13.10.1952
Neðri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (3176)

44. mál, raforkulög

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Virkjun fallvatna og dreifing raforku um landið er mjög ofarlega á baugi með þjóðinni. Fallvötnin eru dýrmætur orkugjafi. Þær þúsundir manna í landinu, sem þegar njóta raforku, finna glöggt, hve mikilli breytingu það veldur á heimilum frá því, sem áður var. Og þau heimili víðs vegar í byggðum landsins, sem enn fara á mis við raforku, bíða þess með óþreyju, að raftaugar flytji þeim ljós og yl. Um þessar mundir er og unnið að stórfelldari framkvæmdum á þessu sviði, en nokkru sinni fyrr, þar sem eru hinar stóru virkjanir við Sog og Laxá. Þær virkjanir munu kosta hátt á þriðja hundrað millj. króna. Ákveðið hefur verið að verja ríflegum hluta af Marshallfé, sem Íslendingar hafa fengið, til að standa straum af hinum mikla kostnaði við þessar tvær stórvirkjanir. Fjölmennustu byggðir landsins eiga að njóta raforku frá þessum orkuverum, og einnig verða þau orkugjafar fyrir iðnaðarfyrirtæki, m. a. áburðarverksmiðju.

En þótt það takist innan skamms, svo sem vonir manna standa til, að koma upp þessum stórvirkjunum, þá ná þær ekki til landsins alls. Mörg héruð, einkum á Austurlandi og Vesturlandi, fara á mis við raforku eftir sem áður. Ef ekkert verður aðhafzt um framkvæmdir á þessu sviði í þeim héruðum, leiðir af því svo mikinn mun á þægindum og aðstöðu íbúanna í landinu, að það hlýtur að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þau héruð, sem útundan verða, og þá jafnframt fyrir þjóðfélagið í heild. Hv. alþm. hafa gert sér þetta ljóst. Síðan raforkul. voru sett árið 1946 hefur verið lögfest að heimila Rafmagnsveitum ríkisins að reisa orkuver á a. m. k. 12 stöðum í landinu, auk virkjana Sogs og Laxár, og leggja orkuveitur um þéttbyggðustu svæði þeirra héraða, sem hlut eiga að máli. Þó að þessar lagaheimildir séu fyrir hendi, hafa framkvæmdir ekki hafizt enn nema á mjög fáum af þessum stöðum. Valda því ýmsar ástæður, en ekki sízt fjárskortur. En þó að öll þau orkuver, sem Rafmagnsveitum ríkisins hefur þegar verið heimilað að reisa, verði byggð og fleirum bætt við, þarf ekki að gera ráð fyrir, að það bæti úr rafmagnsþörf allra byggða í landinu.

Í erindi, sem raforkumálastjóri flutti á búnaðarþingi á öndverðu ári 1951, gaf hann gott yfirlit um þetta efni. Um það leyti hafði fimmta hvert sveitabýli rafmagn til heimilisnota, og eru þá vindrafstöðvar ekki taldar. Raforkumálastjóri gerði ráð fyrir, og mun hann byggja þá skoðun á athugunum rafmagnseftirlits ríkisins, að rúmlega helmingur hinna rafmagnslausu býla, þ. e. 2.300 sveitabýli, fengju á sínum tíma raforku með samveitum frá orkuverum, en 2.100 sveitabýli munu ekki eiga þess kost fyrir kostnaðar sakir samkvæmt áliti og áætlun raforkumálastjóra að fá rafmagn frá héraðsrafmagnsveitum. Er talið ódýrara að sjá þeim sveitabýlum fyrir raforku á annan hátt. Talið er, að meðalvegalengd milli bæja megi ekki vera mikið fram yfir einn km, til þess að fjárhagslegur grundvöllur samveitu sé fyrir hendi. Ef þau 2100 sveitabýli, sem hér er um að ræða, eiga að fá rafmagn, verða þau að koma sér upp litlum rafstöðvum, eitt og eitt eða fá saman eftir staðháttum. Koma þar til greina bæði vatnsaflsstöðvar og mótorstöðvar. Raforkumálastjóri áætlar, að vatnsaflsstöðvar megi reisa á 600 býlum auk þeirra, sem komnar eru, en að mótorstöðvar verði að nægja á 1500 sveitabýlum. Er auðsætt, að ekki má hjá líða að hugsa fyrir þörfum þessara 2100 sveitabýla, jafnhliða því sem unnið er að samveitum fyrir þá, er þeirra geta notið.

Raforkusjóður gegnir því hlutverki að lána fé til raforkuframkvæmda. Um lánveitingar úr sjóðnum segir svo í 35. gr. raforkul.:

„1) Úr raforkusjóði má veita Rafmagnsveitum ríkisins lán, sem veitast til allt að 30 ára, til að koma upp tilteknum mannvirkjum.

2) Úr raforkusjóði má einnig veita Rafmagnsveitum ríkisins rekstrarlán og bráðabirgðalán til skemmri tíma, þ. á m. til að greiða rekstrarhalla, sem verða kann af mannvirkjum fyrstu árin eftir að þau eru gerð.

3) Úr raforkusjóði má og veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota utan þess svæðis, sem héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtíð, lán úr raforkusjóði, að upphæð allt að 2/3 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjana og línulagna heim að bæjarvegg. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um lánskjör og skilyrði til lánveitinga.

