10.12.1952
Sameinað þing: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í C-deild Alþingistíðinda. (3356)

180. mál, tollskrá o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Ég verð að segja, að mér finnst það einkennileg skoðun, sem kemur fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að mál þetta eigi ekki að fá þinglega meðferð og athugun í þeirri n., sem samkv. eðli málsins á að athuga það, þó að það sé flutt af annarri n. Eins og hann gat um, þá var ég nú forfallaður vegna lasleika, þegar nefndarfundur var haldinn í iðnn., sem ákvað að flytja málið, en það hefði ekki breytt neinu, því að ég hefði ekkert haft á móti því, að málið væri flutt, en þrátt fyrir það á það náttúrlega að fá athugun í fjhn.

Ég vil út af þessari skoðun hv. 7. þm. Reykv. varpa fram þeirri spurningu t. d., hvernig mundi vera litið á það, ef fjhn. þessarar d. bæri hér fram frv., sem snerti iðnaðinn, við skulum segja frv. til iðnaðarl. eða frv. til l. um iðnfræðslu eða eitthvað þess háttar. Ætti þá ekki slíkt mál að fá athugun í iðnn., þó að það væri flutt af annarri þingn.? Ég geri ráð fyrir, að hv. 7. þm. Reykv. og ýmsum öðrum þætti það eðlilegt, að þannig væri með það mál farið. Sama gildir vitanlega um þetta. Tollamál hafa alltaf verið og eiga að vera til athugunar í fjhn. þingsins, og það er engin ástæða til að breyta út af þeirri venju og sjálfsögðu reglu, hvernig sem háttað er um flutning frumvarpanna.