06.11.1952
Neðri deild: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

122. mál, atvinnuframkvæmdir

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Öllum hv. alþm. er kunnugt um það, að atvinnuleysi hefur farið mjög í vöxt hin síðari ár. Sérstaklega hefur atvinnuleysið þó verið almennt og þungbært víða í þorpum og kaupstöðum úti á landi. Ég skal ekki rekja hér orsakir atvinnuleysisástandsins, þær eru eflaust margar og mismunandi, en atvinnuleysið er sem sagt staðreynd, sem við er að glíma. Og með þessu frv. hef ég leitazt við að benda m. a. á leið sem ég tel að sé fær í þeim efnum að greiða nokkuð fram úr þessu, þar sem vandinn er mestur.

Það er staðreynd, að bæjar- og sveitarstjórnir úti á landi standa yfirleitt máttvana frammi fyrir atvinnuleysisvandanum. Sveitarfélögin hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að efna til stórkostlegra nýrra atvinnuframkvæmda eða að koma yfirleitt öllum vinnufærum mönnum til vinnu, a. m. k. ekki allt árið. En þá er spurningin sú: Hvað er helzt til úrræða í þessu efni? Það er augljóst, að víða skortir beinlínis á, í þorpum og kaupstöðum, að til séu næg atvinnutæki. Á öðrum stöðum eru þau atvinnutæki, sem efnt hefur verið til, ekki að fullu komin upp og alls ekki komin í fullan rekstur, og þar stendur aðallega á fjármagninu. Sú leið hefur víða verið farin í sambandi við þessi vandamál að reyna að útvega vinnufærum mönnum í kaupstöðum og þorpum úti á landi bráðabirgðavinnu, einkum hér á flugvellinum í grennd við Keflavík eða á öðrum hliðstæðum stöðum. Slíkt úrræði getur vitanlega ekki verið nema aðeins neyðarúrræði og aðeins til bráðabirgða og leysir engan vanda til frambúðar. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er bent á þann möguleika, að ríkissjóður taki allt að 50 millj. kr. lán og endurláni þessa fjárhæð til bæjar- og sveitarfélaga til þess sérstaklega að koma þar upp nýjum atvinnutækjum og fullkomna þau atvinnutæki, sem fyrir eru.

Fyrir þessu Alþingi, sem nú starfar, liggja þegar nokkur frv. um lántökuheimild fyrir ríkissjóð til framgangs ýmsum málum, en mér sýnist, að þótt mörg þeirra mála séu mjög aðkallandi og góð, þá verði ekki dregið í efa, að lántaka ríkissjóðs, sem ætluð er í því skyni að koma upp nýjum atvinnutækjum og auka við framleiðslu þjóðarinnar, auka á þann hátt þjóðartekjurnar, á jafnvel enn þá meiri rétt á sér en flestar þær lántökubeiðnir, sem hér liggja fyrir Alþingi.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hinar einstöku bæjar- eða sveitarstjórnir geri sjálfar fyrst og fremst tillögur um það, í hvaða atvinnuframkvæmdir þær telja hagkvæmast að ráðast. En ríkisvaldið getur að sjálfsögðu haft nokkur áhrif á það, hvað tekið verður til bragðs á hverjum stað, og sett það þá að skilyrði í sambandi við lánveitingu.

Ég hef í grg. fyrir þessu frv. alveg sérstaklega bent á þann möguleika, sem mér sýnist að nú sé fyrir hendi mjög víða í sjávanþorpum og kaupstöðum landsins, en það er sú breytta aðstaða, sem er að verða með vinnslu á nýjum fiski frá togaraflota landsmanna. Menn hafa tekið eftir því, að á síðustu árum er það sífellt að færast meira og meira í vöxt, að togaraflotinn veiði fyrir innanlandsvinnslu. Það er að verða styttri og styttri tími á hverju ári, sem togararnir sigla með aflann óunninn á erlendan markað, en hins vegar er hinn tíminn að lengjast, sem þeir fiska fyrir frystihús og aðrar vinnslustöðvar í landinu. En við þetta skapast að sjálfsögðu gífurlega mikil atvinna á þeim stöðum, þar sem þessi skip leggja afla sinn upp. En þá koma líka upp ný vandamál víða, til þess að staðirnir geti notfært sér þessa miklu atvinnumöguleika. Það er sem sé ekki hægt að vinna úr afla togara alls staðar í fiskibæjum, þar sem nú er hraðfrystur fiskur eða þar sem nú er unnið úr bátaafla. Frystihúsin þurfa yfirleitt að vera allmiklu stærri, afkastameiri, geymslur þeirra miklu stærri, sérstaklega fyrir nýja fiskinn sjálfan. Það þarf að vera ýmis aðstaða til móttöku og afgreiðslu á fiskiskipunum, sem ekki er í hinum smærri höfnum eða ekki hefur verið þar til reiðu, á meðan hafnirnar höfðu aðallega búið sig út til þess að taka við hinum smærri fiskibátum.

