16.10.1952
Neðri deild: 9. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (3205)

72. mál, byggingarsjóður kauptúna

Flm,. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir og ég hef leyft mér að flytja, ásamt hv. 2. þm. N-M. og hv. þm. V-Ísf., felst það nýmæli, að komið verði á fót sérstakri stofnun til að annast byggingarlán til íbúðarhúsa í þorpum, sem hafa 1.000 íbúa, eða færri.

Þau þorp eða kauptún í landinu, sem þessa íbúatölu hafa, munu vera rúmlega 50 samkv. upplýsingum, sem við flm. frv. höfum aflað okkur um það efni. Flest af þessum þorpum eru, eins og kunnugt er, á ströndum landsins, þ. e. a. s. sjávarþorp, en á síðustu árum hafa einnig verið byggð nokkur þorp fjarri sjó. Svo að segja öll þessi þorp eru jafnframt kauptún, enda oftast nefnd svo í lögum, og er því heiti haldið í frv. Íbúatala hinna einstöku þorpa, sem þetta frv. tekur til, er tilgreind í fskj. með grg. frv., á þskj. 76, samkv. upplýsingum hagstofunnar. Hún er nokkuð misjöfn, íbúatala þessara rúmlega 50 þorpa, allt frá 800 til 900 og niður í 50 til 60. En samtals er íbúatala þeirra nú, eða var við aðalmanntalið í árslok 1950, sem hér er lagt til grundvallar, 17–18 þús. Meðalíbúatala í þorpi hefur hins vegar verið á þeim tíma um hálft fjórða hundrað. Flest þessara þorpa hafa verið að byggjast upp smátt og smátt. Sum eru að vísu nokkuð gömul, gamlir verzlunarstaðir, en mjög mörg af þeim hafa eiginlega ekki verið þorp fyrr en á 19. eða jafnvel á 20. öld. Þau hafa verið að byggjast upp smátt og smátt á seinni tímum, gengið á ýmsu um íbúatöluna, stundum farið fjölgandi, stundum fækkað og á öðrum tímum staðið í stað, en yfirleitt mun það vera svo nokkuð víða, að til þessara þorpa hefur flutzt fólk úr sveitunum, fátækt fólk, sem skorti bústofn eða jarðnæði, og hefur þar á sínum tíma komið sér upp einhvers konar húsnæði af litlum efnum, en víða hefur því húsnæði, íbúðarhúsnæði í þorpum, verið mjög áfátt.

Á þessu hafa að vísu orðið breytingar til batnaðar í seinni tíð, eins og mörgu öðru hér á landi, en það er þó svo, að þorpin eða kauptúnin hafa í raun og veru lítinn aðgang að lánsstofnunum, þar sem hægt sé að fá lán til íbúðarhúsabygginga. Það hafa að vísu verið starfandi ýmsar lánsstofnanir, sem veitt hafa lán til bygginga, svo sem Veðdeild Landsbankans, Byggingarsjóður verkamanna og nú síðast lánadeild smáíbúðarhúsa, svo að nokkuð sé nefnt, en ég held, að það sé ekki rangt með farið, að lánsfé þessara stofnana hafi aðallega gengið til kaupstaðanna; íbúar kauptúnanna eða þorpanna hafi hér fremur lítils góðs af notið.

