast á móti.

Úr því að farið er að ræða þetta mál, þá eru nokkur atriði, sem ég gjarnan vildi fá upplýst, áður en málið fer til nefndar, ef það er á færi hæstv. ráðherra.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að sviðið, sem skemmtanaskatturinn nær til, verði útvíkkað þannig, að það nái til allra kauptúna og þorpa, sem hafa 500 íbúa eða fleiri, en er 1.500 samkvæmt gildandi lögum. Þessu hefur verið andmælt af hv. þm. S-Þ. og ég ætla hv. þm. Barð.

En mér er spurn, ef farið er að færa þetta mark niður, sem ég tel nú að ýmislegt mæli með, hvers vegna sé þá verið að undanþiggja aðra hluta landsins. Mér finnst langeðlilegast, ef skemmtanaskattur á annað borð er á lagður, að hann gildi hvar sem er á landinu. Ég fæ ekki séð, hver eðlismunur er á því að halda skemmtanir í hagnaðarskyni í sveitum, í þorpum með 500 íbúa eða þorpum eða kaupstað með yfir 1.500 íbúa. Nú á síðari árum hafa m. a. vegna þess fjárstyrks, sem ríkissjóður veitti til þess, risið upp félagsheimili mjög víða um land og eru óðum að rísa upp. Í þessum félagsheimilum er rekin mjög fjölþætt skemmtanastarfsemi, í ýmsum tilfellum í hagnaðarskyni, þótt oft sé það til þess að safna fé í ákveðnu augnamiði. Þangað sækir ekki einasta fólk úr sveitinni, sem félagsheimilið er í, heldur gjarnan úr þeim kaupstöðum, sem nærri liggja, ef þau eru ekki mjög langt þaðan og jafnvel þótt nokkuð langt sé. Ég sé engan eðlismun á þessum skemmtunum og skemmtunum í þorpum og kaupstöðum og því enga ástæðu til þess að undanþiggja þær hér, ekki sízt með tilliti til þess, að mjög mikill hluti af þessum skatti er ætlazt til að renni einmitt út í sveitir landsins til byggingar félagsheimila og annars slíks. Þessi stefna, sem gengur eins og rauður þráður í gegnum ýmis frv. ríkisstj., að mismuna mönnum í öllu mögulegu tilliti eftir því, hvort þeir eru búsettir í sveit eða kaupstað eða þorpi, er að minni hyggju alveg fráleit. Það er að sjálfsögðu eðli skemmtananna, tilgangur með fjársöfnuninni og skemmtanahaldinu, sem á að ráða því, hvort skattur er lagður á þetta eða ekki, en ekki hvort skemmtunin er haldin uppi í sveit, í kaupstað eða kauptúni.

Þá verð ég að segja, að úr því að nú á annað borð er farið að endurskoða þessi lög og steypa þeim saman í eina heild, sem var full nauðsyn, — ég skal fallast á það með hæstv. menntmrh., — þá þykir mér furðulegt, að ekki skuli litið á það sem mest kallar að, og það er að minni hyggju alveg tvímælalaust að greiða upp skuldir þjóðleikhússins. Ég vildi mega vænta þess, ef hæstv. ráðh. hefur ekki hér við höndina skýrslu um skuldir þjóðleikhússins, að þá verði þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar, látin hún í té. Ég álít, að ef verið er að breyta skemmtanaskattslögunum nú, þá liggi næst, áður en ráðizt er í miklu meira, þó að það verði þá að spara aðra liði, sem hér er ætlazt til að lagt verði fé til, að koma því nokkurn veginn á réttan kjöl. Það er vitað, að mikið af óreiðuskuldum hefur verið að safnast á þjóðleikhúsbygginguna. Sumu af því hefur verið komið í lán til nokkurra ára, en enginn vafi er á því, að starfsemi þjóðleikhússins væri mestur léttir í því og að vissu leyti hag ríkissjóðs og þjóðleikhússtofnunarinnar í heild sinni, að hægt væri að gera þetta upp hið allra fyrsta, þó að þá yrði að fresta framlögum til annarra framkvæmda, meðan væri verið að ljúka þessum sjálfsögðu greiðslum.

Loks vildi ég svo, til þess að gera ekki mál mitt of langt við þessa umr., benda á, að mér finnst fjarri öllum sanni að upphefja það skattfrelsi, sem bæjarbíóin nú hafa eða kvikmyndahús, sem rekin eru af bæjarfélögum, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Undantekningarlaust, þar sem bæjarfélögin hafa slíka starfsemi með höndum, er fénu varið til einhverra nytjaframkvæmda, sums staðar til þess að standa undir sjúkrahúsum og sjúkrahúsarekstri, sums staðar til annarra menningarframkvæmda, eins og kunnugt er. Að ætla sér að fara að skattleggja þessa starfsemi hjá bæjarfélögunum er því fjarri allri skynsemi, ekki sízt þegar litið er til þess, að heimild er í þessu frv. til þess að undanþiggja skatti þær skemmtanir, sem eru til fjársöfnunar í ákveðnu skyni til mannúðar- og menningarstarfsemi. Því virðist mér alveg sjálfsagt, að slíkt hið sama gildi um kvikmyndarekstur bæjarfélaganna, og því sé fráleitt að breyta frá því, sem nú er í því efni.

Ég skal láta þetta nægja við þessa umr. málsins, en vildi vænta, ef hæstv. ráðh. getur ekki veitt þessar upplýsingar nú, áður en málið fer til nefndar, að þá léti hann nefndinni þær í té.