Nú er það reynslan, að fjöldamargir staðir sækja ákaft eftir því að fá til sín afla frá togurum til vinnslu. En þá reka menn sig á þennan vanda, að aðstaða er hvergi nærri nógu góð, og þessi afkastamiklu skip sveigja þá frá þeim stöðum, sem hafa ófullkominn útbúnað, og leita frekar til stærstu og bezt útbúnu hafnanna, sem þá í sumum tilfellum þurfa ekki eins mjög á aukinni vinnu að halda eins og einmitt hinir staðirnir, sem eru lakar útbúnir.

Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, næði samþykki Alþingis, þá efast ég ekki um, að það yrðu æði margir staðir úti á landi, sem mundu nota það lánsfé, sem þeim þarna áskotnaðist, til þess að gera hafnaraðstöðu sina og aðstöðu til vinnslu á fiski þannig, að þeir gætu keypt heila togarafarma.

Það er ekkert að efast um það, að á næstu árum mun vinnsla á togarafiski í landinu stóraukast og á þann hátt aukast mikið vinna á þeim stöðum. Ég hef lýst áður yfir hér á Alþingi, að það er mín skoðun og það af nokkurri reynslu, að það láti í rauninni heldur undarlega í eyrum að heyra sagt frá t. d. miklu atvinnuleysi á Vestfjörðum, eins og raun hefur verið á, vitandi þó það, að úti fyrir Vestfjörðum eru einmitt mjög mikil og góð fiskimið togara og þar hefur togarafloti okkar stundað einna mest veiðar. En einmitt hafnirnar á Vestfjörðum liggja sérstaklega vel við veiðisvæði togaranna til þess að landa þar nýjum afla svo að segja jafnóðum og hann veiðist og taka hann þar til vinnslu á bezta stigi. Hvergi mundi togaraflotinn yfirleitt óska frekar eftir því að geta landað afla sínum til vinnslu heldur en einmitt á höfnunum á Vestfjörðum. En á sama tíma sem togarafloti landsmanna vill gjarnan á vissum tímum árs landa afla sínum til vinnslu innanlands, þá sem sagt gerist þetta, að á Vestfjörðum er svo mikið atvinnuleysi, að menn verða að leita þaðan í hundraða- og jafnvel þúsundatali til óarðbærrar vinnu suður á Keflavíkurflugvelli. Ástæðan til þessa, sem auðvitað er ekki eingöngu á Vestfjörðunum, heldur er nokkuð svipað að segja um ýmsa aðra landshluta, þó að þetta sé einna mest áberandi einmitt um Vestfirðina, — ástæðan til þess, að þetta getur gerzt, er sú, að það vantar enn þá aðstöðu á þessum útgerðarstöðum þar vestra til þess, að það geti heitið boðleg aðstaða fyrir hina stóru og fullkomnu togara okkar að landa þar afla sinum og hægt sé að vinna hann þar með eðlilegum hraða.

Það er skoðun mín, að það eigi að leysa atvinnuvandamál þessara staða á Vestfjörðum, á Norðurlandi, Austfjörðum og enn víðar m. a. á þann hátt að gefa bæjar- og sveitarstjórnum í þessum landshlutum möguleika til þess að fá nægilegt fjármagn að láni frá ríkinu til þess að koma upp þeirri aðstöðu, sem gæti skapað þeim möguleika til þess að fá allan þennan afla til vinnslu og hafa þannig svo að segja óþrjótandi vinnu fyrir allt sitt fólk. Það er ekki að efa, að af hálfu ríkisvaldsins verður ekki hægt að skjóta sér undan þeim vanda að ráða fram úr þessum erfiðleikamálum, sérstaklega fyrir þorp og kaupstaði úti á landi, þar sem ég tel að þetta ástand sé nú langalvarlegast. En þá er aðeins hitt, hvaða ráð eru tiltækilegust, hvernig verður helzt hægt að útvega fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda til þess að ráða bót á þessu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa mitt mál lengra hér við þessa umr. Málið er í sjálfu sér allkunnugt hv. alþm., en ég vil vænta þess, að það fái góðar undirtektir, svo mjög aðkallandi sem lausn á því í rauninni er, og vildi því leggja til að, að lokinni þessari umr. yrði málinu vísað til hv. fjhn.