08.10.1952
Neðri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

10. mál, áburðarverksmiðja

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og lögin um áburðarverksmiðju bera með sér, þá er gert ráð fyrir, að það sé mögulegt að koma henni upp með tvennu móti. Annars vegar er ráðgert í l., að henni yrði komið upp þannig, að hún yrði hreint ríkisfyrirtæki, ríkið byggði hana og ræki. En svo er einnig gert ráð fyrir því í lögunum, að önnur leið geti orðið farin og hún sé sú, að stofnað sé hlutafélag. Og það getur enginn, sem athugar lögin, verið í vafa um, og ekki heldur þeir, sem fylgdust með málinu, að ef slíkt hlutafélag væri stofnað, ætti það að vera stofnað til þess að byggja og reka áburðarverksmiðju. Nú var þessi síðari leið farin, og þess vegna hefur ríkisstj. samkvæmt heimildum, sem um það hafa verið samþykktar, lánað hlutafélaginu, sem reisir áburðarverksmiðjuna, það fé, sem til hennar hefur farið. Og hlutafélagið reisir verksmiðjuna og rekur hana.

Nú segist hv. 2. þm. Reykv. hafa á þessu annan skilning, og vitaskuld getur enginn bannað honum að mótmæla þessu, vegna þess að hann hefur málfrelsi til þess hér á hv. Alþingi og annars staðar, ef hann vill. En þannig er þessu háttað og á því getur enginn vafi leikið.

Nú spurði hv. 2. þm. Reykv., hvort það væri meiningin að gefa áburðarverksmiðjunni eða hlutafélaginu eitthvað. Það er hægt að lýsa því hreinlega yfir, — en ég hélt, að það væri nú öllum vitanlegt, — að það er ekki ætlunin að gefa hlutafélaginu neitt. Það, sem ríkissjóður leggur fram sjálfur, er lagt fram sem hlutafé. Og ef þannig fer, að þeir, sem leggja í áburðarverksmiðjuna, verða ríkir á því, eins og hv. 2. þm. Reykv. heldur að verði, þá verður ríkissjóður einnig ríkur af þessum 6 millj., sem hann leggur fram sem hlutafé, og ætti það að minnka a.m.k. um 3/5 áhyggjur hv. 2. þm. Reykv. í þessu sambandi. Annað fjármagn, sem áburðarverksmiðjan fær, er henni veitt að láni, sem hún á að endurborga.

Hv. 2. þm. Reykv. finnst þetta vera slæmt fyrirkomulag, og ég get í sjálfu sér skilið það, vegna þess að hann mun vilja ríkisrekstur á sem allra flestu, og frá hans sjónarmiði er þetta vafalaust skökk aðferð. En við því er auðvitað ekkert að gera, hann getur reynt að vinna þeirri skoðun sinni fylgi, og eins og ég sagði áðan, er honum heimilt að sjálfsögðu að telja þetta skakkt og mótmæla því. En ég minni hv. 2. þm. Reykv. á, að hann talar til þingmanna eins og hér hafi skeð eitthvert skelfilegt óhapp og það geti farið svo, að þarna verði einhverjir „voðalega“ ríkir á þessari aðstoð, sem hlutafélagið fær með því að fá fé að láni. Það er nú ekki annað, sem gert er. Aðstoðin á ekki að vera í öðru fólgin. Þetta gefur mér tilefni til þess að minna hv. 2. þm. Reykv. á, að hann hefur ekki ævinlega verið svona hræddur um það, að einstaklingar græddu, þó að náð væri saman lánsfé með tilstuðlun Alþingis og það lánað aftur einstaklingsfyrirtækjum. Ég held, að það hafi enginn endir verið á því, hvað þessi hv. þm. og hans flokksbræður gortuðu af því að eiga þátt í stofnun stofnlánadeildar sjávarútvegsins t. d. Sú löggjöf fjallaði um að ná saman lánsfé og að það fé skyldi afhent einstaklingum og hlutafélögum til þess að kaupa margvísleg tæki. Það var einkennilegt, að þessi hv. þm. skyldi ekki þá vera jafnhræddur um, að menn gætu orðið ríkir, eins og hann virðist vera í sambandi við rekstur áburðarverksmiðjunnar. En hvað um það, ég segi þetta síðasta nú meira í gamni heldur en að það hafi verið beint þörf á því. En aðalatriðið er þetta, og til þess fór ég hingað í ræðustólinn, að lýsa því yfir einu sinni enn, að hlutafélagið reisir að sjálfsögðu verksmiðjuna og á hana, framlag ríkissjóðs sjálfs er lagt í fyrirtækið sem hlutafé, en allt annað fé, sem verksmiðjunni er útvegað, er lánað og á að greiðast til baka, og þess vegna verður engum gefið eitt eða neitt í sambandi við þessi viðskipti.