02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

9. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Mér þykir nú leitt, að út af því, hvernig búið er að breyta þingsköpunum, þá lítur nú út eins og það hafi ekki verið rétt, sem hæstv. forseti var að segja áðan, að meiri hl. hefði nú gert grein fyrir sínu máli, þótt stutt væri, því að eins og hann heyrði, þá gerði hv. þm. V-Húnv. grein fyrir áliti meiri hl. í nokkrum orðum úr sínum stól, en nú er enginn þingskrifari, sem skrifar þau fáu og snjöllu orð niður, þannig að þau koma hvergi nokkurs staðar fram í þingtíðindum, og það lítur út eins og meiri hl. hafi alls ekki viljað koma nokkurn skapaðan hlut nærri því að mæla með þessu frv. Hins vegar liggur nú fyrir skriflegt frá honum hans álit í þessu, en það er leitt, að hann skuli ekki hafa séð sér fært að reyna að einhverju leyti að rökstyðja það.

Það hefur nú máske verið dálítið skiljanlegt, sem hér er um að ræða, þ.e. að framlengja með 1. gr. hækkunina á vörumagnstollinum og verðtollinum, sem oft er búið að lofa að endurskoða, eins og tolla- og skattalöggjöfina yfirleitt, en lítið hefur borið á, að ætti að nokkru leyti að efna. Þetta sama frv. hefur verið fyrir okkur hér þing eftir þing. Samtímis þessum frv. hefur svo legið fyrir loforð frá ríkisstj. um að láta endurskoða skatta- og tollalöggjöfina, því að öll tollalöggjöfin er nú orðin þannig, að hún er í ótal pörtum og meginið af því í lögum, sem framlengd eru ár eftir ár, og þannig heitir t.d. þetta frv., sem hér liggur fyrir, „frv. til laga um bráðabirgðabreyt. á l. nr. 62 1939“. Það er þannig bráðabirgðabreyting á l., sem búin er að ganga í gegn frá 1939, svoleiðis að það hefur ekki verið aldeilis neitt svona til bráðabirgða, þegar litið er yfir tímabilið. Ég veit ósköp vel, að hæstv. ríkisstj. mun halda fast á að fá þetta samþ., og það er ekki óeðlilegt frá hennar hálfu. Mínar till. eru þess vegna meira til þess að minna aðeins á þetta, að framlenging þessara hækkana er ekki eðlileg, og sérstaklega ekki þegar þess er ekki gætt um leið að efna þau loforð, sem hvað eftir annað eru gefin um endurskoðun á tolla- og skattalöggjöfinni. Nú mun það t.d. vera svo, að hæstv. ríkisstj. mun hafa sett eins konar milliþn. í skattamálum, en ekkert heyrist frá milliþn. Við höfum ekki hugmynd um, hvort við ættum ef til vill von á því að fá alveg nýja skatta, rétt eftir að búið væri að framlengja alla gömlu nefskattana, alla gömlu tollana, þannig að mín mótmæli gegn þessu frv., sem hérna liggur fyrir, eru fyrst og fremst gerð út frá þeim forsendum að mínna hæstv. ríkisstj. á þær endurskoðanir, sem hún var búin að lofa. Ég er sem sé á móti þessari 1. gr. Hins vegar er ekki nema gott um 2. gr. að segja, þ.e. undanþágur undan 1. gr., og 3. gr. fjallar hins vegar um að feila niður ákveðin aðflutningsgjöld, sem felld hafa verið niður ár eftir ár og ég auðvitað er með.

Ég læt svo útrætt viðvíkjandi þessu máli. Það hefur verið rætt þing eftir þing, þannig að ég hirði ekki um að fara að endurtaka þær umr., þær eru öllum þm. svo kunnar.