Það er skoðun okkar flm. þessa frv., að helzta ráðið til þess, að hér verði breyting á til batnaðar fyrir það fólk, sem þarna á hlut að máli, íbúa kauptúnanna eða þorpanna, sé að koma upp sérstakri byggingarlánastofnun fyrir íbúðir á þessum stöðum. Við hugsum okkur, að þessari stofnun yrði komið upp samkv. því, sem í frv. segir, til bráðabirgða með því að ríkissjóður lánaði byggingarsjóðnum nokkra upphæð, sem hér er til tekin 5 millj. kr. og yrði eins konar stofnfé sjóðsins, enda þótt gert sé ráð fyrir, að það endurgreiðist. Síðan veitti ríkissjóður ábyrgð fyrir lánum, sem byggingarsjóðurinn kynni að taka til starfsemi sinnar. Þessi starfsemi, sem hér er gert ráð fyrir, lán til íbúða í þorpum, er nokkuð sérstök, hefur ekki verið til áður sem sérstök starfsemi, og við gerum ráð fyrir því, að það mundi smátt og smátt sýna sig, er sjóðurinn færi að starfa, hverjar aðferðir væru heppilegastar, bæði við útlánastarfsemina sjálfa og eins til þess að afla sjóðnum fjár. Út í það er hér ekki lengra farið í frv., en ætlazt til þess, að sú starfsemi, sem hér er gert ráð fyrir að koma á fót, þróist smátt og smátt eftir aðstæðum.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að sjóður þessi verði í vörzlu félmrn. og að það annist bókhald hans og fjárreiður. Hins vegar sé sérstök stjórn fyrir sjóðinn, sem hafi með höndum að segja fyrir um, hvernig starfseminni skuli hagað, þó að félmrn. annist framkvæmdina. Hér er gert ráð fyrir því, að formaður sjóðsstjórnarinnar sé skrifstofustjóri félmrn., en auk hans séu í stjórninni tveir menn, sem kosnir séu af Alþ.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um lánskjör. Þau eru þar sniðin að miklu leyti eftir lánskjörum í lánadeild smáíbúðarhúsa, samkv. l. frá síðasta þingi. Í l. um lánadeild smáíbúðarhúsa er gert ráð fyrir, að sú deild veiti aðeins lán með 2. veðrétti í húsum. Hér er gert ráð fyrir, að um geti verið að ræða annaðhvort lán með 1. veðrétti eða lán með 2. veðrétti, og mundi það fara nokkuð eftir reynslu, hvort almennara yrði. En um það, hvað 1. og 2. veðréttar lán samtals megi nema miklum hluta af kostnaðarverði, er farið eftir ákvæðum l. um lánadeild smáíbúðarhúsa.

Ég skal ekki rekja efni frv. öllu nánar en ég nú hef gert. Það er með vilja gert að kveða ekki nákvæmlega á um ýmislegt í þessari lánastarfsemi, og höfum við flm. talið, að það væri heppilegra, af því að hér er um nýmæli að ræða, sem ekki hefur hlotið mikinn undirbúning, að slíkt yrði ákveðið með reglugerð, sem ráðh. setti, og svo með þeim starfsreglum, sem stjórn sjóðsins væntanlega setti sér smátt og smátt síðar.

Ég ætla, að ýmis rök séu til þess, að þjóðfélagið ætti að gefa hinum fámennu kauptúnum og þorpum meiri gaum, en gert hefur verið til þessa. Fólk, sem af einhverjum ástæðum hverfur úr sveitunum, leggur oft leið sína til þorpanna í fyrsta áfanga, en margt af því hverfur þaðan aftur eftir skamma dvöl til hinna stóru kaupstaða, m. a. vegna þess, að viðunandi íbúðarhúsnæði skortir í þorpunum. En þar með hefur það að fullu yfirgefið hérað sitt og æskustöðvar og á þá yfirleitt ekki afturkvæmt. Hins vegar er það svo, að í þorpum og kauptúnum eru víða mjög sæmileg afkomuskilyrði, í sjávarþorpunum bæði til sjós og lands, og vel má ætla það, að þau skilyrði fari heldur batnandi, ef sá árangur verður af stækkun landhelginnar, sem margir hafa gert sér vonir um.

Ég vildi mega vænta þess fyrir hönd okkar flm., að þessu frv., sem er algert nýmæli og eins og ég sagði e. t. v. ekki svo rækilega undirbúið sem skyldi, verði tekið með velvild og skilningi í þeirri nefnd, sem nú væntanlega fjallar um það, og síðar af hv. deild. Það getur orkað nokkuð tvímælis, til hvaða nefndar ætti að vísa frv. Það gæti átt heima í hv. fjhn., og það gæti einnig átt heima í hv. heilbr.- og félmn., ekki sízt af því, að það er beint gert ráð fyrir því, að félmrn. annist störf fyrir sjóðinn. Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til hv. félmn. að lokinni þessari umr.