4) Úr raforkusjóði má enn fremur veita bændum, sem eru svo í sveit settir, sem um getur í 3. tölulið, og ekki hafa aðstöðu til vatnsvirkjunar, lán til að koma upp mótorrafstöðvum á heimilum sínum, að upphæð allt að 2/5 stofnkostnaðar rafstöðvarinnar. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um lánskjör og skilyrði til lánveitinga.“

Fjárþörf raforkusjóðs er mjög mikil. Það er augljóst þegar þess er gætt, að eftir er að reisa orkuver og orkuveitur í mörgum héruðum og að verðlag hefur hækkað að miklum mun frá því að raforkul. voru sett og framlag ríkisins til raforkusjóðs ákveðið. Samkvæmt upplýsingum, sem flm. þessa frv. hafa aflað sér, höfðu hinn 30. sept. 1951 verið veitt lán úr raforkusjóði að upphæð samtals 11,5 millj. kr. Af þessari fjárhæð voru nálega 95% lán til hinna stærri orkuvera og samveitna, en aðeins 5% til einkarafstöðva. Lán til einkarafstöðva voru þá 46 talsins, síðan sjóðurinn tók til starfa, þar af 24 til vatnsaflsstöðva og 22 til mótorstöðva, og þessi lán hafa ekki nærri náð því hámarki í hlutfalli við stofnkostnað, sem sett er í raforkul. Þetta bendir til þess, að fyrirgreiðsla vegna einkarafstöðva hafi orðið mjög útundan. Hafa menn jafnvel gert ráð fyrir, að öll býli á landinu gætu notið rafmagns frá samveitum áður en langt liði, en samkvæmt áliti raforkumálastjóra virðist tæplega hægt að gera ráð fyrir því.

Í frv. þessu er lagt til, .að árlegt framlag ríkisins til raforkusjóðs verði frá 1. jan. 1954 5 millj. kr. í stað 2 millj. kr. Efling raforkusjóðs er mikið nauðsynjamál og tímabært með tilliti til þeirra verkefna, sem fram undan eru í mörgum héruðum, og þeirra breytinga á verðlagi, sem orðið hafa síðan raforkul. voru sett og hið árlega framlag var ákveðið, 2 millj. kr.

Í 2. gr. frv. er kveðið svo á, að eigi minna en þriðjungi þess fjár, sem lánað er úr sjóðnum, skuli verja til lána vegna einkarafstöðva í sveitum. Með þessu ákvæði er stefnt að því að bæta í þessu efni hlut þeirra 2.100 sveitabýla, er samkvæmt áliti raforkumálastjóra geta ekki vænzt þess að fá rafmagn frá stórum orkuverum. Ef framlag ríkisins til sjóðsins yrði áfram 2 millj. kr. á ári, mætti lána til einkarafstöðva árlega samkvæmt 2. gr. frv. samtals 600–700 þús. kr., en væri framlagið hækkað í 5 millj. kr., eins og lagt er til í 1. gr. þessa frv., yrði hægt að lána til einkarafstöðva samtals 1,6 eða 1,7 millj. kr. á ári. Samkvæmt áætlun raforkumálastjóra í fyrrnefndri grg. og gildandi lagaákvæðum um hámark lána úr raforkusjóði mátti þá gera ráð fyrir, að meðalvatnsaflsstöð eða hluti býlis í sameignarstöð gæti, ef fé væri fyrir hendi, fengið allt að 40 þús. kr. lánsfé, og er þá miðað við það hámark, sem l. setja, en mótorrafstöð allt að 18 þús. kr. Af þriðjungi núverandi framlags til raforkumálasjóðs hefði þá verið hægt að veita árlega hámarkslán til 16 eða 17 vatnsaflsstöðva eða rúmlega helmingi fleiri mótorstöðva. En verði framlagið hækkað í 5 millj., er að sjálfsögðu hægt að fjölga þessum lánum að sama skapi.

Frá því að áætlanir raforkumálastjóra, sem hér er stuðzt við, voru gerðar, hefur verðlag enn hækkað. Nú mun mega gera ráð fyrir, að lán til vatnsaflsstöðva fyrir heimili geti numið kringum 50 þús. kr., ef fylgt væri ákvæðum l. um hámark, og yfir 20 þús. kr. til mótorrafstöðva fyrir heimili. Þótt 1,6 eða 1,7 millj. kr. yrðu árlega til ráðstöfunar í þessu skyni, þá væri aðeins hægt að veita á ári hverju 30–40 hámarkslán til vatnsaflsstöðva í sveitum. Verkefnin, sem fyrir liggja á þessu sviði, eru svo stórfelld, að þótt þetta frv. verði að l. og verðlag hækki ekki frá því, sem nú er orðið, mun það taka langan tíma að veita þeim rúmlega 2.000 sveitabýlum, sem þurfa að reisa einkarafstöðvar, fullnægjandi úrlausn um lánsfé til þeirra framkvæmda. — Við flm. væntum þess, að frv. þessu verði vel tekið hér í hv. d. Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði, er þessari umr. lýkur, vísað til 2. umr. og hv. iðnn.